05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ari Jónsson:

Þótt þessu máli sé leifður lítill tími hér í deildinni, þá langar mig þó til þess, að tefja umræðurnar örlítið með nokkrum athugasemdum.

Það er spaklega mælt, að varði mest til allra orða, að undirstaðan rétt sé fundin. Þetta gildir ekki einungis um orð, heldur og um allar gjörðir og framkvæmdir. — Þegar skoðun er látin í ljós um, eða leggja á dóm á þær kröfur, sem alþingi hefir með höndum, þá ber ekki að eins að líta á kröfurnar sjálfar, heldur ber og að taka tillit til á hverju þær séu bygðar og hver grundvöllurinn sé undir þeim. Því sé grundvöllurinn sendinn, þá er við búið að það, sem ofan á verður bygt, verði haldlítið og gallað.

Vér meirihlutamenn byggjum kröfur vorar á þrem máttarstólpum.

Fyrsti máttarstólpinn er lagalegur og sögulegur réttur Íslendinga. Þetta er ekki nýtt, að minst sé á þennan máttarstólpa í sjálfstæðisbaráttu vorri. Honum hefir ekki aðeins verið haldið fram nú, heldur hafa beztu menn þjóðarinnar haldið honum fram á öllum tímum. Það hefir mikið verið rætt um þennan rétt vorn, og því fer betur, að þetta atriði hefir skýrst og orðið ljósara á síðari tímum. Þetta hefir haft þær afleiðingar, að bæði hefir þeim Íslendingum fjölgað, er haldið hafa fram þessum rétti vorum af fullri einurð, svo hafa og ýmsir mikilsmetnir útlendingar kynt sér þjóðarrétt vorn, og stutt með skoðunum og tillögum sínum réttarkröfur vor Íslendinga; sérstaklega eru það Norðmenn, er hafa orðið oss til mikils stuðnings í þessu atriði. Eg skal jafnframt og sérstaklega benda á, að margir þingmenn minnihlutans litu líka svona á málið fyrir einu ári, sbr. það sem skráð er 16. marz 1908 í bláu bókina. En því ber ekki að neita, að nokkrir Íslendingar hafa síðan orðið til þess, að gera lítið úr þessum máttarstólpa og gengið í bandalag við Dani í því efni.

Annar máttarstólpinn, sem meiri hlutinn byggir á kröfur sínar, er sá siðferðislegi og eðlilegi réttur vor, sá réttur, sem þjóðerni vort gefur oss til þess, að ráða oss sjálfir, viðskiftum vorum og atvinnugreinum. Þessum rétti hefir enginn mótmælt, og eg vona að slíkt verði ekki gert.

Þriðji máttarstólpinn undir kröfum meirihlutans er vilji íslenzku þjóðarinnar sjálfrar. Þessi vilji til að halda fullum rétti Íslendinga hefir ekki aðeins komið fram á síðari árum. Hann hefir haldist í landinu síðan Einar Þveræingur hélt fyrst fram þjóðrétti vorum, og komið oft fram mjög ákveðinn og eindreginn, t. d. má nefna þjóðfundinn 1851. Nú hefir þessi vilji þjóðarinnar vaknað með nýjum krafti á síðustu árum. Þjóðin hefir sýnt það, að hún vill halda fram fullum þjóðarrétti, öllum þeim meginréttarkröfum, sem meiri hlutinn nú berst fyrir.

Það er því eigi á ótraustum grundvelli bygt, sambandslagafrumvarp meiri hlutans. Réttarkröfur þess styðjast við svo öflugar meginstoðir, að hver útlend þjóð hlýtur að taka tillit til þess, ef hún kynnir sér málið til fulls. Frumvarpið fer fram á fullan rétt Íslendinga, og forðast alt afsal á þjóðréttindum vorum; þar skilur mikið á milli þess og frumvarps millilandanefndarinnar.

En nú kemur spurningin um það, hvort vér getum komið frv. fram. Eg tel það alls ekki fullreynt, fyr en óskir vorar (þingsins) eru komnar fram fyrir Dani; þá fyrst er fullreynt, hvort Danir vilji taka máli voru eða ekki. Þótt forsetar þingsins hafi talað við konung og forsætisráðherra Dana, þá getur svar þeirra eigi verið jafngilt og það kæmi frá dönsku þjóðinni í heild sinni, allra sízt þar sem ekkert ákveðið opinbert svar liggur fyrir. Fyrst er fullreynt, þegar Danir hafa formlega og fyllilega svarað réttarkröfum þingsins.

En hvernig hafa nú minnihlutamenn þingsins komið fram í þessu sambandsmáli. Á hverju byggja þeir kröfur sinar og hverjar eru þær. Eg gat þess áðan, að allir íslenzku millilandanefndarmennimir hefðu í upphafi (sbr. bláu bókina) bygt kröfur sínar á því, að Ísland væri frjálst ríki og réði öllum sínum málum sjálft, en það má fyllilega ætla, að þeir hafi aðeins borið þessar kröfur sínar fram til málamynda, sem svo átti óðar að slá af, eins og afsláttar-klára, enda var það gert svikalaust; það sást bezt, þegar frumvarpið sæla kom fram. Hver er nú þar sá grundvöllur, sem minnihlutinn byggir frumvarp sitt á, og neytir allrar orku til að berja fram. Grundvöllurinn er ofur augljós í nefndaráliti minni hlutans, bæði í Nd. og Ed. Þar er ekki bygt á öðru en því, að vér séum þegar innlimaðir. Í fyrra bygðu þeir á sjálfstæði, en hvað gera þeir nú? Nú byggja þeir á sama grundvelli og Danir hafa jafnan gert, þeim grundvelli, að vér séum þegar innlimaðir Danmörku. Og byggingin hefir svo orðið lík undirstöðunni.

Eg ætla ekki að fara út í einstök atriði í frumv. millilandanefndarinnar. Menn vita alment, hvar innlimunin kemur bezt fram, sem sé í hermálum og utanríkismálum, sem vér ætlum Dönum samkvæmt því frumv. að fara með fyrir vora hönd, án þess að hafa nokkra trygging fyrir því, að vér getum nokkum tíma náð þessum málum til okkar aftur, eða undir okkar yfirráð. Og til hvers er þessu afsalað? Til hvers vilja þeir afsala yfirráðum í þessum málum? Jú, til þess að vér getum fengið fram nokkrar breytingar, sem minni hlutinn lítur ákaflega stórt á, en sem eg verð að telja lítils verðar, þegar litið er til þeirra tveggja atriða, yfirráðanna í hermálum og utanríkismálum, er vér um leið semjum af oss. Vér eigum ekki að kaupa réttindi, sem vér eigum, með réttarafsali í mikilsverðum atriðum.

Ýmsir aðrir ókostir eru á frumvarpi minnihlutans, sem eg ætla ekki að fara út í. Eg vil aðeins drepa á eitt atriði, þennan gerðardóm, sem var áðan færður til sem sönnun þess, að frumv. ætlaði Íslandi að verða fullveðja ríki. Nefndarmönnunum hafa verið furðu mislagðar hendur, þegar þeir gengu inn á, að danskur maður skyldi ávalt hafa æðsta úrskurðarvald í slíkum dómi.

Annað er það, sem athugavert hefir þótt. Það er ósamræmi textanna. Nefndarmenn hafahaldið því fram, meðal annara 3 þeirra í mín og margra manna eyru, að textarnir væru í fullu samræmi. Hver er nú raunin á orðin? Allir Íslendingar sjá ósamræmið, og Danir hafa viðurkent það. Því eru mennirnir enn að neita því?

Frumvarpsmenn hafa lagt áherzlu á það, að samningsaðilaréttur vor Íslendinga sé viðurkendur með því, að vér fáum að gera sambandssáttmála við Dani. Gott, en hvers virði er þessi samningsaðilaréttur, sem er í því falinn, að vér afhendum Dönum vor mál? því er svo fyrir komið, að minsta kosti um tvö af þessum málum, að vér verðum ekki samningsaðilar um þau aftur, nema Danir vilji svo vera láta.

Eg ætla ekki að halda lengri ræðu nú. Eg bæti kann ske við síðar. En eg vil aðeins taka það fram, að vér meirihlutamenn látum oss eins og vind um eyrun þjóta þá spádóma, sem nefndarmennirnir hafa sífelt borið fram í ræðu og riti, síðan er þeir komu heim úr för sinni. Þessir spádómar eru engir hæstaréttardómar. Það er sagan og framtíðin, sem leggur dóminn á gerðir þessara manna í millilandanefndinni. Það er ekki að furða, þótt þeir þurfi að halda langar varnarræður fyrir framkomu sína í nefndinni og síðar. Þeir voru umboðsmenn þjóðarinnar, sem báru fram hennar kröfur. Þeir byrjuðu vel, og settu markið hátt. En síðan tefldu þeir refskák um réttindi landsins, og lauk svo að Danir brældu inni 6 nefndarmennina. Það er von, að þeir þurfi á varnarræðum að halda. En eg held, að þeir umboðsmenn vinni sér seint traustið aftur, sem hafa látið til leiðast, að reyna að koma á aftökustaðinn réttindum landsins, yfirráðunum í utanríkismálum og hermálum.