01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Hálfdan Guðjónsson:

Fjárhag landssjóðs fer hnignandi; hallinn nemur nál. 3½ hundr. þús. kr. á fjárlögum og fjáraukalögum. Ef fjárlögin verða samþykt þannig í deildinni og að auki breytingartillögur þær, sem fyrir liggja og hafa útgjöld í för með sér, þá er sýnilegt, að hallinn mundi nema ½ miljón króna, þótt ekki séu þar með talin útgjöld, sem eru eftir sérstökum lögum, og hafa mikinn kostnað í för með sér.

Þá vil eg minnast nokkrum orðum á lánsheimildir þær, sem svo eru nefndar. Dettur mér þá fyrst í hug lánsheimildin til heilsuhælisins — 150 þús. kr.

Fyrirtækið má vel vera gott, en mér fellur illa að nefna þetta lánsheimild, þar sem auðvitað er, að hér getur ekki verið um endurborgun að ræða; fyrirtækið getur aldrei orðið í því horfi, að hægt verði að greiða rentur og afborganir. Þetta er því dulnefni, ætti að vera blátt áfram sagt, að byggingarkostnaðurinn greiðist af landssjóði.

Þá er skuldin við Dani, þessi ½ miljón kr., sem talið er að vér skuldum þeim.

Ennfremur má nefna póstávísanasamband Íslands við önnur lönd. Þar var mikil skuld við síðustu áramót, eg hefi heyrt talað um alt að 1 miljón kr.

Eg vil nú spyrja: Er þetta og annað eins glæsilegt? Mér kæmi ekki á óvart, þótt menn svöruðu þessari spurningu á þá leið, að þessar skuldir séu nú ekki svo ægilegar, þar sem hins vegar megi gera sér allglæsilegar tekjuvonir áður langt um líði. — En eg vil þá segja, að þetta sé einmitt þvert á móti. Hér hefir verið óáran í landi í verzlun og öðrum viðskiftum, og langt frá að séð sé fyrir afleiðingarnar af því enn; þó hljóta þær að koma fram fyr eða síðar.

Mér hefir verið sagt af verzlunarmanni, sem er gáfaður maður og reyndur í þeim efnum, og mun bera meira skynbragð á þetta en eg og jafnvel helmingur þeirra háttv. þm., er hér eiga sæti, að tollaukalögin nýju muni ekki gera betur en vega á móti því, sem almenningur muni spara við sig kaup á tollskyldum vörum. Á þeim er því ekki mikið að byggja.

Þetta gæti nú að vísu verið gott og blessað alt saman — bara ef gjaldþol landsmanna væri nóg; ef skuldir væru ekki mjög miklar og dálítið fjársafn fyrir, þá mætti alt af ýtta undir þá, sem féð eiga, að þeir legði til framkvæmdanna.

En að því er fjársöfnun snertir, þá getur hún alls ekki átt sér stað; þegar bankarnir eru í fjárþröng, þá verður ekki úr henni bætt með innlendu fé, það eru ekki Íslendingar, sem kaupa þá verðbréf bankanna — nei, þá er eina ráðið að flýja á náðir erlendra auðmanna. Og nú hafa verðbréfin stórum fallið erlendis.

Þá eru skuldirnar? Það munu vera fleiri en eg, sem gætu farið í sjálfs sín barm og yrðu að viðurkenna, að langt sé frá, að vér séum skuldlausir. Og þótt einstakir menn geti sagt það um sjálfa sig, að þeir séu skuldlausir, þá verður það alls ekki sagt um Íslendinga yfirleitt.

Það má nefna hér margs konar skuldir: víxla, sjálfskuldarábyrgðir, verzlunarskuldir o. s. frv. Það er heill her af skuldum, rétt eins og keðja, er ekki verður séð fyrir endann á. Í þessari óendanlegu keðju eru menn flæktir víxlaböndum og sjálfskuldarábyrgða. Það er því varlega farandi, ef á að fara að reyna meira á gjaldþol landsmanna.

Ef minst er sérstaklega á kaupstaðarskuldirnar, þá mundu margir segja, að kaupmenn væru ríkir, þeir ættu sjálfir allar skuldirnar, og féð væri því til í landinu. En þessu er nú því miður ekki þannig varið; kaupmenn eiga í rauninni alloftast minst í skuldunum sjálfir, heldur skulda þeir sínum erlendu lánardrotnum, jafnvel meira en þessum skuldum nemur. Þetta sést ljóslega af því, að lánstrausti íslenzkra kaupmanna fer síhnignandi; verzlanirnar verða að hætta hver um aðra þvera.

Hér er því bæði um erlendar skuldir og innlendar að ræða, skuldir og aftur skuldir; þeim er svo einkennilega fyrir komið, skuldafjöturinn svo traustur. Það hefir verið talað mikið um listir og vísindi og styrkveitingar til þeirra.

En mætti þá ekki einnig tala um þessa einstöku list, er lýsir sér í þessari »vísdómslegu« skuldakeðju? Væri ekki rétt að styrkja þá, er sérstakir afburðamenn væru í þeirri grein lista og vísinda, að útslíta sem rækilegast gjaldþoli manna og lánstrausti?

Eg ímynda mér að fleirum en mér muni það ljóst, að gjaldþol landsmanna er ekki vænlegt; það er því ekki um skör fram, er þjóðarviljinn heimtar nú gætilega fjármálastjórn.

Mig skyldi stórfurða á því, ef þingmenn færu nú að ganga í berhögg við viturlegan þjóðarvilja í þessum efnum, ef þeir færu nú að svíkja gefin loforð; já, það er hart að þurfa að taka þannig til orða, en eg hlýt þó að að líta svo á, að með atkvgr. á síðustu þingmálafundum mörgum hafi þjóðin gert þessa kröfu til fulltrúa sinna.

Ef fjárlögunum verður nú slept með ½ milj. kr. tekjuhalla, þá gæti það skeytingarleysi beinlínis orðið að óskammfeilni.

En er nú hægt að ráða bót á þessu? Já, víst er það hægt. En til þess þarf sjálfsafneitun, til þess verða menn að fara varlega í fjárveitingum. Það þarf að fella burtu úr gjaldabálki fjárlaganna — eða að takmarka að minsta kosti — allar þær breytingartillögur, er komið hafa fram.

Þetta voru nú hinar almennu athugasemdir, er eg vildi gera, áður en gengið verður til atkv. um þetta mál í síðasta sinn hér í deildinni, áður en það fer til háttv. efri deildar.

Eg skal ekki þreyta menn á einstökum atriðum, það eru aðrir búnir að tala um þau, enda leiðist mér sjálfum allar endurtekningar og geri ráð fyrir, að öðrum muni einnig svo farið.

Þó get eg ekki með öllu slept einstökum atriðum og mun eg þá sérstaklega minnast á þau atriðin, er eg mun greiða atkv. á móti. Mér er sárt um sum þeirra, að þurfa að vera á móti þeim; en eg sýni þar með, að eg vinn til að leggja það í sölurnar, sem mér er sárt um, ef fleira mætti þá betur fara. Vil eg þar til nefna heilsuhælið; til þess eru ætlaðar 150 þús. kr. Það er ekki rétt, að nefna þetta lán, eins og áður hefir verið sýnt; en auk þessa er allur reksturskostnaður, er hlýtur að verða sjálfsagður, enda hafa nú þegar verið veittar 10 þús. kr. í því skyni. Um gagnið af slíku hæli er eg ekki fær að dæma; það hafa læknisfróðir menn sagt mér, að þessi heilsuhælisalda, er mjög hefir risið hátt víða um lönd, sé í rauninni ekki eins réttmæt og ætla mætti, enda mun hana vera að lægja nú. Að vísu eru þessi hæli nauðsynleg til þess að hýsa þá sjúklinga, sem eru svo langt leiddir, að þeim er engin lífsvon lengur; það væri gott að þeir fengju að deyja þar sem þeir sýktu ekki aðra. En þeim sjúklingum, sem eru á slíkum hælum og langt eru leiddir, er allsjaldnast nein batavon þar og hnignar brátt, er þeir fara þaðan aftur. Koma þau því sjaldnast að tilætluðum notum, þeim til fullrar heilsubótar, er þangað leita. Og þó er þetta eitt af því þarflegasta og bezta, er menn nú vilja styrkja.

Þá vil eg í einu orði nefna listamannastyrkinn. Mér þætti undur vænt ef vér værum menn til að veita öllum mentamönnum vorum sem ríflegastan styrk. En eg held satt að segja, að vér séum hér ekki eftirbátar annara þjóða; að tiltölu leggjum vér eins mikið til listamanna og vísinda eins og aðrar þjóðir. Og auðvitað væri það ekki nema gott, ef vér gætum gert það enn þá betur.

Um gjöfina, sem mikið er búið að tala um, er það að segja, að hún kann í sumra augum að vera virðuleg. En sá annmarki er hér á, að ef hún verður þegin — og þá auðvitað með sómasamlegum skilyrðum — þá mundu ef til vill koma ótal gjafatilboð frá skáldum og höfundum: þeir vildu þá gefa alt það, sem enginn vill gefa út fyrir þá. Það mundi þykja ókurteisi að slá hendinni móti slíkum gjöfum, en þá yrði að reisa nýtt safnhús til þess að geyma þessar gjafir, sem mér er nær að kalla lítils eða einskis virði mjög margar.

Um myndalist er líka nokkuð öðru máli að gegna en um ljóðagerð og sagnagerð. Einar Jónsson túlkar hugmyndir sínar á máli, sem allur heimurinn skilur jafnt. Það er því minni ástæða til að styrkja hann sérstaklega af Íslands hálfu. Auk þess skáldastyrks, er áður var framborinn hér í deildinni, hefir nú komið nýr styrkur til Guðm. Friðjónssonar. Mér þykir í rauninni vænt um Guðmund; mér þykir oft yndi að lesa hinar veigamiklu hugsanir hans í umgerð ram-íslenzkra orða. En eg veit ekki, hvort Guðmundi væri neitt happ í slíkri fjárveitingu. Hann flyttist þá ef til vill til Reykjavíkur, en þar gæti hann ekki lifað af þeim styrk, er hér um ræðir. Eg held að skáldskapur hans muni betur þrífast við búskapinn í sveitinni, en við sultarlaun hér við tímakenslu eða annað andlaust erfiði.

Þá verð eg að nefna ungmennafélögin; um þau er mér þó mjög sárt; eg hefi verið mjög hrifinn af þeim áður, en nú hefir sú aðdáun mín töluvert minkað eftir að styrkbeiðni þeirra kom hér í þingið. Það virðist mér vera að vængjastífa þessa heilbrigðu hreyfingu. Félagarnir eiga sjálfir að iðka krafta sína og leggja starf sitt í sölurnar. Þeir mega ekki varpa allri áhyggju á herðar annara. Það gæti orðið til þess, að þeir gæfu sjálfir aðeins hugmyndirnar, en létu svo landssjóð um framkvæmdirnar. Þá yrði eg minna hrifinn af þeim félagsskap, þegar svo væri komið. Hinn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) gat þess, að ekki væri nóg að tala um sparnað á víð og dreif — menn yrðu að sýna sjálfsafneitun, er sýndi að hugur fylgdi hér máli.

Í sambandi við þessi orð hins háttv. þm. skal eg lýsa yfir því, að ef fjárlaganefndin vildi fallast á þessa bendingu að fella burtu eða takmarka mjög styrkbeiðnir, er eg hefi nú minst á, svo að fjárlagafrumv. kæmist tekjuhallalaust frá þinginu — þá mundi eg fúslega vilja vinna það til, að alt það sem mínu kjördæmi viðvíkur falli þá burt.