19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Sigurður Gunnarsson:

Eg hefi leyft mér að koma fram með tvær till., aðra á þgskj. 284 og hina á þgskj. 285. Fyrri till. fer fram á, að veitt verði fé til að brúa Gríshólsá í Helgafellssveit og svonefnt Síki, einnig í sömu sveit.

Í sumar er leið var unnið að þjóðveginum, milli Stykkishólms og Borgarness, í Helgafellssveit, og er veginum nú komið nálega upp undir Kerlingarskarð að norðan eða, nánar tiltekið, upp undir svo nefnt Stórholt. Á þessum kafla vegarins er áin og síkið, sem eg nefndi. Kemur hinn nýi vegur þar ekki að fullum notum fyr en þetta er brúað, að minsta kosti að vetrarlagi. Þótt hér sé eigi um nein stór vatnsföll að ræða, getur á þessi og síki valdið að vetrarlagi óþægilegum farartálma.

Áætlun skriflega um kostnaðinn hefi eg ekki í höndum, en glöggur og vanur verkstjóri, Daníel Hjálmsson, sá hinn sami, er stýrði vegagerðinni á greindu svæði hefir sagt mér, eftir áætlun, er hann hefir gert, að kostnaðurinn fari eigi fram úr 3000 kr.

Hin till. á þgskj. 285 er sú, að þingið veiti 5000 kr. styrk til hafskipabryggjunnar í Stykkishólmi, á þessum sömu fjáraukalögum. Þess ber að geta, að fyrv. þm. Snæf. hafði á undanförnum þingum útvegað 10,000 kr. lánveitingarheimild með góðum kjörum til þessa stórfyrirtækis, og 5000 kr. styrk.

Starfinu er nú komið alllangt áleiðis, og hefir Stykkishólmshreppur lagt til fyrirtækisins af sinni hálfu það sem hann ítrast megnar, tekið 20,000 kr. lán í Landsbankanum, og 5000 kr. bráðabirgðalán í Íslandsbanka. Auk þess leggur sýslan til 2000 kr., sparisjóður 1000 kr., o. s. frv. Enn fremur hafa kaupmenn haft góð orð um að styðja málið. Tek eg þetta fram til að sýna, hvílíkan áhuga hreppsnefnd, sýslunefnd o. fl. hafa sýnt í þessu máli. Slíkan áhuga á nauðsynjafyrirtækjum hefir þingið verið vant að meta, og vona eg að svo verði enn, enda má öllum ljóst vera, að hreppsnefnd Stykkishólmshrepps þarfnast ákaflega slíks styrks, er hér er farið fram á. Yrði þá styrkurinn allur, með áður veittum styrk 10,000 kr., sem ekki nemur fjórðungi kostnaðar, því byggingin verður, vegna breytingar sem stjórnarráðið lét gera, yfir 40,000 kr. Til hliðsjónar skal eg benda á, að síðasta þing veitti styrk til bryggju á Skipaskaga og Blönduósi, er nema þriðjungi kostnaðar.

Stykkishólmur er, svo sem kunnugt er, sjálfsköpuð miðstöð samgangna á Breiðafirði. Kaupstaðurinn hefir og verið í framför síðari árin, og fólki því fjölgað. Enn skal eg benda á, að í

hitt eð fyrra náði hreppsnefndin kaupum á Stykkishólmi, sem áður var einstakra manna eign, og fyrir því stendur nú bryggjan á eigin lóð kauptúnsins.

Heppilegast af öllu telur hreppsnefndin, að bryggja þessi geti orðið að öllu eign kauptúnsins, og nefndin haft þannig óskoruð umráð hennar.

Í því trausti að deildin taki drengilega í þetta mál, lýk eg máli mínu um þessar br.till.