19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Eg held það ætti að vera orðið fullrætt um þessa blessaða Rangárbrú. Þá brú má telja »lúxus«, ekki í sjálfu sér, heldur í sambandi við aðrar brýnar eða enn þá brýnni nauðsynjar, er kosta þarf úr landssjóði. Oss væri ánægja að láta Rangæinga fá fé þetta, ef vér gætum, en vér megum ekki af því missa frá öðru. Brýnni þörf kallar svo víða. Eg skal t. d. minna á alt það fé sem fer og verður að verja til útrýmingar berklaveikinnar hér á landi. Eg er sannfærður um, að ef Rangæingar væru spurðir, hvort þeir vildu ekki fyrst um sinn verða af brúnni, en fénu væri varið til að yfirstíga það mikla þjóðarmein, til að reisa heilsuhæli handa berklaveikum, mundi mikill meiri hluti þeirra svara óhikað já. Svo óeigingjarnir og svo miklir ættjarðarvinir veit eg að þeir eru. Annars er þessi mikla keppni h. þm. þeirra nokkuð óviðfeldin. Þingmenn eiga að hafa ekki eingöngu hagsmuni síns héraðs heldur alls landsins fyrir augum sér. Þeir mega ekki gera sig seka í ofmikilli hreppapólitik, og þegar hún kemur fram eigi að síður, á deildin að sjá sóma sinn í að kveða slíkt niður. Hér við bætist enn, að geysimikill ágreiningur er um brúarstæðið. Brú hjá neðri staðnum, hjá fossinum, mun ódýrari og að líkindum traustari og verður þar endingarbetri; á efri staðnum, á Höfðanum, liggur hún betur í þjóðleið. Eg fyrir mitt leyti er samt þeirrar skoðunar, að þegar brúin kemur, þá eigi hún að vera á efri staðnum.

Fyrri þm. S.-Múl. (J. J.) lagði mikla áherzlu á, að það væri að rjúfa heit fyrri þinga að synja Rangæingum um brúna, og taldi næsta þing bundið við ályktanir þingsins á undan. Þetta er herfilegasti misskilningur. Nýjum meiri hluta ætti eftir því að vera skylt að samþykkja og leggja fram fé til fyrirtækja, þótt hann álíti þau óþörf eða jafnvel skaðleg landi og lýð, ef að eins meiri hluti fyrri þinga — þegar flokkaskifting var öðruvísi — hafi verið þeim meðmæltur. Slíkt væri óþolandi haft á frelsi seinni þinga og liggur svo í augum uppi, að mig stórfurðar á að háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) skuli koma fram með aðra eins kenningu. Fjárhagurinn getur líka verið orðinn annar og lakari, t. d. 1907, alt annar en 1909, og því meiri ástæða til að hafa sem mestan sparnað; en það ætti seinni þing, t. d. þingið núna, ekki að hafa heimild til að gera, ef öll þessi kenning væri rétt.

Það hefir verið mikið talað um, hve Vestmannaeyjasíminn væri nauðsynlegur. Eg hef svarað því áður fullrækilega. Eg hef leitt rök að því, að ekki væri rétt að leggja ritsíma þangað, fyr en ransakað væri, hvort loftskeytasamband þangað væri óframkvæmanlegt. Hér er ekki verið að fara fram á annað en að ekki sé rasað fyrir ráð fram, heldur að reynt sé fyrir sér, hvort loftskeytasamband milli lands og Eyja sé ekki fáanlegt með góðu móti. Sjálfir höfum vér enga sérþekkingu á þessu máli og er skylda vor þingmanna að afla oss betri vitneskju eða fræðslu um það mál, áður en ráðist er í jafnstórt fyrirtæki.