01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Þorláksson:

Mér fanst 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.) reisa sig nokkuð hátt, er hann sagði að eg hefði svikið mál, er eg hefði lofað að flytja. Hann þykist vera orðheldnari en eg. Um það læt eg aðra dæma. En út af brigslum hans til mín, liggur nærri að eg enn einu sinni minni hann á hversu fast hann stóð við yfirlýsingar sínar um árið, þegar hann var að koma sér fram til þingmensku í Norður-Múlasýslu, og þegar hann hafði hlotið það hnoss. Íbúar Seyðisfjarðarkaupstaðar, er orðið hafa að berjast þar gegn vínsölunni, gætu borið um þetta. Framkoma hins háttv. þm. í millilandanefndinni borin saman við erindisbréf hans frá þjóðræðisflokknum, sýnir sams konar festu. og til að nefna 3. dæmið, get eg þess hér eftir skjali, sem eg hefi hér í höndunum, að þessi sami háttvirti þingmaður lofaði í haust, áður en hann var kosinn, að vera með aðflutningsbanni hér í þinginu, og í 2. lagi verða flutningsmaður þess, ef kjósendur hans skoruðu á hann. En þessi loforð hefir hann, eins og kunnugt er, alveg brugðið hér í deildinni, Það sýnir atkvæðagreiðsla hans hér tvívegis.

Eiðaskólamálinu álít eg betur borgið, ef umrædd breyt.till. næði fram að ganga, og mundi eg geta sannfært þingmanninn um það, ef hann vildi einslega hlýða á orð mín.

Það sem hann sagði um hrossakaup nær ekki til mín. Hann mun kunna betur að hrossakaupum en eg, enda haft lengri tíma til þess að verða leikinn í þeim.

Að öðru leyti get eg ekki annað en látið hina háttv. deild dæma um, hversu drengilegt sé að hlaupa inn í þingið með orð, sem menn tala privat, eða utan þings, eins og þingmaðurinn hefir gert hér.