19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Eggert Pálsson:

Þetta mál, Rangárbrúarmálið, hefir verið á dagskránni allmörg undanfarandi þing, og allir menn hafa viðurkent, að Rangá væri vond á og ill yfirferðar — þeir er nokkuð til þektu — sem nauðsyn bæri til að væri brúuð sem fyrst. Vitanlega eru til enn þá verri vatnsföll óbrúuð hér á landi. En það eru vatnsföll, sem menn hafa ekki enn hugmynd um að verði brúuð; má t. d. nefna Kúðafljót Markarfljót, Þverá og fleiri sand- og auravötn. En af þeim vötnum, sem hægt er að brúa, stendur Rangá óneitanlega fremst í röðinni. Á síðasta þingi skoraði fjárlaganefndin í báðum deildum á stjórnina að láta ransaka brúarstæðið á Ægissíðuhöfða nákvæmlega og gera áætlun um brúarkostnað þar fyrir þetta þing, svo framarlega sem brú teldist þar örugg. Þetta hefir nú

stjórnin látið gera, svo að alt er þannig nú fullkomlega undirbúið undir framkvæmd verksins. Að þetta brúarmál ekki komst í framkvæmd á síðasta þingi stafaði að eins af ónógum undirbúningi.

En nú eru þau mótmæli, sem bygð voru á hinum ónóga undirbúningi horfin úr sögunni og brúarstæðið fengið á þeim eina rétta og hentuga stað, sem allir hlutaðeigendur óska helzt eftir. Háttv. framsögum. fjárlaganefndar (B. J.) vildi efast um að áin væri ill yfirferðar og hélt því fram að hún væri aðeins lítil spræna, sem óþarfi væri að brúa. Þetta stafar auðvitað af ókunnugleika háttv. framsm. (B. J.) þar eystra, sem tæplega er svara vert. Þegar áin er allra minst er hún þó á miðjar síður, og oft og einatt meira og eftir því er breiddin, svo að tekur nær fjórðung stundar að ríða yfir hana, svo að allir geta séð, hvílíka sprænu hér er um að ræða. Hann sagði og að hægt væri að koma vögnum yfir um ána. — Þetta er satt. Það er hægt, það er að skilja mögulegt, en erfiðismuni kostar það mikla bæði fyrir menn og skepnur og því nær sem tómir verða vagnarnir að vera. Og ætti háttv. framsm. (B. J.) hestinn, sem fyrir vagninn er beitt, efast eg um að hann vildi góðfúslega leggja hann í það. Svo mikill dýravinur er hann áreiðanlega. Honum mundi víst blöskra, því að það gerir flestum að sjá 1—2 menn standa með reidda svipuna og lemja hestinn miskunarlaust, til að fá hann til að koma vagninum yfir um á þurt. Enda er það alls ekki sjaldgæft að hestar séu linaðir við þær aðfarir. Að minsta kosti þekki eg dæmi til þess. Þegar rjómabúið í Fljótshlíð var stofnað varð að flytja ýms ókliftæk áhöld til búsins og við það bilaði einn hesturinn einmitt í Ytri-Rangá,

svo að hann varð að slá af árið eftir og var þó hesturinn á góðum aldri og talinn stólpagripur.

Hv. frsm. (B. J.) sagði, að botninn í ánni væri góður. En það er einmitt hið gagnstæða tilfellið — þar eru mjög víða klappir, sem ilt er að sneiða hjá, svo að kvenfólk og lítilsigldir menn fara aldrei yfir ána fylgdarlaust, hvað lítil sem hún er.

Nú er sem sagt undirbúningur þessa máls orðinn hinn allra bezti og verkfræðingur landsins hefir fengið nýtt tilboð um ódýrari brú, en menn höfðu nokkru sinni vænst, svo að ástæða er þannig til að vonast hins bezta fyrir framgang þessa máls, og býst eg ekki við, að það gagni því mikið að ræða málið meira, enda mun deildin líklega vera búin að ákveða afstöðu sína til þess, jafn kunnugt mál sem það er áður orðið hinu hv. alþ.