29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg finn ekki ástæðu til að svara, fyrir hönd nefndarinnar, nema örfáu af því, sem sagt hefir verið. Eg skal geta þess, viðvíkjandi ræðu háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að til þess er ætlast, að báturinn, sem gengur á milli Reykjavíkur og Fáskrúðsfjarðar, verði valinn með sérstöku tilliti til Hornafjarðar. Hann á að verða grunnskreiðari en »Hólar«. Að öðru leyti ætla eg mér eigi að taka að mér, að verja Sameinaða félagið, eða meðferð þess á Hornfirðingum.

Það er rangt hjá háttv. þm. Vestm. (J. M.), að bendla fjárlaganefnd eða meiri hluta hennar við till. um að lækka styrkinn til Boga Melsteðs; hún er frá háttv. þm. Dal. (B. J.), og er eg samdóma háttv. þm. um það, að þessa till. verði að skoða sem fram komna í háðungarskyni, eða mjög litlu virðingarskyni að minsta kosti. Það er rangt að ámæla meiri hluta fyrir meðferðina á Boga, þar sem hann ætlar honum að halda styrknum fyrra ár næsta fjárhagstímabils, og efast eg um, að minni hlutanum hefði farizt betur, hefði hann staðið í meiri hlutans sporum. —

Þá skal eg snúa mér að ræðu hv. 1. þm, S.-Múl. (J. J.). Hann talaði mest um málið frá pólitisku sjónarmiði. Manni lá við að halda, að ræðan ætti að koma út í »Lögréttu« eða »Reykjavík«. Hann ámælti meiri hluta fyrir stefnu hans í fjármálum. Hæstv. ráðherra (B. J.) stendur næst að svara þessu, en þar sem hann eigi hefir gert það, skal eg taka það fram, að eg gat þess við 1. umr., að með því að frv. væri undirbúið af fráfarandi stjórn, hlyti það að vera hennar stefna, sem þar bæri mest á; en það er kunnugt í að núverandi stjórn hefir byrjað á símum og fleiri stórfyrirtækium, og þannig bundið fé landsins, svo sem eg hefi fyr sýnt fram á í fjárlagaumr. Háttv. þm. fann að því, að sparnaðurinn kæmi mest fram í 13. gr., en það er ekki enn komið í ljós, hver sparnaðurinn verður, því það veltur alt á því, hve mikið af breyt.till. einstakra þm. kemst að.

Þá mátti og kenna þess á ræðu hv. þm., að hann vildi draga sem mest vald undir stjórnina. Eg er gagnstæðrar skoðunar. Eg vil draga sem mest vald frá stjórninni í hendur þingsins og þjóðarinnar.

Eg finn ekki ástæðu til að þrefa um einstakar breyt.till., sem margoft hefir verið minzt á áður.