31.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Ráðherrann (H. H.):

Eg er þakklátur háttv. fjárlaganefnd fyrir að hafa tekið upp með till. sínum greiðslu á 10,400 kr. til hlutafélagsins Völundar til lúkningar ógreiddum kostnaði við hitaleiðslu í safnhúsinu. Það er mjög sanngjarnt, að félagið fái þessa fjárveitingu, sökum þess að fyrirkomulaginu var breytt frá því, sem samið var um í upphafi, og varð miklu haganlegra.

Sömuleiðis er eg þakklátur háttv. fjárlaganefnd fyrir till. um að eftirstöðvar af láni jafnaðarsjóðs Suðuramtsins til brúargerðar á Ölfusá falli niður. Að vísu má segja, að það sé eftir anda eða »analogiu« vegalaganna þegar ákveðið, að lán þetta falli niður á sama hátt og öll lán sýslufélaganna falla á landssjóð. En það fellur ekki beint undir orð vegalaganna vegna þess, að það er jafnaðarsjóður en ekki sýsluvegasjóður, sem hér er skuldunautur. Eg mæli með þeirri breyt.till.

Loks skal eg mæla sem bezt með fjárveitingu til Rangárbrúarinnar. Nú er boðið 5000 kr. till. úr sýslusjóði og sýnir það, hversu brúarinnar er tilfinnanleg þörf. Það er víst ekki ofsögum sagt af því, hvern skaða héraðsmenn bíða af brúarleysinu hvert árið sem líður. Frá landssjóðs hálfu getur ekkert verið til fyrirstöðu að brúin sé bygð strax, og það er í samræmi við þær fyrirætlanir og »plön«, sem verkfræðingur landsins hefir lagt, og stjórn og þing fallist á. Eg vil vona, að háttv. þingd. samþ. till., því að ekki munar landssjóð um þann gróða, sem hann gæti haft í rentusparnaði, við það að bíða með ána 1—2 ár eða ekki, en héraðsbúa munar um þá bið, eins og tillagsframboð þeirra ljóslega sýnir.