29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaöur (Skúli Thoroddsen):

Eins og háttv. deildarmenn hafa tekið eftir, hefir háttv. Ed. gert talsverðar breytingar á frumv. þessu frá því sem samþykt var hér í neðri deild, felt ýmsar fjárveitingar og bætt nokkrum nýjum við. Miða breytingar efri deildar að öllu samanlögðu í sparnaðaráttina, og má deila um, hvort slíkt sé heppilegt, þar sem sparnaðurinn er í því fólginn, að kippa burtu tillögum til þarflegra fyrirtækja, flutningabrauta og fleira.

Breyt.till. þær, er fjárlaganefndin ræður til að gerðar verði á frumv., eins og það nú er komið frá Ed., fara í þá átt, að minka útgjöldin um 16,100 kr. og auka þau um 85,000 kr., og eru af þeirri upphæð 40,000 ætlaðar til gufuskipaferða, en 30,000 kr. til Borgarfjarðarbrautarinnar. Og frá háttv. þdm. telst mér svo til, að breyt.till. séu 90; en þar sem flestar þeirra hafa komið fram áður, þá vænti eg að eigi taki langan tima að ræða þær, og fyrir hönd fjárlaganefndarinnar eru það fæstar þeirra, sem eg hefi ástæðu til að minnast á, þar sem deildinni er áður kunnugt um skoðun nefndarinnar hvað þær snertir. —

Eg ætla þá að minnast fám orðum á till. nefndarinnar og skal þá fyrst nefna fjárveitingu Ed. til Guðm. T. Hallgrímssonar læknis. Leggur nefndin til að hann sé feldur, með því að hún sér þess enga brýna þörf, að veita fleiri sérfræðingum í læknisfræði landssjóðsstyrk hér í Reykjavík, en gert hefir verið að undanförnu.

Fjárveitingin til Borgarfjarðarbrautarinnar, sem Ed. feldi, leggjum vér til, að verði tekin upp aftur, og þýðir eigi að orðlengja um það mál, sem áður hefir verið allítarlega rætt hér í deildinni, og verður það gert frekar af þm. Mýr. (J. S.) þyki honum ástæða til. —

Þriðja breyt.till. nefndarinnar fer í þá átt, að fella lánsheimildina til Fljótshlíðarhrepps, en veita hreppnum aftur á móti 2000 kr. styrk, móti 3000 kr. frá hreppnum, og er það í samræmi við undirtektir deildarinnar hvað Svarfaðardalsveginn snertir.

Þá koma gufuskipaferðirnar, og leggjum vér til, að hækkað verði árstillagið til þeirra úr 40 þús. upp í 60 þús. en binda stjórnina ekki við borð, hvaða félagi þessi styrkur eigi að veitast. Eins og kunnugt er, hefir leitt það gott af tilboði »Thore«-félagsins, um hluttöku landssjóðs í þeim félagsskap, að »Sam. gufuskipafélagið« hefir boðið mun betri kosti en áður, og nefndin ætlast til, að stjórnin sjái svo um, að millilanda- og strandferðir verði eigi lakari, en tilboð nefnds gufuskipafélags. Eg skal geta þess, að þetta tilboð »Sam. gufuskipafélagsins« fer í þá átt, að í stað þess að millilandaferðirnar eru nú 22, verða þær 25. Það hefir nú rétt í þessu verið útbýtt hér í deildinni áætlunum um ferðir þessar, og má af þeim sjá, hvernig ferðunum er skift í niður á hina ýmsu hluta landsins. Í áætlun þessari er meðal annars gert ráð fyrir, að »Botnía« fari 9 ferðir, þar á meðal ferð í júní, og aðra í ágúst, og sömuleiðis í september og október, og eru ferðir »Botníu«, sem er með kælirúmi, sérstaklega miðaðar við óskir þær, sem fram hafa komið í þá átt, að æskilegt sé, að geta flutt smjör, fisk og kjöt ísvarið á brezkan markað, og ferðunum hagað þannig, að sem flestir geti notað þær.

Þá er þess getið í tilboðinu, að félagið leggi til strandferðabát, sem fari 6 ferðir milli Reykjavíkur og Fáskrúðsfjarðar, og 2 af þeim alla leið til Seyðisfj. Með þessu er vel borgið Hornafirði og öðrum stöðum á suðurströnd landsins; en með því að »Hólum« sparast mikill tími við það, að þurfa eigi að fara til þessara hafna, þá er í áætluninni ætlast til, að þeir fari 4 fljótar hringferðir með fám viðkomustöðum, og verða þær ferðir einkar hentugar til fólksflutninga.

Skal eg svo eigi fara frekar út í þetta, en geta þess í sambandi við þetta mál, að breyt.till. frá háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) þess efnis, að gera samninga fyrir alt að 10 ára tíma, stríðir á móti hinni »rökstuddu dagskrá«, sem samþykt hefir verið hér í deildinni, þar sem landsstjórninni var falið, að afla sér þekkingar á öllu, er að eimskipaútgerð lýtur, íhuga tilboð »Thore«-félagsins o. fl., og láta síðan næsta alþingi álit sitt og tillögur í té, og álítum vér því, að semja eigi að eins til tveggja ára um millilanda- og strandferðir, svo að næsta þing hafi óbundnar hendur.

Þá leggur nefndin það til, að fjárveitingin til ransókna nýrra símalína verði færð niður í 5000 kr., úr 10,000 kr., og ætti það að geta nægt, þar sem lítið verður unnið að símalagningum á næsta fjárhagstímabili, og því ýmsir símar eftir, þar sem þó undirbúningsransóknum er lokið. Sama er að segja um fjárveitinguna til víðhalds á símum, að hana álítum vér að færa mætti niður úr 12 þús. kr. síðara árið, í 10 þús. kr.

Þá kemur kvennaskólinn í Reykjavík. Ed. hefir hækkað fjárveitingar til hans að miklum mun, og viljum vér ekki gera það að ágreiningsefni, en teljum rétt, að setja þó það skilyrði, að 25 sveitastúlkum veitist heimavist, en í samræmi við þessa hækkun Ed. leggjum vér ennfremur til, að styrkur til Blönduóss-skólans verði hækkaður um 500 kr. árlega, og treystum, að deildin verði þeirri tillögu nefndarinnar samþykk, bæði vegna þarfa skólans og samanburðarins við kvennaskóla Reykjavíkur.

Þá leggjum vér til, að orðin í 14. gr. VIII. b. »og skrifstofukostnaður« falli burtu, því ella óttumst vér, að þau myndu draga þann dilk á eftir sér, að nýjar fjárbænir í sömu átt kæmu á næsta þingi, og óvíst hve mikill skrifstofukostnaður þessi yrði þá á endanum.

Að því er snertir fjárveitingu fyrir skápa handa fornmenjasafninu, þá er hún í samræmi við tillögur fornmenjavarðar og stjórnarráðs, og skápar þessir hafa þegar, ástæðna vegna, verið keyptir.

Utanfararstyrkinn til Lárusar Bjarnasonar getur nefndin ekki fallist á, sér eigi hvað alþýðuskólakennara þennan snertir neina brýna nauðsyn til styrkveitingar.

Viðvíkjandi styrknum til Sigfúsar Blöndals, leggur nefndin til, að honum sé veittur hann með því skilyrði, að hann árlega skýri frá, hvað störfum hans líður. Hann hefir nú haft styrk þennan árum saman, og er þetta skilyrði því eigi sett að ástæðulausu, þar sem enginn árangur hefir enn sést af orðabókarstarfi hans.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til Guðm. skálds Guðmundssonar og Guðm. Friðjónssonar skálds sé færður úr 600 kr. niður í 400 kr. En eg vil geta þess, að persónulega er eg þessu mótfallinn, og álít naumast gerlegt eða rétt, enda litlu muna, að klípa af eigi hærri fjárveitingum.

Ennfremur leggur nefndin til, að 1000 kr. styrkur til Guðm. Bárðarsonar sé feldur burtu; komst nefndin að þeirri niðurstöðu við nákvæma íhugun, að óþarft væri að styrkja nema einn jarðfræðing, og áleit jafnframt, að manninum væri það ef till vill ekki til góðs, að fá þennan styrk, því þá færi hann að gefa sig eingöngu við jarðfræðisransóknum, sem ekki gefa honum neitt teljandi í aðra hönd, og mundi því sí og æ leita til þingsins með nýjar og nýjar fjárbænir.

Styrkinn til Grasgarðsins, sem efri deild nefnir grasfræðigarð, að upphæð 300 kr., leggur nefndin til að fella, og er það í samræmi við fyrri ályktanir deildarinnar.

Viðvíkjandi öðrum breyt.till. leggur nefndin til að veittar verði 1000 kr. til lendingarsjóðsins í Bolungarvík, enda er mikil nauðsyn á því, að sjóður þessi eflist sem fyrst, þar sem Bolungarvík er eins og kunnugt er, einhver stærsta verstöð á landinu. Lendingarsjóður Bolvíkinga fær og ákveðið gjald af hverjum hlut, er kemur þar á land, og má gera ráð fyrir að það nemi minst 1000 kr. árlega.

Styrkurinn til Sigurðar Jónssonar fangavarðar er sjálffallinn, þar sem hann er dáinn; en nefndin hefir leyft sér að koma með breyt.till. þess efnis, að 300 kr. styrkur verði veittur ekkju hans, eins og gert hefir verið í öðrum tilfellum, er um ekkjur opinberra starfsmanna var að ræða.

Breyt.till. um styrk til Sighv. Borgfirðings vill nefndin styðja, svo að honum gefist kostur á, að vera um tíma í Reykjavík, og kynna sér handrit á söfnunum, er lúta að sagnfræðilegum störfum hans.

Hækkun sú, er fjárlaganefnd leggur til að gera á fjárveitingunni til póstflutninga, er bygð á bréfi frá erfingjum Wathne. Það félag hefir að undanförnu haft 2000 kr. á ári, til að annast um póstflutning, en telur þá upphæð nú varla nægja, til að kaupa ábyrgð á póstflutningnum, svo sem því er gert að skyldu, enda hefir ábyrgðargjaldið fyrir eina ferð numið alls 600 kr., að því er félagið skýrir frá. Af þessari ástæðu, og jafnframt til þess, að stjórnin hafi fé til umráða handa öðrum skipum leggur nefndin til, að liðurinn hækki um 4 þús. kr.

Breyt.till. hæstv. ráðherra um Fagradalsbrautina og Lagarfljótsbrúarveginn getur nefndin fallist á. En um allan fjöldann af breyt.till. einstakra þm. er það skjótast að segja, að nefndin leggur til að þær verði nær undantekningarlaust feldar. Þó eru einstaka till., sem hún ljær fylgi, eins og breyt.till. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) um verzlunarskólann, sem er í samræmi við skoðun meiri hluta fjárlaganefndar. Sama er að segja um lánveitingu til ullarverksmiðju á Akureyri, enda er sú till. í samræmi við það, sem áður hefir verið samþ. hér í deildinni. Meiri hluti fjárlaganefndar er og fylgjandi till. sama hv. þm. um Grímsnesbrautina, með því skilyrði þó, að 4000 kr. til Flóaáveitunnar falli niður síðara árið.

Mér þykir ekki ástæða til að tala meira að svo stöddu fyr en eg heyri ræður einstakra þm.