29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Eg held, að till. frá háttv. A.-Sk. (Þ. J.), hljóti að vera fram komin af tómum misskilningi. Verði bátastyrkurinn samþyktur eins og hann er nú í fjárlögunum, er ekki þörf á 15 þús. kr. sérstakri fjárveitingu til báts á Hornafjörð. (Þorleifur Jónsson: Eg tek tillöguna aftur). Jæja, þá þarf eg ekki að tala um hana. En í sambandi við þetta, þá vil eg taka það skýrt fram, að þegar fjárlaganefnd neðri deildar færði bátastyrkinn í eitt lag og slepti að setja sérstök skilyrði, þá vildi hún leggja áherzlu á það, að styrkurinn væri notaður til að bæta samgöngur, þar sem þær nú eru lakastar, þar á meðal á Hornafjörð og Húnaflóa. Hitt álít eg gersamlega rangt, að veita styrkinn helzt þangað, sem samgöngurnar eru beztar. Verði strandferðir ekki lakari, en þær eru nú, þá tel eg óþarft, að styrkja sérstaka flóabáta, nema á þeim stöðum, sem alt af verða helzt út undan. Nokkuð er það sérstaklegt með Faxaflóa gufubátinn, af því að hann tekur að sér póstflutninga til Vesturlands og Norðurlands og sparar þannig landpósta, að miklum mun. En hitt tel eg víst, að styrkur til þess báts megi vera töluvert lægri en nú er, þar sem hann hefir afar-mikla mannflutninga og vöruflutninga, og ætti því að borga sig með minna framlagi úr landssjóði. Þetta er stjórninni ætlað að athuga sérstaklega.

Eg hef ekkert á móti því, að heimila stjórninni alt að 60 þús. kr. á ári til strandferða og millilandaferða, og með þeim nánari skilyrðum, sem sett eru af fjárlaganefndinni, sérstaklega með það fyrir augum, ef mögulegt yrði að fá skip með kælirúmum og einhverjar ferðir til Hamborgar og Leith. En eg legg þetta til með alt öðrum hug, en þeir, sem miða það einungis við hið Sameinaða gufuskipafélag, og hina nýju áætlun erindrekans danska. Að vísu er nú helzt til lítill tími til þess, að athuga þá ferðaáætlun, sem kemur hér fyrst inn á fundinn í dag. En viðvíkjandi því, sem háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) o. fl. gerðu svo mikið úr því, hvaða gagn það væri, að Hólar færi 4 ferðir kringum land, þá vil eg segja það, að mér finst, að lítil bót mundi verða að þessum hringferðum. Lítum á hverjir eru viðkomustaðir — það eru kaupstaðirnir 4, nfl. Reykjavík, Seyðisfjörður, Akureyri og Ísafjörður, einmitt þeir staðir, sem áður hafa beztar samgöngur. Vinningurinn er því að eins fyrir þessa kaupstaði og engan annan og hvernig í dauðanum geta menn haldið því fram í alvöru, að þetta sé svo alment gagn fyrir landið. Eg sé því ekki annað, en að rétt sé, að samþykkja viðaukatill. háttv. þm. G.-K. (B. Kr.), því hún getur opnað veg fyrir stjórnina, að komast að samningum við

eitthvert annað félag, en það Sameinaða, t. d. norskt eða enskt félag, og hins vegar vil eg bera það traust til stjórnarinnar, að hún semji ekki fyrir lengri tíma, en minst verður komist af með, og sæti þeim kjörum, sem bezt fást aðgengileg.

Að lokum get eg ekki látið vera, að svara ræðu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) fám orðum. Hann endaði ræðu sína á því, að vísa til talnanna, sem hann nefndi. Þær áttu að sýna ráðleysi meiri hlutans í fjármálunum. Háttv. framsm. (Sk. Th.) hefir raunar skýrt það allvel, að það er ekki að kenna þessari viðtakandi stjórn né meirihl. nú, heldur þeirri fráfarandi stjórn og ýmsum ráðstöfunum síðari þinga. — Eg skal með nokkrum tölum sýna fram á það, hvernig búið er fyrir fram að binda meiri hlutann af tekjum landssjóðs með ýmsu, sem síðustu þing hafa lögbundið fram yfir það, sem áður var. Eg skal þá máli mínu til sönnunar að eins benda á nokkrar stofnanir, sem til hafa orðið undir hinni fráfarandi stjórn, og sem allar kosta mikið fé árlega, og þótt ýmislegt af því sé nauðsynlegt, þá kostar það jafnmikið fyrir því.

Skal eg þá nefna fyrst:

Lagaskólann, sem kostar árl. 25,000

Kennaraskólann 23,400

Gagnfræðaskólann á Akureyri 25,000

Prestlaunasjóðinn 24,000

Vegna fræðslulaganna ..........30,000

Geðveikrahælið 18,800

Bændaskólana (viðbót með

byggingum) 6,400

Samtals 210,200

Svo koma í viðbót söfnin öll með byggingum rúmlega önnur eins upphæð, og loks vitarnir allir og símakerfið, skóggræðslan, sandgræðslan og fleira og fleira. Þetta eru alt viðbætur, sem gerðar hafa verið á síðustu árum og sem verður að halda áfram. En hins vegar, ef að spara á fé, þá verður að draga úr einhverju af öðrum fyrirtækjum, þar á meðal vegum, því ekki er hægt að auka skatta landssjóðs í fljótu hasti. Eg held því, að það sé ástæðulítið, að vera að reyna til að sverta meiri hlutann á þessu þingi fyrir bruðlunarsemi, þar sem hann hefir reynt af öllum mætti, að halda í horfinu framfarafyrirtækjum, en lítið var orðið eftir af óbundnum tekjum, eins og eg hefi nú sýnt fram á.