29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Þessu tilboði var nú að vísu ekki beinlínis hafnað, en þingið vildi hins vegar ekki ganga óskorað að þeim skilyrðum, er þar voru sett, heldur breytti þeim töluvert, og varð því ekkert af samningum í það sinn. — Það skilyrði gufuskipafélagsins, sem einkum varð þess valdandi, að þingið vildi ekki ganga að, var það, að samningur skyldi vera gerður fyrir 10 ár. Og nú kemur háttv. þm. G.-K. (B. K.) með þessa till., að heimila stjórninni að gera samning, er gildi í 10 ár. Mér er reyndar sagt nú, að það sem talað var um 1907 hafi ekki verið nema 8 ár. (Hannes Hafstein:

10 ár). Jæja, 8—10 ár, en eg vil nú að eins vekja athygli háttv. þingdeildarmanna á því, að þar sem síðasta þingi þótti þetta tímabil of langt, það gat ekki gengið að þessum skilyrðum, þá er það einnig jafn athugavert, er hinn háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) fer nú fram á, að stjórninni sé heimilað að gera samning um 10 ára bil við eitthvert gufuskipafélag, og að öðru leyti með næsta óverulegum skilyrðum, og sem gefa ónóga tryggingu fyrir því, að skipin verði góð eða jafn vel viðunanleg. Og þar sem eg ætla, að enn minni trygging sé fyrir góðum kjörum eftir þessu tilboði eða heimild, en á síðasta þingi, þá virðist mér alls ekki meiri ástæða til að samþ. þetta nú, en þá, heldur þvert á móti.

Þá vil eg leyfa mér að minnast örfáum orðum á fjárveitinguna til Eiðaskólans. Háttv. 2. þm. Rvk (M. Bl.) hefir komið fram með breyt.till. þess efnis, að styrkurinn til þessa skóla verði lækkaður úr 20 þús. niður í 10 þús. kr., enda þótt fyrri upphæðin hafi nú verið samþ. hér í báðum deildum þingsins.

Eg skal rifja það upp nú, þótt hv. þm. sé það kunnugt, að bæði neðri deild og efri hafa samþ. að veita 20 þús. kr. til skólans, 10 þús. kr. hvort árið, eftir því sem Nd. ákvað, en Ed. hefir samþ. að veita upphæðina (20 þús.) í einu lagi fyrra árið. Auk þess hafði Nd. hækkað hinn árlega styrk, er var í stjórnarfrumv. um helming, úr 1500 kr. upp í 3000 kr. Þessa fjárveiting lækkaði Ed. Og nú stendur í frumv., eins og það liggur hér fyrir, að að eins 1500 kr. skuli veittar árlega — sama upphæð, sem veitt var til skólans í niðurlægingarstandi hans áður, meðan þar var áfátt um flest og sárfáir lærisveinar.

Eg skal nú ekki fella neinn dóm á þessar gerðir háttv. Ed., en eg bið menn að athuga, að hér er búið að svifta skólann hinum álitlega styrk, er Nd. ætlaði honum.

En ekki er þó þar með búið. Stjórn skólans sendi erindi til þingsins, og fór fram á að fá styrk af landssjóði til þess að stofna sérstaka kensludeild fyrir húsmæður við skólann. Þessu var vel tekið í fjárlaganefnd Nd. og af deildinni sjálfri, var samþ. hér í deildinni með mörgum aths. að veita Eiðaskóla til þessa 1000 kr. árlega. Bæði fjárlaganefnd og deildin leit svo á, að tilraun til að stofna húsmæðraskóla væri vel þess verð, að hún væri styrkt, í samræmi við það, að fjárlaganefnd einnig vildi styðja þess konar stofnun annarsstaðar — í Norðurlandi (Jónínu Sigurðardóttur). Háttv. Ed. hefir nú litið öðruvísi á þetta mál; húsmæðraefnin hafa ekki átt þar upp á pallborðið, þótt kvennaskólunum hafi verið tekið þar vel. Hin háttv. Ed. hefir lækkað styrkinn til Jónínu Sigurðardóttur um helming og felt með öllu burt styrkveitinguna til Eiðaskólans; hún hefir ekki álitið málið þess vert, að því væri sómi sýndur.

Eg skal svo ekki segja öllu meira um þetta atriði, en þar við vil eg láta sögu mína lenda, að Norðausturlandi er þetta mikið áhugamál; þar er það af flestum talið í fyrstu röð þeirra framfarafyrirtækja, er ber að styrkja. Enda vænti eg, að háttv. deild líti eins á það og hún hefir áður gert. Það er nú búið að rifja upp meðferðina á veslings Eiðaskóla, en það verð eg að segja, að hún yrði ómjúk, ef till. háttv. 2. þm. Rvk. (M. BI.) yrði nú samþ.; það væri öldungis ósanngjörn meðferð.

Eg ætla ekki að tala um aðrar kringumstæður skólans, það hefir verið gert áður; en þessi skóli er fyllilega þess virði, að hann sé ríflega styrktur, því að kenslukraftar hans eru mjög vandaðir, eftir því sem hér getur verið um að ræða á voru landi, og húsnæðið vandað í bezta lagi.

Um fleiri breyt.till. skal eg svo ekki tala hér.

En þótt óskað hafi verið, að tíminn yrði sparaður og ekki lengdar um of umr., þá verð eg þó að minnast nokkuð frekar á fjárlögin, eins og þau nú liggja fyrir hér í deildinni, eg hefi lítið minst á þau fyr á þinginu og þetta er síðasta meðferð þeirra hér í háttv. deild.

Eg vil þá leyfa mér að vekja athygli háttv. þm. á fáeinum tölum í þessum fjárlögum, og ef til vill reyna að útlista þær nokkuð.

Eins og sjá má, þá eru útgjöld landssjóðs eftir frumv. áætluð yfir 100 þús. kr. minni á næsta fjárhagstímabili, en farið er fram á í stjórnarfrv. Og þessi sparnaður — ef sparnað skyldi kalla. — er að þakka háttv. Ed. Úr Nd. fóru fjárlögin þannig, að útgjöldin voru meiri en upphaflega var til ætlast (í stjórnarfrv.), en Ed. hefir svo lækkað þau um nálega 170 þús. kr. eða rúmlega það.

Þessi lækkun á útgjöldunum (118 þús kr.) sem nú er á pappírnum, er að vísu álitleg — frá vissu sjónarmiði; útgjöldin virðast þar stórum minni, en áætlað var upphaflega. En ef litið er til þess, að fjárlaganefnd þessarar deildar og ráðh. hafa nú stungið upp á auknum fjárveitingum, sem nema til samans um 100 þús. kr., og þar sem gera má ráð fyrir, að þessar till. verði samþ., sérstaklega að því er til þeirra fjárveitinga kemur, er hæstv. ráðh. fer fram á, því að þær eru í alla staði réttmætar; ef nú litið er á þetta þá verður upphæð útgjaldanna í fjárlögunum svipuð og í stjórnarfrumv. upphaflega. Þar hefir í rauninni ekkert sparast. Það hefir oft heyrst kveða við á þessu þingi, einkum frá hæstv. meirihluta þingsins, hve mikil nauðsyn sé á að spara landsfé, það sé svo ilt í ári nú o. s. frv. Þetta er nú að vísu fallega hugsað, og efast eg ekki um, að mörgum hinna háttv. þm. sé það í raun og veru áhugamál að fara drjúglega með fé landssjóðs. En það mætti líka einmitt búast við því, að sá flokkur, er nú hefir yfirtökin á þingi, fyndi sér skylt — flestum fremur — að spara sem mest, af því að þessi sami flokkur hefir áður lagt svo mikla áherzlu á það, að það væri ein af helztu ástæðunum til að skifta um stjórn, að þá yrði minna fé eytt.

Eg þykist nú vita, að það sé fullur vilji allflestra hinna háttv. þm. þessa flokks, að gera sitt til að útgjaldabálkur fjárlaganna verði sem minstur. En það verð eg að segja, að hinum háttv. meiri hluta hefir ekki tekist það; honum hefir mistekist sú tilraun, sem eg efa ekki að fyrir honum hafi vakað, mistekist hún með öllu. Að vísu er það svo, að ýmsar upphæðir hafa verið feldar úr fjárlögunum, en þær hafa þá komið fram annarsstaðar, ef til vill smærri upphæðir, en að sama skapi fleiri. Það er í rauninni ómögulegt í fljótu bragði að segja, hvað orðið hefir af öllum þessum »spöruðu upphæðum«; en horfnar eru þær að mestu. Það er víst. —

Eg hefi borið saman upphæðir helztu gjaldagreinanna, eins og þær eru í fjárlögum þeim, er nú gilda (frá síðasta þingi 1907), eins og þær voru í stjórnarfrumv. og eins og þær eru nú í frv. og kemur þá ýmislegt einkennilegt í ljós og skal eg leyfa mér að benda á ýmsar greinar, þessum ummælum mínum til skýringar. —

Við byrjum þá á 12. gr. fjárlaganna, það er fyrsta grein útgjaldabálksins, þar sem um verulegan mun er að ræða. Upphæð þeirrar gr. er í gildandi fjárlögum 269 þús., í stjórnarfrumv. 283 þús. og í frumv. eins og það nú liggur fyrir, 300 þús. Sú grein hefir því verið hækkuð um 17 þús. kr. frá því sem stjórnin ætlaðist til, og þessi hækkun er þingsins verk. —

Þá kemur 13. gr. fjárlaganna, það er sú gr. sem stærstu fjárhæðirnar hefir að geyma, eins og vant er. Það er samgöngumálagr., og í henni eru allar fjárveitingar til póstmála, vega, gufuskipaferða, síma og vita. Til þeirra mála hefir verið varið æ stærri og stærri fjárhæðum á undanfarandi þingum, og verið lögð áherzla á það að vinna sem mest að þeim fyrirtækjum, og er óhætt að fullyrða, að í því efni hefir farið saman vilji þjóðarinnar, þingsins og stjórnarinnar. Þetta hygg eg að verið hafi rétt leið, sem legið hefir að því marki að styðja sem haganlegast alla atvinnuvegi og framfaraviðleitni landsmanna allra. Nú koma þessar svokölluðu sparnaðartilraunir meiri hlutans einmitt niður á þessari gr., og þetta markar nýja fjármálastefnu meiri hlutans og nýju stjórnarinnar. Kröftunum hefir hingað til verið varið til verklegra nytsemdarfyrirtækja og það hefir markað stefnu þá í fjármálapólitíkinni, sem fyrverandi stjórn og meiri hluti hafa fylgt á undanfarandi þingum, en nú er auðsjáanlega horfið frá þessari stefnu. Tölurnar í 13. gr. sýna þetta ljóslega. A þinginu 1907 var áætlað 1208 þús. kr. til útgjalda þessarar gr., eins og fjárlögin sýna. Stjórnin ætlaði nú að fara nokkru gætilegar í sakirnar og áætlaði 1078 þús. til þessara útgjalda. Hún miðaði við að tekjur landssjóðs yrðu nokkuð ódrýgri en á undanfarandi árum og sló því hæfilega undan, en hélt þó eindregið í áttina að takmarkinu. Eins og frumv. liggur nú fyrir deildinni, þá eru útgjöld í þessari gr. áætluð 871 þús. kr. eða 207 þús. kr. lægri en stjórnarfrumv. ætlaði hana og 337 þús. kr. lægri en í gildandi fjárlögum. Hv. þm. S.-Þing. (P. J.) skýrði nákvæmlega frá á hverju fé þetta væri »sparað«, og sýndi fram á, að það væri á brúm, vegum og símum, þeim fyrirtækjum, sem hingað til hafa verið talin nauðsynlegust allra, og því ætla eg ekki að fara fleiri orðum um þessa gr. en vekja aðeins athygli háttv. þingd. á því að allar aðrar útgjaldagr. frv. hafa hækkað, því fé, sem tekið hefir verið af brúm, vegum og símum, er dreift um þær allar. 14. gr. hefir hækkað um 26 þús. í meðferð þingsins, stjórnarfrumv. áætlaði hana 473 þús. nú er hún 499 þús. kr. Það er ýmislegt, sem hækkuninni veldur, en það sem mestu nemur eru mjög auknar fjárveitingar til ýmislegra skóla, sem landssjóður hefir að vísu styrkt hingað til, en þó ekki verið taldir hans handbendi. Hér kemur þessi »tendens« glögt fram, að fella úr fjárlögunum ýmislegt það sem landssjóði er að lögum skylt að láta vinna, en taka upp í þess stað ýmislegt, sem enga lagaheimild hefir til fjár úr landssjóði. T, d. skal eg benda á Flensborgarskólann; hann fær nær því alt sem hann bað um, nær alt sitt fé úr landssjóði, án þess þó að stjórninni sé gefinn vegur til þess að líta eftir eða hafa áhrif á skólann. Alstaðar kemur það sama fram: Það er látist vera að spara með því að fresta útgjöldum í bili, sem landssjóði er skylt að greiða og verður að borga á næstu árum, en fénu er varið til ýmislegra útgjalda, sem binda

landssjóði bagga nú og framvegis, bagga, sem honum er ekki skylt að bera og sem hann hefir ekki borið áður. —

15. gr. hækkar um 20 þús. kr. frá því sem hún var áætluð í frumv. stjórnarinnar og nokkru meira en helmingur þeirrar upphæðar eru bitlingar til einstakra manna. Eg skal ekki segja að þeir séu óþarfir eða ónauðsynlegar fjárveitingar, en það er þetta þing, sem veitir þá, þingið, sem ekki álítur landssjóð færan um að vinna sín skyldustörf.

Alls eru í fjárlögunum nýjar styrkveitingar til einstakra manna eða hækkaðir styrkir, sem nema 24 þús. kr. Svona örlátur er sparnaðarflokkurinn nýi við einstaka menn. Slíkar fjárveitingar hafa áður verið kallaðar bitlingar. Það sem meðal annars hefir hækkað útgjöldin í 15. gr. er aukin fjárveiting til bókasafnanna á Akureyri og Ísafirði. Það er ekki hægt að segja um það fé, sem til þeirra er varið, ef það er rétt notað, að það sé eyðslueyrir, sökum þess að það hækkar eign landsins og kaupstaðanna. En því gat þetta ekki líka beðið?

16. gr. er til verklegra fyrirtækja. Þar er um stórar upphæðir að ræða, og hefir sú grein hækkað tiltölulega minna en hinar í meðferð þingsins; enda er þar um verkleg fyrirtæki að ræða, og þau geta náttúrlega beðið fremur hinu. Alls hefir grein þessi hækkað í meðferð þingsins um 20 þús. úr 396 þús. upp í 416 þús.

Það er þessi meðferð á fé landssjóðs, sem eg hefi viljað benda á. — Eg get dregið það saman í örfá orð: Þörfustu verkin, svo sem vegir, brýr, símar o. s. frv. eru stöðvuð án þess að það takist að láta hag landssjóðs batna í minsta máta frá því sem hann var, meðan hin »eyðslusama stjórn« sat við völdin. En hún var gætin framfarastjórn. Nú er öllu snúið öfugt.

Eg segi það fyrir mig og minni hlutann í þessari deild, að vér höfum reynt að berjast móti þessari nýju stefnu eftir föngum. Meiri hlutinn hefir heiðurinn af þessu eins og öðru, sem þingið gerir og hann ber einnig ábyrgðina af því. Og eg afsala mér og þeim þm. hér í deildinni, sem sama flokk fylla — heimastjórnarflokkinn — alla hlutdeild bæði í heiðri og ábyrgð af þessum fjárlögum.