19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jón Magnússon:

Út af því, sem sagt var seinast, að ekki væri mikil nauðsyn á síma til Vestmannaeyja, þá skal eg að eins geta þess, að landsímastjórinn hefir sagt, að þessi sími hefði átt að koma á undan öllum öðrum símum, næst á eftir símanum frá Seyðisfirði til Reykjavíkur, og í sambandi við símann austur í Rangárvallasýslu. Þetta var álit hans, þess manns, er auðvitað hefir bezt vit á málinu hérlendra manna, og þess vegna hefir háttv. meiri hluti fjárlaganefndarinnar líklega ekki þótt ástæða til, að tala við hann.

Eg vil minnast á það, sem eg gat um áðan, að ekki er rétt, að setja loftskeytastöð til afnota fyrir skip, í samband við þetta mál. Til þess álít eg, að hentast væri, að hafa 1 stöð, t. d. á Eyrarbakka. En ef ætti að nota loftskeytasamband á milli Eyjanna og landsins, þá þyrftu stöðvarnar að vera 2, og það mundi vafalaust kosta mikið meira, heldur en að nota sæsíma, eins og stjórnin stingur upp á.

Vel getur verið, að sumum þyki ástæða til að hafa samband við Grímsey. Eg mæli ekki á móti því, en dálítið finst mér það einkennilegt, að tala um það, í sambandi við þetta mál.