31.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Eggert Pálsson:

Eg ætlaði að segja fáein orð viðvíkjandi breyt.till. 344, sem eg og hv. samþm. minn höfum komið með. Eftir vexti málsins gefur að skilja, að það er ekki mikið eða margt sem um það mál er hægt að segja, sem till. hljóðar um. Það hefir þegar áður verið skýrt frá þörfinni á Rangárbrú, og álít eg þýðingarlaust að endurtaka það. Og vegna þessarar ómótmælanlegu nauðsynjar, sem er á því, að fá þessa brú sem fyrst, berum við þm. þessa kjördæmis fram þessa till. enda þótt við vitum eigi, hvernig kjósendur okkar myndu taka því að verða að bera þann bagga, sem við þannig neyðumst til að leggja þeim á herðar með þessari till. okkar.

Háttv. framsm. (Sk. Th.) mintist á fjárveitingu til Holtavegarins, og mér virtist svo sem hann vildi skoða hana sem styrk til Rangæinga. En hér er ekki um neinn styrk að ræða, heldur að eins fjárveitingu til þess að gera Holtaveginn svo úr garði, að hann verði tekinn út af landssjóði og afhentur sýslufélaginu. En hversu vel sem Holtavegurinn yrði úr garði gerður, sem eg efast um að nokkurn tíma verði, þá er það víst að fyrir sýslufélagið getur hann eigi komið að tilætluðum notum án brúarinnar. Það er víst og satt að með honum er langferðafólki og skemtiferðafólki mjög gert léttara fyrir, en þýðingarminni er og verður hann, að því er vöruflutning snertir á meðan Rangárbrúna vantar.

Legg eg svo alveg á vald hinnar hv. deildar, hvernig hún snýr sér í þessu máli. Við þm. kjördæmisins höfum fullkomlega gert skyldu okkar í þessu máli og ábyrgðin á því að þessi nauðsynlega samgöngubót kemst ekki á hvílir ekki á okkur, heldur hinni hv. deild.

Eg vil geta þess, að hinn hv. frsm. (B. J.) tók það fram við 2. umr. fjárlaganna, að mál þetta myndi öðru vísi við hafa horft, ef eg hefði þegar í byrjun í fjárlaganefndinni viljað hallast að uppást. hans að héraðið tæki hlutdeild í kostnaðinum við brúargerðina. En það er eigi hægt að áfellast mig fyrir þetta, því eg álít þá og það er enn mín skoðun, að landssjóður eigi að kosta þessa brú að öllu leyti, enda þótt við, samþm. minn og eg, höfum vegna knýjandi ástæðna og ósanngirni, sem beitt hefir verið í þessu máli, neyðst til að koma með þessa br.till. Ætla eg svo eigi að fjölyrða meira um þetta atriði, en læt háttv. deild um það að gera við þessa till, það sem henni þóknast.