19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jón Þorkelsson:

Á þgskj. 296 á eg till. um það, að dyraverði við safnhúsið verði veitt 600 kr. viðbót. Það er í samræmi við það, sem fjárlagan. sjálf hefir lagt til í fjárl., með þeim ummælum, að ekki sé »vit í«, að ætla manninum minna, en 1400 kr. um árið. Maðurinn hefir nú 800 kr. um árið; þar af verður hann, að því er hann hefir mér sagt, að halda 2 stúlkur, sem báðar hafa til samans 30 kr. um mánuðinn og dreng með 10 kr. á mánuði. Eftir verður þá handa honum, konu hans, 3 börnum og fæði handa vinnufólki hans 26 kr. um mánuðinn. Það segir sig sjálft, að maðurinn getur ekki af því lifað.

Í öðru lagi hefi eg lagt til, að veita 500 kr. til aðstoðar fornmenjaverðinum, í samræmi við fjárlagan., sem ætlar honum 600 kr. til þess hvort árið á næsta fjárhagstímabili; það, sem munar, nemur þá hér um bil tímanum frá nýári. Það hefir verið játað, að fornmenjavörðurinn væri ekki skyldur að hafa á hendi umsjón forngripasafnsins, og þó að hann hefði það, væri honum ókleift, að anna því einn.

Þá vil eg loks minnast á þá breyt.-till. fjárlagan., er fer fram á það, að lækka fjárveitinguna til undirbúnings skrásetningu fornmenja úr 1000 kr. í 500 kr. Eg hefi átt tal um þetta við fornmenjavörðinn, og hann hefir sagt, að ekki væri viðlit, að komast af með minna, en stjórnin hefir lagt til fyrir þetta verk, sem er beint lögskipað, eins og menn vita.

Eg bið menn vel að athuga það, hversu ísjárvert það er, að útlendingar eru farnir að vaða hér uppi og leita fornmenja, sem vér höfum friðað. — Daniel Bruun hefir fengið 10 þús. kr. úr Carlsbergssjóði til að grafa hér í fornmenjum í 3 ár. Það er óneitanlega kátlegt að heyra, að útlendingar eru farnir að leggja stórfé í það, sem er skylda, sómi og réttur vor að ransaka, en vér sjálfir nemum lúalega við nögl oss alt, sem til þessa þarf. Bruun hefir dvalist hér við fornmenjarannsóknir í 2 sumur. Fyrra sumarið var hann norður í Gásum, en síðara sumarið ransakaði hann eitt hof. — Til þessa hafa gengið 6000 kr. Eg skýt því nú til sómatilfinningar allra manna, þeirra er orð mín mega nema nú, hvort svo búið megi vera, hvort vér megum veita einar 500 kr. á ári til því líks verks, sem það nú er, að kanna fornmenjar allar á landi voru. Það vita allir menn, að hér er mikið að gera. Hér hafa verið að blása upp og eru að blása upp dysir og haugar. Þessara fornmenja þarf að gæta, ef þær eiga ekki að eyðast, og til þessa þarf fornmenjavörðurinn að hafa með sér marga menn til aðstoðar víðsvegar um land alt. Þá hefir og ekki verið hirða mikil á legsteinum hér á landi. Þeir hafa verið brotnir og teknir í húsahleðslur, í bæjarkampa og fjárhúsaveggi. Þessu þarf fornmenjavörðurinn að safna og binda brotin saman með gipsi. Ljósmyndavél góða og nákvæma þarf hann og að hafa á ferðum sínum. Mér þykir nú raunar, sem ekki kunni að vera loku fyrir það skotið, að fornmenjavörðurinn eigi heimtingu á, að fá greitt úr óvissum útgjöldum fyrir ferðalög sín til ransókna, úr því að þau eru lögskipuð. Og ef svo er, þá þýðir fjárlaganefndinni ekkert að vera að skamta þessa fjárveitingu.

Eg skal þá víkja aftur að forngripasafninu. Það hefir sagt mér vörðurinn þar, að ekki sé hægt að ábyrgjast með þeim mannafla til umsjónar, sem nú er, að óráðvandir menn geti ekki tekið þar gripi. Það hefir og fylgt með, að ráðvanda menn gæti hent að gera þar spjöll. Að vísu er bannað að handleika muni þar. En það er ekki unt, að framfylgja því banni, nema gott gæzlulið og trútt sé við. Þessu til dæmis, sagði hann mér, að komið hefði í safnið nú fyrir nokkru skóli einn hér og skoðað sig um. En sú varð raun á eftir á, að þar hafði margt verið handleikið og sumt skemt. Fornir hlutir eru oft svo viðkvæmir, að ekki má við þeim hreyfa nema með varúð, og sem minst loft má á þeim leika, til þess að þeir geti geymst öldum saman. Í þessu skyni eru hafðir um þá glerskápar. Ef um óvandaða menn er að ræða, er ekkert hægara, en að hafa félagsskap til þess, að ná í muni þar, þegar gæzlan er svo ónóg. Einn getur brotið glerið, svo sem eins og af tilviljun; vera má, að hann geri afbötun sína og borgi spellið. En annar er svo úti í horni, kemur að á eftir og hirðir fémæta muni úr kassanum. Til þessa þarf og ekki félagsskap; ráðvandan mann getur hent að brjóta glerskáp, og ef þá er ófrómur maður viðstaddur, þá getur hann fært sér það í nyt. Menn munu því sjá, að á slíkum söfnum er margs að gæta, bæði að því er tekur til óráðvendni og handæði eða gáleysis.

Undarlegt er það, að forngripasafninu hefir ekki verið ætlað neitt fé til flutnings í hið nýja hús, jafn erfiður sem hann mun þó hafa verið. Áður hafði safnið miklu meira fé til umráða en nú. Þegar það var í bankanum fekk það 2000 kr., til þess að gjalda húsaleigu. Ekkert fé hefir það safn heldur fengið til áhalda; alt það fé, sem til áhalda hefir verið ætlað, hefir verið notað handa landsbókasafninu og landsskjalasafninu.

Af öllum þeim rökum, sem eg hefi nú til tínt, þá vænti eg, að menn láti sanngirni ráða og styðji þetta safn sem má.