19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Sigurður Sigurðsson:

Af því það stendur sérstaklega á með breyt.till. á þgskj. 253, þá verð eg að gera lítilsháttar grein fyrir henni. Það er viðvíkjandi Eyrarbakkabrautinni niður Breiðumýri. Breyt.till. miðar að því, að varið sé 1600 kr. til þess að afstýra skemdum framvegis, sem þessi braut er undirorpin af vatnságangi. Fjárveitingin er nauðsynleg í alla staði, og þarf að samþykkjast á fjáraukalögunum fyrir árin 1908 og 1909, svo að auðið verði að afhenda brautina á næsta hausti til sýslunnar. Það hefir verið gerð áætlun um, hvað þetta verk muni kosta. Áætlunin hljóðar upp á 3400 kr.; en verkfræðingur landsins býst við, að kostnaðurinn verði meiri.

Sýslunefnd Árnessýslu fer nú fram á það, að landssjóður leggi fram alt að helming þess kostnaðar, og er þar eigi til ofmikils mælst, þar sem þetta verk lýtur að því að gera þessa braut svo úr garði, að hún verði afhent sýslunni til viðhalds. Í raun og veru ber landssjóði að kosta þetta að öllu leyti; en hér er þó eigi farið fram á slíkt.

Verkfræðingur landsins hefir lagt til, að sérstök fjárveiting yrði veitt í þessu skyni, og öll sannsýni mælir með því að landssjóður borgi þetta að minsta kosti að helmingi. Vona því að br.-till. verði samþ. Eg skal taka það fram, að þetta er engin jarðabót heldur að eins til þess að halda vatni frá brautinni, svo að hún ekki eyðileggist fyrir þá skuld. Skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en treysti því, að breyt.till. fái fylgi og verði samþ.