29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Eg vil leyfa mér að þakka háttv. fjárlaganefnd fyrir það, að hún hefir tekið upp fjárveitinguna til Borgarfjarðarbrautarinnar, þótt fjárveitingin sé nokkru lægri en á stjórnarfrumv. síðara árið. Það var byrjað á brautinni um aldamótin og hefir gengið seint; mest er nauðsyn á því, að fá brú á Norðurá.

Eg verð að láta þá skoðun í ljósi, að það sé ekki heppileg stefna, að láta nauðsynleg fyrirtæki, sem landssjóður á að annast, bíða, einkum þau fyrirtæki, sem hafa áhrif a líf og efnahag manna; það væri of langt gengið inn á sparnaðarbrautina, að hætta við þau með öllu. Þegar hart er í ári, er vinnan ódýrari, og fólk hefir þá meiri þörf fyrir hana.

Þá hefir fjárlaganefndin lagt til, að 1000 kr. til mótorbátsferða á Hvítá falli burtu. Eg er ekki ánægður með það, því mér finst það meinlaust, þó heimildin standi um það, að 1000 kr. megi verja til ferðanna á Hvítá. — Peningarnir verða ekki borgaðir út, nema báturinn geti komist langt upp eftir ánni.

Þá vil eg minnast á breyt.till. 633. Það er hækkun styrksins til 2 rithöfunda um 200 kr. á ári til þeirra Þorsteins Erlingssonar og Guðmundar Magnússonar. Eg hefi áður tekið það

fram, að þessir menn hafi unnið þann sóma og það gagn til bókmenta, að þeir eigi styrk skilið, og vil eg eigi fara að endurtaka það nú, sem áður er búið að segja um það mál, en að eins vil eg taka það fram, að eg álít, að þessi styrkupphæð sé hæfileg til þeirra manna í samanburði við það, sem öðrum rithöfundum er veitt á þessum fjárlögum.

Skal eg svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess, að hin háttv. deild sé mér samdóma um þetta efni.