01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jóhannes Jóhannesson:

Eg verð að segja, að eg varð hissa á því, að sjá háttv. þm. Sjfk. (R. Þ.) standa upp nú við þessa umræðu og tala á móti fjárveitingu þeirri til Eiðaskólans, sem hann bar fram og mælti fram með eftir föngum við 2. umr., en þó býst eg við, að aðra hafi furðað meira á þessu en mig, því eg þekki manninn nokkuð og var ekki með öllu óviðbúinn þessum veðrabrigðum. Það er ekki til neins fyrir hinn háttv. þm. Sfjk. (R. Þ.), að reyna að telja öðrum trú um, að breyt.till. fjárlaganefndarinnar sé aðgengileg, því háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sýndi fram á það í gær, að hvort, sem litið er á hag landssjóðs eða eigendur skólans, þá er breyt.till. óhagkvæmari, en fjárveitingarnar í frumv., nema því að eins, að þingið ætli að draga að sér hendina, og veita að eins þá upphæð, sem hér er um að ræða, að eins í þetta sinn, og háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) tók það skýrt fram í gær, að þingið væri alveg óbundið í þessu efni framvegis.

Hér liggur þá annað undir steini. Eg gat þess áðan, að eg væri ekki með öllu óviðbúinn þessum veðrabrigðum háttv. þm., og kom það til af því, að hann kallaði mig á eintal um daginn, og spurði mig um afstöðu mína til aðflutningsbannsmálsins. — Gat hann þess þá, að hann vissi, að mér væri áhugamál, að fá sem mestan styrk til Eiðaskólans, og að afstaða hans til þess máls mundi fara eftir því, hvernig eg kæmi fram í bannlagamálinu. Með öðrum orðum háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) og sálusorgari minn, vildi koma mér til þess, að fara í hrossakaup. Af því að eg ekki vildi selja sannfæringu mína í aðflutningsbanninu, þá hefir hann nú snúist svo í Eiðaskólamálinu, að hann reynir nú af öllum mætti, að rífa það niður, sem hann var með til að hyggja upp við 2. umr. Að hve miklu leyti hin háttv. deild vill styðja hann til þessa, jafn göfugmannlegt og það er — um það læt eg deildina.