19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jón Magnússon:

Eg þarf ekki að fara sérlega mikið út í þessi efni, því að hæstv. ráðherra (H. H.) hefir að mestu tekið af mér ómakið. Eg vil að eins minnast nokkuð á símann til Vestmannaeyja.

Háttv. framsm. (B. J.) talaði um það, að þessa síma væri lítil þörf, hann mætti vel bíða, því að Vestmannaeyjar hefðu svo góðar samgöngur. Nú er samband Vestmannaeyja við land svo að segja alveg hið sama sem samband Reykjavíkur við útlönd, svo að eyjarnar hafa mikinn hluta vetrar ekkert annað samband við land en póstskipin. Oft verður ekki komist á land í Rangárvallasýslu svo mánuðum skiftir, þótt að vísu áraskifti séu að því. En látum svo vera, að samgöngur séu sæmilegar, og að það sé ástæðan fyrir því, að hin háttv. fjárlaganefnd leggur til, að símasamband komist ekki á til Vestmannaeyja. En hvers vegna er þá sími lagður til Borgarness? Ólíku betri samgöngur eru þar en í Vestmannaeyjum. Enda er þetta ekki ástæða háttv. fjárlaganefndar, einhver önnur ástæða hlýtur að vera til þessarar tillögu; þessi ástæða hefði aldrei átt að heyrast.

En nú vill svo til, að þessi sími kæmi ekki eingöngu Vestmannaeyjum að gagni heldur bæði Eyjunum og þó einkum Reykjavík og sjávarútvegi hér og við Faxaflóa. Á síðasta þingi, er þetta mál lá fyrir, kom eg að máli við marga útvegsmenn hér, og luku þeir allir upp einum munni um það, að sími til Vestmannaeyja væri ekki að eins nauðsynlegur, heldur töldu þeir hann jafnvel nauðsynlegastan allra síma á landinu, að því er til sjávarútvegs kemur. Enda þarf ekki til þeirra að vitna; þetta vita allir. Háttv. framsm. (B. J.) taldi útlátalítið að fresta símalagningunni; það má vera að svo sé fyrir landssjóð í bráðina; en eins og hæstv. ráðherra (H. H.) tók fram, sá sími mundi gefa af sér góða vöxtu, og ekki að eins það, heldur mundi landssjóður beint stórgræða á honum.

Háttv. framsm. (B. J.) var að tala um að koma á loftskeytasambandi við Vestmannaeyjar, og kvað nefndina hafa leitað fyrir sér í því efni. Mér sýnist hin háttv. nefnd hafa rekið það erindi mjög slælega. Það hefði verið hægur nærri og raunar eini rétti vegurinn að snúa sér til áreiðanlegs félags um málið, en leita ekki til einstaks manns, sem ekkert á undir sér, En það þurfti ekki að leita til nokkurs félags um þetta mál. Vér höfum svarið frá þinginu 1905. Eftir tilboði merkasta félagsins »Telefunken« er stofnkostnaður við loftskeytasamband milli Vestmannaeyja og Reykjaness talinn 74 þús. kr., en reksturskostnaður minst árlega 9 þús. kr. Ekki hefir loftskeytasamband orðið miklum mun ódýrra síðan, að því er eg veit. En það er næstum hlægilegt í grein einni, er birtist nýlega í blaðinu »Ísafold«, um loftskeytasamband milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, að sjá stofnkostnaðinn áætlaðan 15,000 kr. Það sér hver heilvita maður, að slíkt fleipur er ekki eftir hafandi, þó að einhver óáreiðanlegur maður láti sér slíkt um munn fara. (Björn Jónsson: Hann hefir meira vit á því en við). Getur verið, en ekki þótti tiltækilegt, er rætt var um stofnkostnaðinn á loftskeytasambandi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja 1905, að ætla hann minna en 90 þús. kr. (Björn Jónsson: Síðan eru 4 ár). Varla hefir loftskeytasamband lækkað svo mjög síðan, að það, sem þá kostaði 90 þús. kr., kosti nú 15 þús. kr. Eg tek það aftur fram, að ef háttv. fjárlaganefnd hefði haft áhuga á þessu, mundi hún hafa snúið sér til áreiðanlegs félags, en ekki til einstaks manns; það var óþarfa krókur og sýnist helzt vera gert til þess að koma því svo fyrir, að enginn árangur yrði að. (Björn Jónsson: Fögur ágizkun!). Hæfilega fögur, því að alt hefir sýnilega verið miðað við það að draga málið á langinn. Ef nefndin hefði sagt, að hún skyldi hafa rannsakað þetta fyrir þinglok, þá hefði verið öðru máli að gegna.

Eg ímynda mér, að ef hinni háttv. fjárlaganefnd hefði verið full alvara með að koma nokkuru sambandi á við Vestmannaeyjar, mundi hún hafa sýnt það betur í framkvæmdinni. Eg get hugsað mér, að fyrir hinni háttv. nefnd hafi vakað, að óþarft væri að kosta svona miklu til svo lítils bletts, þar sem svo fátt fólk er, það borgaði sig ekki. En nú er því svo varið, að landssjóður hefir satt að segja ekki kostað miklu til Vestmannaeyja, enda hafa eyjabúar hvorki kvabbað né kvartað. Það er sannast að segja af afskiptum landssjóðs af Eyjunum, að þær hafa engra hlunninda þaðan notið, annara en þeirra sem ómögulegt var að neita þeim um. Það hefir verið talað um, að Vestmannaeyjar hefðu góðar samgöngur á sjó. En af hverju stafar það? Það stafar af því, að það þykir borga sig að láta skipin koma þar við.

En þótt landssjóður hafi lítið hlynt að Vestmannaeyjum, þá græðir hann þó meira á þeim en nokkurum öðrum bletti á landinu. Tekjur af Eyjunum eru árlega 20—30 þús. kr., en kostnaður sama sem enginn. Vestmannaeyjar eru því sem mjólkurkýr, sem engu þarf til að kosta. Eg vona því að háttv. þm. sýni nú sanngirni í þessu máli, og skal eg ekki orðlengja frekara um það að sinni.

Annað atriði, sem eg vil minnast á, og hæstv. ráðherra (H. H.) hefir raunar talað um, er fjárveitingin til bókakaupa handa lagaskólanum. Mér hefir ætíð verið ant um þann skóla, og álít, að hann hefði átt að vera kominn á miklu fyrr. Eg tel það sjálfsagða skyldu þingsins að hlynna að honum sem bezt. Háttv. framsm. (B. J.), taldi skólann mundu geta fengið lagasöfnin með litlu verði eða jafnvel ókeypis. En það er ekki svo. Stjórnartíðindin er örðugt að fá; þau eru uppgengin og verður að kaupa. Alþingistíðindin eru að vísu til og eru ódýr, en band á þeim er dýrt. Af Lögtíðindunum veit eg ekki til, að til sé nema 1 eintak hér í bæ, sem ekki vanti í, nfl. hjá stjórnarráðinu. Hvorki við yfirréttinn né bæjarfógetaembættið eru þau til nema »defect« að miklum mun.

Eg sé ekki, að hægt sé að spara það fé, sem þarf til nauðsynlegra bókakaupa, og úr því að skólinn er kominn á, sæmir þinginu ekki annað en gera hann vel þolanlega úr garði.