01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Magnús Blöndahl:

Eg er einn af þeim fáu, sem ekki hefi margar br.-till. við fjárlögin. Þó er eg ekki alveg laus við þær, og vil því leyfa mér að mæla með þeim fáu, sem eg hefi fram að færa. Það er þá fyrst breyt.-till. á þgskj. 395 við 14. gr. B. VIII. 1, að í staðinn fyrir kr. 3,000—3,000 komi: 4,500—4,500, og í staðinn fyrir kr. 1,500 til búsáhalda handa kvennaskólanum komi: kr. 2,000. Eg ímynda mér, að háttv. deild geti ekki litið öðru vísi á það mál en svo, að henni finnist sanngjarnt, að styrkur þessi sé hækkaður, og að þessar breyt.-till. mínar fái því samþykki deildarinnar. Eg er líka sannfærður um, að það er enginn vafi á, að skólinn, verði honum synjað um þessa styrkhækkun, getur ekki komist af neyðarlaust. Hann kann að lifa fyrir það næsta fjárhagstímabil, en óhugsandi, að hann geti komið að tilætluðum notum. Eg þykist varla þurfa að taka það fram, að skóli þessi á að verða heimavistar- og húsmæðraskóli, og það er einkum til þess að þeim tilgangi geti orðið náð, að styrkur þessi er svo nauðsynlegur. Það var sagt, þegar minst var á Blönduósskólann, að kenslan þar væri svo góð og ódýr; það getur vel verið rétt, en eg þykist þó mega fullyrða svo mikið, að kenslukraftar Reykjuvíkur kvennaskólans eru svo miklir og góðir, að hvergi megi fá aðra betri. Það er nokkuð hart, að verða að hlusta á hve miklum og ómaklegum árásum þessi skóli, — sem gert hefir svo mikið gagn, — hefir orðið fyrir hér í deildinni, og finst mér því skylt að mótmæla þeim árásum nú; hefði eg andmælt slíkum ummælum strax við 2. umr., er þau komu fram, ef eg ekki hefði þá verið dauður frá umræðum. Sérstaklega skal eg minnast á nokkur orð háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), sem mér þótti mjög ómakleg, órökstudd og að ófyrirsynju í alla staði. Hann lét í ljósi, að kvennaskólinn hér væri ekki nema fyrir Reykjavíkurstúlkur. Hann gæti ekki orðið húsmæðraskóli fyrir sveitastúlkur; í Reykjavík vantaði öll slík skilyrði. Sami h. þm. gaf í kyn, að kvennaskólinn hér myndi hafa miður góð áhrif á stúlkur, sem sæktu hann ofan úr sveit. Sveitastúlkurnar umgengjust hér fín hús, velklætt fólk, sem ekkert hefði fyrir stafni, kynntust dansleikum og sjónleikum og öðrum skemtunum, og afleiðingin yrði sú, að þær yrðu afhuga sveitalífinu og gerðu alt of háar kröfur til lífsins, sem ekki samsvöruðu neitt þeim lífskjörum, sem þær síðarmeir ættu við að búa. Eg verð að mótmæla því, að slík lýsing eigi hér við. Það getur nú verið að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hafi meint eða viljað segja, að það sé ekki sjálfur skólinn, heldur Reykjavíkurlífið, sem hafi þessi slæmu áhrif á námsstúlkur ofan úr sveit. Líka það er ekki rétt. Að því er skólann snertir skal eg að eins drepa á, að forstöðukonan er svo réttlát og heiðarleg kona í alla staði, að ósæmilegt er með öllu að vilja kasta skarni á hana. Eg ber það traust til hennar, að eg þyrði óhræddur að eiga dætur mínar undir hennar handleiðslu, því af henni er eg viss um, að þær lærðu ekki annað en gott eitt. Hið sama hygg eg óhætt megi segia um aðra kennara skólans og stjórn hans. Hinar áðurnefndu aðdróttanir í garð skólans eru því með öllu ósannar, enda reyndi háttv. 2 þm. Árn. (S. S.) ekki að færa rök fyrir þeim. Annað leiðinlegt og ómaklegt, sem sagt var hér í deildinni, sem andmæli gegn þessum skóla, var það, að forstöðunefnd skólans hefði verið nokkuð heimtufrek og fljótfær að semja um húsnæði fyrir fram, áður en hún vissi, hvort hún fengi nokkuð fé til umráða. Eg lít nú svo á þetta mál, að forstöðunefnd skólans sé sízt að lasta fyrir það, að hún sýndi dugnað og framtakssemi í því að afla skólanum betra húsnæðis, og gera hann þannig betur færan um að geta náð tilgangi sínum. Eg held eg megi líka fullyrða, að skólinn hefir komist þar að góðum kjörum, já meira að segja vildarkjörum. Við 2. umr. fjárlaganna varð það ofan á, að skólanum skyldi veita 1500 kr. til að kaupa fyrir áhöld, en það er alveg ómögulegt að komast af með þá upphæð. Handa skólanum þarf einmitt nú að kaupa svo marga nýja húshluti, þegar hann flytur á hinn nýja stað. Það verður því aukinn — en óhjákvæmilegur — kostnaður, sem þessar 1500 kr. ekki hrökkva til. Einn háttv. þm. mintist á það fyrir nokkru, að svo liti út með skóla þennan, sem skella ætti honuni að öllu leyti á landssjóðinn, en hvernig háttv. þm. fær það út er mér ráðgáta, því að breyt.till. mín um þær 4500 kr. fer fram á miklu minni upphæð en frv. stjórnarinnar, sem ætlast þó ekki til, að landssjóður beri allan kostnað við skólann. Það liggur líka í augum uppi, að skólinn muni kosta meira en þær upphæðir, sem eg hefi farið fram á í breyt.till. minni að veittar yrði til hans. Ekki þar fyrir, að eg álíti það ekki réttmætt, að landssjóður tæki að sér skólann að öllu leyti, en eg hefi þó ekki farið fram á það. Eg vona að háttv. deild sjái, hve sanngjarnt og réttlátt það er, að skólanum verði veittur sá styrkur, sem eg hefi lagt til og mælt með, og vona því að það nái samþykki hinnar háttv. deildarmanna.

Þá vil eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um viðaukatill. á þgskj. 366, sem eg ásamt háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) er flutnm. að. Eins og sést af till. fer hún fram á, að sláturhúsi Gunnars Einarssonar í Reykjavík, er jafnframt verði sameignarsláturhús fyrir Reykvíkinga, megi lána 25000 kr. úr viðlagasjóði gegn 1. veðrétti í allri sláturhússeigninni, svo og 1. veðrétti í annari fasteign, er báðar væri metnar eigi minna en 50000 kr. auk ábyrgðar sameignarfélagsins, ef með þarf. Lánið á að borgast á 28 árum með 6% árlega. Eg get ekki fyrir mitt leyti séð annað, en að krafa þessi sé sanngjörn og réttlát og að það sé eins mikil ástæða til að veita þessu sláturhúsi lán, eins og Sláturfélagi Suðurlands. Það má reyndar ráða af ræðum einstakra manna hér í deildinni, að ekki sé þörf á slíku sláturhúsi, þar sem Sláturfélag Suðurlands sé þá fyrir áður og geti fullnægt þörfum bæjarmanna, en það er þó ekki rétt. Fyrst er nú það að sláturhús Gunnars kaupm. Einarssonar var komið hér á undan hinu, og því mun það mikið að þakka, að verð á kjöti hefir ekki farið fram úr öllu hófi tvö síðastliðin haust.

Að Sláturfélag Suðurlands hafi ekki ætlað sér að koma á neinni einokun með kjöt, getur vel verið satt, en dálítið er það kynlegt, að reynslan hefir sýnst benda á hið gagnstæða. Að félag þetta hafi viljað hjálpa bændum til að koma markaðsafurðum þeirra í betra horf en að undanförnu, skal eg sízt hafa á móti, því það er ekki nema gott, en víst er um það, að annað hefir það nú orðið í reyndinni. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagði að kjötverðið hér í Reykjavík hefði hækkað svo vegna þess að kjötið hefði hækkað svo á útlenda markaðnum og það væri eðlilega útlendi markaðurinn, sem skapaði verðið á kjötinu innan lands. Hér við er það að athuga, að þótt svo máske ætti að vera, þá hefir þetta ekki átt sér stað hingað til. Menn hafa heimtað hærra verð fyrir kjötið hér, en þeir fá fyrir það erlendis, þegar útflutningskostnaður og annar kostnaður — beinn og óbeinn — er frá dreginn. Í tilefni af því mætti benda á það, að sumt þetta kjöt, er sent hefir verið á útlendan markað, hefir verið flutt hingað til lands aftur, af því það ekki varð selt erlendis og vænti eg að allir sjái, hve öfugt fyrirkomulag slíkt er. Annars get eg ekki séð, að það sé nema gott og geti aldrei spilt, að hér séu 2 sláturhús til að halda jafnvægi á kjötverðinu. Eg vona því, að hin háttv. deild taki vel þessari viðaukatill, minni og að þessu sláturhúsi verði gert jafnhátt undir höfði og Sláturhúsi Suðurlands.

Þá mintist hinn virðulegi 2. þm. Árn. (S. S.) á hlutafélagið Völund og kvað mig ósleitilega hafa barist fyrir að koma því á. Eg skal fúslega játa, að eg hefi átt þátt í stofnun þess félags og tel mér það meir til sóma en vansæmdar, svo eg skil ekki að sami háttv. þm. hafi nokkra ástæðu til að víta mig fyrir það. Annars fæ eg eigi séð hvað Völundur á skylt við alþingi Íslendinga. Félag það hefir aldrei beðið um styrk og heldur aldrei beðið landssjóðinn um lán. þm. sagði líka, að Völundur væri einokunarfélag, en slíku leyfi eg mér að mótmæla sem mestu staðleysu.

Þá hefi eg enn eina viðaukatill. á þgskj. 402 um 4000 kr. lán úr viðlagasjóði til Bergs Einarssonar til að koma upp sútunarverksmiðju. Maður þessi hefir numið þá iðn erlendis og er sérlega vel að sér í þeirri grein. Það bera meðal annars fylgiskjöl þau, sem hann hefir sent með lánbeiðni sinni, vott um, en hann er fátækur og ókleift að koma öllu þessu upp án hjálpar að einhverju leyti. Þörfin á að slíkur iðnaður komist á og færist í vöxt er auðsæ, ekki sízt fyrir bændur, sem verða að selja skinn sín óverkuð til útlanda en kaupa þaðan verkuð skinn dýrum dómum. Það er mikið fé, sem þannig fer út úr landinu og þessi óheppilega verzlunaraðferð veldur því, að bændur fá ekki eins mikið fyrir skinnavöru sína sem ella og kaupa dýrara. Annars er ekki farið fram á, að landssjóður styrki þetta fyrirtæki með fjárframlögum, öðru en því, að veita lán með vanalegum kjörum, lán er afborgist á 28 árum með 6% á ári. Eg vona því, að háttv. þingdm. viðurkenni að fyrirtæki þetta sé svo nytsamlegt og þarft, að þeir vilji veita þetta lán, sem fær tryggingu í sjálfri verksmiðjunni og áhöldunum, svo að áhættan fyrir landssjóð getur varla verið stór. Annars er það ekki neitt nýtt, að þingið veiti fé í þessu skyni. Þannig hefir útlendum manni austur á Seyðisfirði verið veitt lán til sútunargerðar.

Fleiri breyt.till. hefi eg ekki fram að bera að þessu sinni.

Eg get ekki stilt mig um, áður en eg sezt niður, að fara örfáum orðum um nokkra af hinum svonefndu bitlingum og láta skoðun mína í ljósi um þá, og skýra frá, hverja eg styð og hverja ekki.

Styrkur til Brynjólfs Björnssonar tannlæknis virðist mér í alla staði mjög réttmætur og sanngjarn, og get með ánægju skrifað undir þær röksemdir, er fyrir honum hafa verið færðar, og skal eg því ekki fara fleiri orðum um það.

Þá kemur styrkurinn til Einars listamanns Jónssonar. Í gær var mikið rætt um hann hér í deildinni. Mér bæði gramdist og tók sárt að heyra þau nálega meiðandi orð, er viðhöfð voru um þann mann. Eg hygg þó, að háttv. þm. verði að kannast við, að hann er okkar mesta og helzta listamannsefni. Til þess að þreyta ekki háttv. deild um of á langri ræðu leyfi eg mér að skírskota til röksemda þeirra, er h. þm. Dal. (B. J.) færði fyrir þessum styrk í fyrri ræðu sinni hér í deildinni, um leið og eg vil mótmæla harðlega hinum órökstuddu og ómaklegu hnútum í þess manns garð frá h. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.).

Þá er styrkbeiðnin til Jónasar Guðlaugssonar á þgskj. 394. Mér kom í hug, að ef þessi 600 kr. styrkur næði samþykki þingsins, þá yrðu þau æðimörg skáldin, er styrkur ber, því margur góður hagyrðingur er á landi okkar. Og ef svo fer, sem mér ólíklegt þykir, að skáldstyrkur þessi gangi í gegnum Nd., vildi eg spyrja Ed., hvort hún vildi ekki smella á fjárlögin öllum þeim, er geta og hafa getað sett saman óskakka bögu. Eg hefði helzt kosið að vera laus við alla skáldstyrki, ef það hefði verið unt. En þó því sé nú svo varið, að við verðum sóma okkar vegna að styrkja hin viðurkendu góðu skáld, þá álít eg að þessum styrk sé þannig varið, að sjálfsagt sé að hafna honum. Eg er honum því algerlega mótfallinn, og mun ekki greiða honum atkv. mitt.

Þá kemur styrkurinn til Jóns Ísleifssonar, er stundar nám á fjöllistaskólanum í Þrándheimi. Eg þekki þann mann persónulega, og hefi átt tal um hann við suma kennara hans, og luku þeir lofsorði á hann sem efnilegan mann, er eiga mundi góða framtíð fyrir höndum, og sem væri mjög líklegur til að vinna landi sínu stórmikið gagn, ef honum entist aldur til. Maður þessi hefir sérstaklega lagt stund á að læra að byggja hafnir, bryggjur, byggja út fossa og mæla afl í þeim o. s. frv. Líti maður á þetta land, sem við byggjum, með öllum þess hafnleysum, öllum þess fossum, er geyma í sér næstum ótæmanlegan auð og afl, afl, sem býður eftir að einhver hög hönd komi og kenni okkur að beizla og brúka, og ausa svo af auði þeim, er þar felst, og landið svo mjög þarfnast. Eg vil því mæla hið bezta með þessari styrkveitingu, og það því fremur, sem eg er sannfærður um, að þessi litla styrkveiting muni borgast landi voru aftur í margföldum mæli.

Háttv. þm. Húnv. töluðu mikið um sparnað í gær hér í deildinni. Það er gott og nauðsynlegt að brýna slíkt fyrir þm., og gæti slíkt haft góðan árangur í för með sér, ef deildin tæki það til rækilegrar íhugunar og færi eítir því, eða breytti eftir þessu sjálfsagða boði sparnaðarmannanna. En það er dálítið óþægilegt og erfitt að sníða utan af þessum ýmsu fjárbeiðnum og fjárveitingum, þar sem ekki liggja fyrir neinar breyt.till. í þá átt, enda hefir það ekki mikið að segja, þó verið sé að klípa út úr hinum einstöku smábitlingum, því þó þeir væru allir skornir niður, mundi ekki sparast nægilega mikið fé. H. 1. þm. Húnv. (H. G.), talaði um, að vilji þjóðarinnar væri sá, að spara sem allra mest, og getur verið nokkuð til í því. Samt held eg nú fyrir mitt leyti, að þjóðarviljinn muni nú vera sá, að greiða sem minst í landssjóð en fá sem mest úr honum aftur. Það er hægt að sjá að þetta er rétt á því, að fjöldi fjárbæna kemur til þingsins, en alt af kvartað og kveinað yfir álögunum og gjöldunum.

Þm. S.-Þing. (P. J.) talaði einnig mikið í gær um »sparnað« og »sjálfsafneitun«. Mér þótti að mörgu leyti vænt um að heyra það, en eg er hræddur um, að þetta sé hjá honum »meira í orði, en á borði«. Hann áminti þm. um að vera samhuga að þessu leyti. En mér finst hann ekki þar hafa gengið á undan öðrum með góðu eftirdæmi, þó hann hefði átt að gera það. Virðist mér hann hafa verið full heimtufrekur, að krækja í sem ríflegasta fúlgu handa kjördæmi sínu, og jafnvel ekki látið nægja að koma því í sjálf fjárlögin. heldur keyrt það inn á fjáraukal. Þetta sýnist mér ekki benda á sparnað þann og sjálfsafneitun, er háttv. þm. var þó að prédika hér í deildinni. Ef sparnaður á að koma að verulegum notum, þarf því að minka að miklum mun hinar ýmsar stærri fjárveitingar, eða fresta framkvæmdum í bili á þeim fyrirtækjum, er helzt þola bið, og verja þá fé landsins til hinna allra nytsömustu fyrirtækja, sem fyrir hendi eru.

Eg vil því áður en eg sezt niður benda á hið helzta, sem að mínu áliti hefði átt að bíða næsta þings; og sný mér þá fyrst að símunum. Eg skal ekki neita því, að talsvert hagræði og skemtun væri að því, að fá síma um sem flest héruð landsins —, og verja til þess stórfe á hverju ári — en hvort það sé hyggilega farið með fé landsmanna, — ekki sízt, þegar litið er til hins bága árferðis hér á landi — um það munu verða æði skiftar skoðanir, — enda lítil líkindi til, að margt af þeim borgi sig nokkurn tíma. Hinn eini sími er hugsanlegt væri, að mundi gefa nokkrar verulegar tekjur af sér, og þá um leið mundi gera talsvert gagn, er Vestmannaeyjasíminn, sem þó varð fyrir þeim forlögum hér í deildinni um daginn, að hann var feldur, ekki af því, að menn ekki játuðu gagnsemi hans, heldur af því einu, að ekki þótti forsvaranlegt, að halda áfram sömu fjárbruðlun og að undanförnu. Til þess nú, að háttv. deild verði sjálfri sér samkvæm í símamálinu, þá finst mér henni skylt, að fella þá alla í þetta sinn. Eg fæ heldur ekki séð, hvaða nauðsyn eða réttlæti er fólgið í því, að smella þessum símum á fjárlögin hvað eftir annað, fyrirtæki, sem ekki einungis hin núverandi kynslóð á að njóta, heldur líka eftirkomendurnir. Eðlilegra væri því, að mínu áliti, að til þess að leggja símana væri tekið lán með löngum afborgunarfresti, svo kostnaðurinn kæmi ekki eins tilfinnanlega niður á þjóðinni.

Þá hefir mikið verið rætt um símann frá Vatnsleysu til Siglufjarðar, hve afar-nauðsynlegur hann væri, vegna síldarveiðanna og hinnar miklu aðsóknar að Siglufirði af útlendum skipum, og sá sími mundi því gera mikið gagn og gefa landinu tekjur. Eg veit, að mikið muni vera hæft í þessu, og að þörfin fyrir síma sé þar meiri en víða annarsstaðar. En hvers vegna þá ekki, að leggja þann síma skemstu leið, þ. e. úr Ólafsfirðinum, þar sem sími er kominn áður og fyrir svonefnda »Botna« til Siglufjarðar — sú leið er mörgum sinnum styttri, og yrði því margfalt ódýrari, en hin leiðin. Það var reyndar tekið fram hér í deildinni í gær, að ómögulegt væri að leggja síma þessa leið, sem eg hefi nefnt, — en engin rök voru færð fyrir því máli. Það vill nú svo vel til, að eg hefi farið þessa leið nokkrum sinnum — og það að vetrarlagi — og mun eg geta því af eigin reynslu borið um það, að sú leið er margfalt styttri, og ekki verri fjallvegur, en svo víða annarsstaðar, en þrátt fyrir það, þá mun eg samt greiða atkvæði móti þessum síma, sem öðrum að sinni af ástæðum þeim, er eg hefi tekið fram.

Þá kem eg að flutningabrautunum. Um þær má að vísu segja, að ilt sé að komast af án þeirra og þess vegna verði að halda áfram að veita fé til þeirra eins og að undanförnu. En eg verð að taka það fram, að þótt þær séu nauðsynlegar, og sjálfsagt væri að halda þeim öllum áfram, ef nægilegt fé væri fyrir hendi, þá verður þingið einnig þar að fara gætilega, og bíða heldur með framkvæmd þeirra að meira eða minna leyti næsta fjárhagstímabil, enda veit eg, að sumar þeirra eru ekki svo bráðnauðsynlegar, að ekki þoli bið um sinn, og skal eg þar til nefna Eyjafjarðarbrautina og Einarsstaða o. fl. Eg vona nú, að allir sjái, að á símunum og flutningabrautunum má því spara stórfé, og vænti eg þess, að háttv. efri deild lagfæri fjárlögin í þessa átt, er eg hefi bent á, þar sem nú er enginn tími til slíkra breytinga hér í deildinni.

Skrifstofufé til landsverkfræðingsins, er alveg óþarft, og mætti því vel spara þá upphæð.

Þá kemur styrkur til smjörbúanna og mætti einnig færa hann nokkuð niður, sama er að segja um styrkveitingu til Búnaðarfélags Íslands og búnaðarfélaganna og það því fremur, sem fleiri háttv. þm. hér í deildinni hafa lýst því yfir, að þeir verði ekki varir við neina sérlega gagnsemi Búnaðarfélagsins.

Sama er að segja um styrk til rannsókna viðvíkjandi áveitunni um Skeið og Flóa. Ef það er annar eins stórgróðavegur, eins og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) tók fram, þá mætti ætla, að hlutaðeigandi sýslur teldu ekki eftir sér, að bera þann kostnað, er stórgróði er viss í aðra hönd. (Sigurður Sigurðsson: Háttv. 2. þm. Rvík. (M. Bl.) veit ekki, hvað hann er að tala). Eg veit mjög vel, hvað eg er að fara og háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) verður að fyrirgefa, þótt eg ekki geti fylgst með honum í allri hans harla einkennilegu fjármálapólitík. Eg skal játa það, að landbúnaðurinn er ein af máttarstoðum þessa lands, enda ekki hægt að segja, að hann hafi verið olnbogabarn þingsins að undanförnu, því enginn annar atvinnuvegur þessa lands — ekki einu sinni allir samanlagðir — hafa orðið meira en hálfdrættingar — og þó varla það — á móti landbúnaðinum við fjárveitingar undanfarinna þinga í þeim efnum. Það er því ekki nema rétt, að geta hins sanna í þessu máli, og ekki dugar að blinda svo augu sín og annara, að engir atvinnuvegir þessa lands geti komið til sanngjarnrar skoðunar nema landbúnaðurinn.

Til þess, að sparnaðurinn í þetta sinn geti orðið verulegur og svo um muni, þá verðum vér því að spara á þeim póstum, er eg nú hefi nefnt. (Sigurður Sigurðsson: Eyðileggja atvinnuvegina og hlaða undir embættismennina). þetta eru ósönn og ómakleg ummæli hjá háttv. 2. þingm. Árn. (S. S.). Eg hefi hvergi farið fram á það, að »eyðileggja atvinnuvegina og hlaða undir embættismennina«. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) getur hvergi sýnt fram á það, heldur hið gagnstæða, og eru því þessi orð hans eitt af hans alþektu »vindhöggum«, er falla máttlaus niður.