01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Ólafsson:

Bezt er að byrja á endanum. 2. þm. Árn. (S. S.) var að tala um að hann gæti sannað mál sitt með einhverjum tölum. Eg þarf ekki að svara því, fyr en hann kemur með þessar tölur. Hann hefði víst ekki látið það bíða, hefði hann haft þær á takteinum. Annars varð eg ekki var við, að hann talaði um sín sérfræðilegu efni, smjörskökur og skilvindur, og þarf því ekki miklu að svara af hans ræðu.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.), Vestm. (J. M.) og 1. þm. Eyf. (H. H.) þótti eg hafa farið of hörðum orðum um séra Runólf, en eg skal að eins svara því, að þeir mættu vera mér þakklátir fyrir mín vægu ummæli. Eg hefði mörgu við þau að bæta, ef eg vildi.

Út af breyt.till. háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) um Eiðaskólann, skal eg játa, að fátt hefir komið jafn flatt upp á mig, sem þau veðraskifti. Hann er nú að drepa með annari hendi það, sem hann áður studdi með hinni. Við aðra umræðu fór hann fram á, að Eiðaskólanum væri veitt úr landssjóði 20,000 kr. yfir fjárhagstímabilið, 10 þús. kr. hvort árið. Nú vill hann, að landssjóður að eins borgi, sem svarar rentum og afborgun af þeim í 2 ár, 1500 kr. á ári. Eftir tillögu hans, þá yrði að veita skólanum árlega fé í 28 ár. Það er eigi gott að sjá, hverjum sé hagræði að slíku fyrirkomulagi, að minsta kosti verða sýslurnar ver úti. Þær verða að borga að fullu lán sín til hússins, að 5 árum liðnum, og verður þá erfitt fyrir þær að standa í kilum. Og eigi tillagið, þessar 1500 kr., að vera komið undir hverju þingi, þá er það auðvitað gott flokksvopn fyrir meiri hlutann, góð kosningabeita fyrir þingmanninn og núverandi meiri hluta, ef ekki þyrfti annað, en hóta Múlsýslungum, að styrkurinn yrði tekinn af þeim, ef þeir kysu ekki stjórnarþý á þing. Þá er líka auðskilin veðrabreytingin hjá háttv. framsögum. (Sk. Th.) og að flokksbræður hans margir verði á móti því, að Eiðaskólanum séu veittar þessar 20,000 kr. í eitt skifti fyrir öll. Heldur ekki landssjóður græðir á þessu fyrirkomulagi, nema síður sé. Það er fyrir hann alveg sama og hann tæki lán til þessa með 5% rentu árlega, en það er nú máske svo fyrir þakkandi, að svo háum vaxtakjörum þarf hann eigi að sæta enn. Eg vil því slá því föstu, að það er öllum hlutaðeigendum til óhagræðis, utan meiri hluta-flokknum, sem kynni að vilja hafa þetta sverð hangandi yfir hálsi Múlsýslunga um 28 ár við allar kosningar. En vara má þingm. sig á því, hvernig Múlsýslungar snúast við slíku tilræði, og hvort þeir þakka honum það mjög. Eg þekki líka ofurlítið skaplyndi manna þar.

Þá skal eg víkja máli mínu, að hv. þm. Dal. (B. J.), sem var að reyna að krukka í mig út af ummælum mínum um styrk til Einars Jónssonar. Eg hef nú fæst heyrt af því, sem hann sagði, af því að eg varð að ganga út, en það get eg fullvissað hann um, að síðari árin hef eg ekkert listaverk séð eftir þennan mann. Eg hefi reyndar séð útilegumanns-afskræmið með grísku konuna á baki sér, en það er ekkert listaverk. Yfir höfuð eru verk hans svo full af firrum og fjarstæðum og »symbólskum« vitleysum, að mig furðar, að nokkur maður vilji kalla þau listaverk. Eg skal minnast á eitt, sem eigi á að vera hvað sízt. Það er minnisvarði Snorra Sturlusonar. Ekkert í öllu því mikla verki, sem minnir á Snorra. Þar er mynd af grískri Klió, ströndinni á Grænlandi, Noregi og Íslandi. Það er líkast því, sem það hafi verið allur heimur Snorra Sturlusonar. Hann hafi ekki þekt annað. Hvernig á nokkur maður að þekkja Snorra Sturluson af slíku verki? Hvernig ætti nokkrum manni, að koma í hug, að það eigi að vera minningarmark yfir Snorra, sé honum ekki sagt það.

Og svona er um mörg síðari ára verk Einars. Enginn getur vitað, hvað þau eiga að þýða, nema neglt sé upp á þau spjald og ritað á, hvað þau eigi að tákna.

Hefði Einar tekið máluðu myndina hans Krogh’s af Snorra, sem er snildarverk, og höggvið hana í marmara, eða gert hana í gipsi og látið steypa í eir, þá hefði eg viljað greiða honum stórfé fyrir — þó að hann hefði þar notað fyrirmynd annars manns, ef hann hefði gert það vel, sem eg hygg hann hefði getað gert.

En það sem þjáir Einar er sjúkdómsleg löngun til frumleika, sem lýsir sér í fáránlegum, óskiljanlegum fígúrum.

Náttúruna fyrirlítur hann, eða álítur hana langt fyrir neðan sig. Gríska stúlkan nakta, sem útilegumaður hans ber á bakinu, er í alveg ónáttúrlegum stellingum. Ekkert lík gæti haldið sér í þeim.

»Ingólfur« hans er genginn úr axlarliðnum, og svona gæti eg fleira til tínt.

Hinn háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að ef útlendingar vildu styðja hann (E. J), og það mundu þeir gera, þá væri illa farið, ef hann yrði neyddur til, að eyða kröftum sínum í þarfir annara þjóða, er hefðu heiður allan af því, enda vill hann það ekki, en láta fósturjörðina njóta ávaxta iðju sinnar. En þar sem útlendingar vilja ekkert af listaverkum hans af honum kaupa, þá lítur ekki út tyrir, að hann sé meira metinn hjá þeim en hjá oss — ekki nærri eins mikið. Eg held listinni yrði lítill söknuður í, þótt landið losnaði við þá gjaldabyrði, er af honum stafar. Hingað til hefir þjóðin kostað upp á hann 6,400 kr., og virðist sú ölmusa nógu há, þótt ekki sé þar við bætt, enda tel eg rétt, að láta staðar nema með styrk til bans, þangað til hann sýnir eitthvað af sér, sem vert er að styðja.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði líka um styrk til þýzk-íslenzkrar orðabókar. Í tillögunni var farið fram á 1000 kr. styrk, eg vil láta miða hann við arkafjölda. Þýzk-íslenzka orðabók er auðvelt að þýða úr öðrum tungumálnm og þarf ekki að taka langan tíma. — Dönsk-íslenzk orðabók eftir Jónas aðalhöfund var 50 arkir að stærð, en þó voru að eins 800 kr. veittar til hennar; finst mér því 40 kr. fyrir örkina sé sómasamleg borgun fyrir svona verk, og að vísu er það meira, heldur en 60 kr. á örk fyrir að semja íslenzka orðabók, sem er tíu sinnum meira verk.

Þá get eg ekki sakir orða háttv. 1. þm. G.-K.(B. Kr.) og háttv. þm. A.-Sk. (Þ.J.) stilt mig um, að minnast á Vestmannaeyjasímann. Þeir voru að tala um, að geta komist í samband við skip, sem fram hjá fara, og nota til þess þráðlausa firðritun eða loftskeyti Marconis. En það kemur ekkert við sambandi Vestmannaeyja við meginlandið. Það er öruggast og lang ódýrast með sæsíma. Loftskeytastöð má eins fyrir því reisa í eyjunum (eða annarsstaðar) til sambands við skip. En til þess þarf að eins eina stöð. En rekstrarkostnaður loftskeytastöðva er svo dýr, að hver ein af þeim jetur upp á fám árum allan kostnaðinn við sæsímalagninguna; en á henni (símastöðinni) er rekstrarkostnaður sama sem enginn. Að fara að reisa loftskeytastöð á landi, til að halda uppi sambandi við Eyjarnar, er bara að fleygja fé í sjóinn.

Eg veit ekki um neitt símasamband hér á landi, sem er jafnnauðsynlegt, hvað þá nauðsynlegra, en þetta samband við Vestmannaeyjar, og þessi sími ætti, eins og allir aðrir að byggjast af lánum, eins og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) drap á. Hann borgar þegar frá byrjun vöxtu og afborganir, og verður landssjóði hreint gróðafyrirtæki, auk þess sem hann er vitanauðsynlegur öllum sjávarútvegi landsins.