01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg vil fyrst fara nokkrum orðum um það, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) mintist á. Hann gat þess, að það væri óviðeigandi, að telja eftir styrkveitingar til arðberandi fyrirtækja, og meðal þeirra taldi hann símana. Eg skal því taka það fram, að það er ekki rétt, að slá því fram, að símarnir beri sig. Símakerfið ber sig alls ekki, eins og nú stendur; það bakar landinu árlega kostnað, sem nemur mun meiru, en tekjurnar, og á eg þó eigi við fjárframlög til nýrra símalagninga, en að eins við föst ársútgjöld. — Að líklegt sé, að seinna komi betri tímar, hvað það snertir, er annað mál.

Ef litið er á fjárlagafrumv. þá sést, að fyrra árið eru útgjöldin til reksturskostnaðar símanna áætlað 56,150 kr., en síðara árið 57,150 kr.; en við þessar upphæðir verður að bæta tillaginu til Mikla norræna ritsímafélagsins: 35 þús. kr. árlega. Enn má og bæta við 20 þús. kr. árlega, sem vöxtum (4%) af hálfrar miljón króna láni, er tekið var til símalagninga, að því er minni hluta þingflokkurinn nú vill halda fram, þótt ekki kæmi það beinlínis fram þegar lánsheimildin var veitt.

Eftir fjáraukalögunum 1908—1909 er gert ráð fyrir að varið verði til símalagninga, að því er mér hefir talist 238,815 kr., og nema árlegir vextir (4%) af þeirri upphæð um 9500 kr. árlega.sem þá bætast við greindar fjárupphæðir.

Útgjöldin við rekstur símanna og tillagið til Mikla Norræna ritsímafélagsins ásamt vöxtum, sem fyr greinir, nema því á fjárhagstímabilinu 242,300 kr., en tekjurnar eru að eins áætlaðar 155,000. Brestur þá 87,300 kr. til þess, að tekjurnar vegi á móti kostnaðinum.

Ef hinn háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) ætlaði sér að ráðast í lík fyrirtæki fyrir sjálfan sig, þá mundi hann hugsa sig um, er hann sæji tekjur og gjöld koma eins út eins og hér er sýnt. Hann mundi þá fara varlega út í þær sakir, að fjölga mjög símum, og að minsta kosti eigi hrapa að því, nema þar sem þörfin væri því brýnni, enda þótt líkur væru til að fyrirtækið yrði einhverntíma arðvænt. Honum myndi þykja ráðlegra að hrapa ekki að því, að bæta við útgjöldin, er fyrirtækið borgaði sig ekki betur en þetta.

Mér finst rétt, að þetta komi fram í umræðunum, ekki sízt þar sem nýlega hefir birtst í blaði skýrsla um þetta efni, skýrsla frá símastjóranum, því að eftir henni að dæma, mætti ætla að fyrirtækið væri feikilega arðvænlegt, svo að töluverðar tekjur væru árlega um fram kostnaðinn, En þessi reikningur er mjög einhliða og villandi, eins og nú hefir sýnt verið. —

Eg sé, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) biður sér hljóðs, og kemur mér það ekki á óvart, því að þegar talað er um gjöld til símanna, þá má hann aldrei heyra tillagið til Mikla Norræna ritsímafélagsins talið þar með (Hannes Hafstein: Sæsímakostnaðurinn telst ekki til landsímans). Eg tala um símakostnaðinn yfir höfuð.

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) komst svo að orði um Flensborgarskólann og aðra skóla, að þeir væru sem ómagar á landssjóði. Þessi ummæli hins háttv. þm. eru alls ekki réttmæt (Pétur Jónsson: Eg sagði fjárhagslega). Þegar veitt er fé til menta, þá er það í vissum skilningi veitt til arðvænlegra fyrirtækja, af því að mentunin gerir eða á að gera einstaklinginn betri og hæfari til að inna af hendi það, sem honum er ætlað að vinna í þarfir þjóðfélagsins.

Út af því, er háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) mintist á styrk til Guðm. Friðjónssonar, þá skal eg geta þess nú eins og fyrri, að fjárlaganefndinni gekk ekki annað til en sparnaður, er hún vildi láta sifja við 300 kr. Hún leit svo á, að Guðm. Friðjónsson gæti haft mikiðgagn af þessu fé, þótt lítið væri, enda þótti því fremur ástæða til að fara varlega í sakirnar, þar sem fjárveitingar, er nú hafa verið sþ. í deildinni til 6 skálda, nema alls 14 þús. kr.; og eftir till. nokkurra þm. á þar við að bæta styrk til 3 skálda, og hækka styrk eins (Guðm. Magnússonar), er myndi nema 3600 kr. — eða fjárveitingar til skáldanna verða þá alls 17,600 kr. Býst eg við að landsmönnum þyki þingið verið hafa ærið ört í garð skáldanna, þegar á þetta er litið. Virðist mér því réttara að farið sé varlega, og að láta styrk Guðm. Friðjónssonar vera 300 kr., eins og fjárlaganefndin leggur til, og verður það væntanlega heppilegra til úrslita fyrir skáldin í Ed.

Þá skal eg leyfa mér að víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) Hann gat þess að þm. Sfjk. (B. Þ.) hefði haft í hótunum við sig um það að snúast gegn Eiðaskólanum, ef hann greiddi atkv. móti aðflutningsbanninu. Eg vona að þessi ræða hafi engin áhrif á atkv. háttv. þm., að því er fjárveitingar til Eiðaskólans snertir, þó að það sé auðsjáanlega tilgangurinn. Þegar eg heyrði ræðuna, og svar háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) lagði eg strax þann skilning í ágreining þeirra, að þm. Sfjk, hefði fundist svo mikið til um það, ef 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) brygðist loforði, gefnu kjósendum, og greiddi atkv. gegn aðflutningsbanninu, að honum hafi fundist, að engu skifti, hvaða tökum beitt væri gegn jafn ódrengilegri aðferð.

En það sem háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) hefir gert í Eiðaskólamálinu er alveg rétt og hyggilegt frá sjónarmiði þeirra, er Eiðaskólanum vilja vel. Hann hefir stutt breyt.till. af því, að honum hefir virtst hún vænlegri til sigurs gegn um þingið, en till. sú sem samþ. var við 2. umr. — Mér og honum gat ekki dulist, að þess mætti vænta, að fjárveitingin, eins og hún var samþ. við 2. umr. kynni að mæta sterkum mótmælum í Ed., og eg verð því að líta svo á, sem með breyt.till. sé bent á veg, sem reynast muni heppilegur, bæði fyrir sýslurnar og landssjóðinn; sýslunum er það góð og næg hjálp í svip, sem breyt.till. fer fram á og landssjóði sparar hún fjárútgjöld á næsta tímabili. — Næsta þing tekur svo að sjálfsögðu til yfirvegunar, hvernig bezt verði greitt úr vandræðunum. —

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hneykslaðist á því, að eg hefði sagt, að þessi hálfa miljón kr. lán úr ríkissjóði Dana hefði verið tekið til að jafna tekjuhalla á undanfarandi fjárlögum. Eg verð þó að álíta, að hér sé rétt að orði kveðið, því þótt óeytt sé nálega helmingur af láninu, eins og mér skildist á ræðu hans, þá er það ekki þingi eða stjórn að þakka, það hefði alt saman verið eytt og meira til, ef ekki hefði verið góðæri til lands og sjávar nokkur undanfarin ár og tekjur landssjóðs því reynst óvenjulega drjúgar, þ. e. farið jafn vel 200—300 þús. fram úr áætlunum þingsins; það er því góðærið, sem hefir verið hjálparhellan, svo að minna gætir óspilunarsemi undanfarandi þinga og stjórnar.

Viðvíkjandi Vestmanneyjasímanum, skal eg geta þess, að oss vantar skýrslur um það, hvað loftskeytasamband við eyjarnar myndi kosta. eg álít því réttast, að bíða aðgerða nýju stjórnarinnar með það mál, einkum þar sem það er kunnugt, að nýi ráðh. fylgdi því fast fram í fjárlaganefndinni, að fella símann í þetta sinn og grenslast eftir hvað loftskeytasambandið kostaði.

Þess ber og að gæta, að þótt loftskeytasambandið yrði dýrara, þá mundi það verða til mikilla hagsmuna fyrir skip, að geta þá staðið í loftskeytasambandi við landið.

Hvað Eyjafjarðarbrautina snertir, eða þær 20 þús., sem fjárlaganefndin leggur til, að synjað sé um að veita til hennar, þá er það einber misskilningur, að fyrir mér hafi í því atriði vakað nokkur hefnileikur, — það hef eg aldrei sagt. Hitt sagði eg, að fyrverandi ráðherra þyrfti sízt að furða sig á því, þótt meiri hluti þingsins þættist þurfa að gera ýmsar breytingar við frumvarpið, þar sem það bæri þess í ýmsum greinum ljósar menjar, að fyrverandi stjórn hefði verið mun minnugri á nauðsynjafyrirtæki í þeim kjördæmum, sem stjórninni voru fylgjandi við kosningarnar síðastliðið haust, en á þarfir manna í öðrum kjördæmum landsins.

En því get eg trúað háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) fyrir, að þegar fyrst var vakið máls á því, að synja fjárveitingar til Eyjafjarðarbrautarinnar, leit eg að eins á það, og bygði þar að nokkru í á umræðum fyrri þinga, að hér væri um flutningabraut að ræða, sem eigi væri brýn þörf á, í samanburði við þörf flutningabrauta o. fl. í ýmsum öðrum héruðum landsins. — Á hinn bóginn man eg það þó, og vil ekki leyna háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) því, að þegar einhver þm. hreifði því þá samtímis, að synjunin mundi verða skoðuð, sem raun er á orðin, sem eins konar hefnileikur, þá varð mér að orði, að ef svo yrði, þá kæmi það vel á vondan, og lutu þau ummæli þá að undangengnum aðgerðum fráförnu stjórnarinnar, og sýndi henni þá eitthvað svipað hennar eigin breytni.

Það eru ýmsir þm., sem haldið hafa miklar sparnaðarræður hér í deildinni, en sú raun hefir þá áorðið, að menn hafa eigi getað komið sér saman um, hvað og hvar eigi að spara. Eg skil þessar ræður háttv. þm., sem ósk og góðan vilja þeirra um sparnað, og að leiðin sé að eins enn ófundin, en að það muni takast að finna hana, áður en þingi lýkur, og meðferð þess á fjárlögunum.

Háttv. Ed. á nú eftir að fjalla um málið, og gera sínar athugasemdir við það. — í þessu sambandi ber þess að gæta, að þing vort er í raun og veru ekki tvískift, þar sem þingið í heild sinni kýs meira en helming þingmanna í efri deild, og málum má ráða til lykta í sameinuðu þingi. Hér er því ekki hægt að tala um nein svipuð yfirráð neðri deildar í fjármálum, eins og þar, sem þingin eru reglulega tvískift. Ef háttv. Ed. gerir því breytingar á frv., þá á hún ekki að skoða Nd., sem mótpart, er vilji verja yfirráð sín. Auðvitað getur orðið ágreiningur um einstök atriði milli deildanna, en yfirleitt mun efri deild að þessu sinni ekki þurfa að vænta þess, að Nd. standi sem einn maður, þar sem þingmenn í neðri deild greinir mjög á í ýmsum atriðum málsins.

Eg fer svo ekki frekari orðum um málið að sinni. Eg finn enga ástæðu til að víkja frekar að ræðum einstakra þm., en get yfirleitt tekið undir sparnaðarræður þeirra; að eins að þeir sýni það þá við atkvæðagreiðsluna, að þeim séu þær alvörumál, en að hitt verði eigi ríkara í huga, að ýmsum gleymist sparnaðurinn, er kjördæmi þeirra á í hlut, en séu hans vel minnugir, þegar um fjárveitingar til annara kjördæma, en þeirra eigið, er að ræða.