29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Hannes Hafstein:

Háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar, hefir líklega ekki tekið eftir breyt.till. á þgskj. 660.

Hann talaði að eins um hækkun á styrknum til Wathnefélagsins. En Thorefélagið sagðist þurfa að fá 20,000 kr. til að halda uppi póstflutningum. Nú hefi eg leyft mér að stinga upp á, að styrkurinn til póstflutninga verði færður úr 8000 kr. upp í 15,000, og þessum styrk verði svo skift hlutfallslega á milli Wathnefélagsins og gufuskipafélagsins »Thore«, þannig, að félögin geti bæði fengið sitt með þeirri viðbót, sem vænta má af póstsjóði Danmerkur. Eg vona að fjárlaganefndin, hafi ekkert á móti þessari breyt.till. minni, get heldur ekki séð, að unt sé að komast hjá því, að hækka styrk þennan.

Það væri að vísu líka hægt að fella niður kröfuna um að skipin kaupi ábyrgð á flutningunum, og hægt að hækka jafnframt gjald fyrir peningasendingar og annað verðmæti. Það getum við gert með lögum, að því er snertir flutninga með strandferðaskipum, en til þess að breyta gjaldinu fyrir póstflutning milli landa þarf samkomulag við póststjórnina dönsku.

Af því það mundi valda ýmsum vafningum, er víst heppilegast í svipinn að halda því ástandi sem nú er, og hækka styrkinn fyrir næsta fjárhagstímabil.

Eg heyrði að háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) vildi mæla fram með breyt.-till. sinni á þgskj. 671, sem heimilar stjórninni að gera samning til 10 ára. Þetta fer í þveröfuga átt við ummæli hans um það, að landið sjálft tæki að sér ferðirnar, sem fyrst. Mér finst þetta öldungis vanhugsað, eins og nú á stendur. Kringumstæðurnar geta breytst á skemmri tíma en 10 árum. Finst því einsætt, að fella þessa till. háttv. þm. G.-K. (B. Kr.). Eg býst við að meðflm. minn að till. á þskj. 646 muni gera ítarlega grein fyrir henni, og er honum þar alveg samdóma. Mér finst, að úr því þingið á annað borð er að veita fé til ritstarfa, eigi það ekki að skera svo mjög við neglur sér, að styrkurinn verði gagnslaus til þess sem hann er ætlaður.

Þá er á sama þgskj. till. um, að hækka orðabókarstyrk Jóns Ólafssonar aftur í 1500 kr. Mér finst alveg rangt, að lækka þennan styrk, þar sem sannað er, að höf. hefir allmikið fyrirliggjandi í handriti, og lækkunin væri því að eins til að tefja útkomu bókarinnar.