19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jón Jónsson, (S.-Múl.):

Eg skal ekki lengja mikið umr., en eg vil þó gera grein fyrir atkv. mínu. Að því er Rangárbrúna snertir, hefir verið bent á, að fjárhagslega séð væri það haganlegast og heppilegast að leggja brúna á næsta sumri. Málið er nú þegar að öllu undirbúið af verkfræðingi landsins og hefir hann gert ráð fyrir, að brúin yrði bygð sumarið 1909, en 1910 er ætlast til að bygð verði stór brú á Norðurá og 1911 3 býr á Holtavörðuheiðarveginum. Væri nú Rangárbrúnni frestað til 1910 eða 1911 færi stór brúargerð fram á tveim stöðum á sama tíma, en hver brúargerð útheimtir náveru verkfræðings, og því er auðsætt, að þá yrðu báðir verkfræðingarnir bundnir við brúargerðirnar, og gætu þá auðvitað ekki samtímis haft eftirlit með vegagerðum og öðrum nauðsynlegum framkvæmdum á öðrum stöðum. Í mínum augum er málið svo vaxið, að fyrir landssjóð sé ekkert unnið, þótt því sé frestað og erfiðleikarnir á að fá verkið unnið seinna miklu meiri, að eg nú ekki tali um þann hag, sem Rangæingar hafa af að fá brúna strax, sem meir en vegur upp eins árs rentur af kostnaðinum. Eg treysti svo á réttlætistilfinningu þm., að þeir láti Rangæinga ekki gjalda þess, þótt nú hafi svo tekist til, að þm. þeirra eru í minni hluta á þinginu. Framsm. (B. J.) sagði í ræðu sinni áðan, að Rangá væri ekki stórt né erfitt vatnsfall. Látum svo vera, að það sé alveg rétt, þegar hún er borin saman við ýms þau stórvötn, sem landssjóður hefir brúað hingað til. En fjárlaganefndin ásamt framsm. hefir lagt til að bygð yrði brú á Laxá í Húnavatnssýslu. Það er þó miklu minni á og greiðari yfirferðar. Í samanburði við hana er Rangá stórá. Eg tel því þm. nokkuð mislagðar hendur, ef það yrði ofan á að fella Rangárbrúna, en samþ. brú á Laxá. En einkum vil eg þó leggja áherzlu á sögu málsins. Mál þetta kom fyrir þing 1907 og var þá að öllu undirbúið öðru en að ágreiningur var um brúarstæðið. Flestir kusu það þar sem nú er ráðgert, en verkfræðingur landsins hafði lagt til, að brúin yrði bygð á öðrum stað. Var málið svo þæft fram og aftur og varð það loks samkomulag við 1. þm. Rangv. (E. P.) að fresta málinu í bráð, og átta sig til fulls á því, hvort brúarstæðið væri hentugra. En kæmi málið full-undirbúið undir þing 1909, skyldi brúargerðin sett á fjáraukalögin og verkið unnið sumarið 1909. Ef þingið nú álítur nokkurs vert að brjóta ekki loforð fyrri þinga, á það ekki að fella þessa brúargerð nú. Og eg verð að segja, að það væri óheppilegt, ef seinni þing, þótt önnur flokkaskifting sé, teldu sig ekkert bundin við loforð fyrri þinga. Það yrði til að rýra álit og virðing þingsins, ef það yrði bert, að alþingi, sú virðulega stofnun, teldi sér ekki skylt að standa við orð sín, og er vonandi að meiri hluti háttv. deildar vilji ekki stofna til þess.

Þá er ritsímasambandið til Vestmannaeyja. Það tel eg bráðnauðsynlegt ekki einungis Vestmannaeyja heldur landsmanna vegna í heild sinni, er það hlýtur að verða til stórmikils hagnaðar, einkum fyrir útgerðarmennina hér í Reykjavík og annarsstaðar sunnanlands. Eg vildi óska, að háttv. deildarmenn íhuguðu þetta vandlega. Ef síminn kemur ekki til Vestmannaeyja verð eg að telja það mjög misráðið að vera að leggja síma austur í sveitir og láta hann enda í sveit ekki fjölmennri að eg hygg. Síminn frá Selfossi austur að Garðsauka kæmi þá ekki að tilætluðum notum og það væri því engin skynsamleg ástæða að leggja hann þá leið, heldur að eins gegnum Selfoss til Eyrarbakka og Stokkseyrar.