05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg verð að játa, að vonir mínar um það, að menn héldu sér við efnið og færu ekki út í aðra miður viðeigandi sálma, hafa ekki ræzt. Sumar síðustu ræðurnar hafa fremur snúist um menn en þetta stórmál, sem hér er til umræðu. Og ekki er það þinglegt orðbragð, að líkja frv. meiri hl. við rauða dulu, sem verið sé að veifa framan í naut. Það verður ekki skilið öðru vísi en að nautið eigi að merkja þjóðina, og er það miður viðeigandi samlíking. Eg mun reyna að láta mér víti háttv. þm. að varnaði verða, og kosta kapps um að halda mér við efnið. Eg gat þess í kvöld, að með skipun millilandanefndarinnar værum við þegar viðurkendir sjálfstæðir samningsaðilar, og því ríður á því, að við gætum þess, að semja engan rétt af okkur. En eg er hræddur um, að eftirkomendur vorir mundu líta svo á, að við hefðum glatað nokkru af þeim rétti, sem við höfum nú, ef við gengjum að frumvarpi nefndarinnar.

Því hefir verið spáð, að kosningavíman í haust mundi skjótt renna af þjóðinni. Eg held, að hér sé ekki um neina vímu að ræða, heldur sjái þjóðin rétt til leiðar sinnar. Það er að vísu satt, að þjóðinni getur yfirsést; og ef svo hefir verið hér, þá er vonandi, að hún leiðrétti það síðar. — Það hefir verið sagt, að þetta mál hafi verið gert að flokksmáli. Það er rangt. Heldur er hitt, að málið sjálft hefir skift flokkum. Það sýnir og skifting flokkanna áður og eftir. Málið skiftir flokkum að nýju; það sýnir verulegleika málsins og afl, að það myndar nýja flokka. Þetta skal sagt til að eyða þeim hraparlega misskilningi, að nokkur maður hafi látið sér til hugar koma að gera svona mál að flokksmáli. Það er of stórt til þess, að nokkrum sé ætlandi að ráða fram úr því öðru vísi en eftir beztu sannfæringu. Að persónulegar hvatir hafi ráðið þar, skal eg ekki ímynda mér, sízt hjá flokkunum í heild sinni. Og að meiri hlutinn hafi beitt frumvarpinu eins og herfjötri til að fella Hannes Hafstein, vil eg leyfa mér að mótmæla í fylsta máta. Að bera öðrum slíkt á brýn er þeirra einna, sem líta á mennina, en ekki málefnin.

Þá skal eg snúa mér að öðru aðalatriði: líkunum fyrir því, að breytingar minni hlutans fái samþykki hins málsaðilans. Því skal eg trúa, þegar eg fæ sannanir; en þangað til hlýt eg að verða mjög efablandinn, hvort eg eigi að trúa því eða ekki. En verði mér sýnt það skjallega, skal eg trúa því. (L. H. B.: Vill þingmaðurinn þá greiða atkvæði með frumvarpi minni hlutans, ef hann sér þetta skjallega?). Það segi eg ekki, að eg greiði því atkvæði mitt samt sem áður; enda segja og sjálfir minni hluta mennirnir, að þessar breytingar séu ekki nema óverulegar orðabreytingar, og hafa gert lítið úr þeim; og hefðu þeir samþykt frumvarpið, þó engar breytingar hefðu verið á því gerðar. En hvað sem því líður, þá er það víst, að þessar breytingar eru lítilsvirði fyrir oss, því að það er skilyrðislaus uppsagnarfrestur á öllum vorum málum, sem vér viljum hafa; og hefir það sýnt sig, að það er almenningsvilji — bæði af umræðum um málið á fundum og undirtektum þjóðarinnar undir það í heild sinni.

Mér hefir verið sagt, og eg heyrði það í neðri deild, að fráfarandi ráðherra mundi hafa fengið ádrátt eða loforð um breytingar á frumvarpinu. Mér dettur ekki í hug að efa orð þess heiðursmanns, er sagði mér þetta; en ef það er rétt, þá tel eg það siðferðislega skyldu hans, að leggja frumvarpið með breytingum fram fyrir þingið, fyrst hann vissi, að þær voru fáanlegar, í þeirri von, að það greiddi fyrir gangi málsins.

Enn er eitt atriði, sem er athugavert. Það er yfirlýsing Neergaards um, að engar efnisbreytingar fáist, eða það sem við meiri hluta menn leggjum áherzlu á. Mér er sama um orðabreytingar; en 1. gr. sá eg að þurfti að gerbreytast, þar sem eg fann hvergi í frumvarpinu, að Ísland yrði sjálfstætt ríki eða jafn rétthátt Danmörku.

Háttv 4. kgk. þm. sagði, að ekki lægi neinn úrskurður fyrir frá þjóðinni, að ekki skyldi ganga að frv. óbreyttu að efni. Eg sagði, að þjóðin í heild sinni væri meiri hlutinn, og meiri hlutinn hefði þar sýnt, að hann vildi ekki ganga að óverulegum orðabreytingum, heldur að eins sætta sig við gagngerðar efnisbreytingar, og á þeirri stefnu byggir meiri hlutinn sína framkomu. — Eg kalla úrskurð, það sem meiri hlutinn dæmir. — Um það, að þingmaðurinn kallaði frv. meiri hlutans »afskræmi«, tala eg ekki. — Hann viðurkendi og, að dönsk blöð hefðu tekið í þann streng eftir kosningar, að ekki væri útlit fyrir, að oss væri ætlað sjálfstæði. Hitt þykir mér aftur býsna kynlegt, sem hann lét í ljósi, að dr. Berlin hefði út lagt úr Ísafold. Eg held Ísafold og hefi lesið bók dr. Berlins. Þetta er fjarstæða. Auk þess kom dr. Berlin fram fyrir hönd dönsku nefndarmannanna, og er það ekki kunnugt, að þeir hafi mótmælt því. Annars legg eg ekki mikið upp úr ummælum dr. Berlins.

Það hefir verið mikið gert úr hervörnunum og þeim rétti, sem vér höfum til þess, að Danir verndi oss. Þá segi eg: Guð hjálpi oss, ef það er dönsk vörn, sem við eigum að lifa og deyja upp á. Mér er ekki kunnugt, að vér höfum nokkru sinni verið varðir af Dönum, fyr né síðar. En hitt kannast eg við, að dönskum vopnum hafi verið snúið gegn oss. Og má tilfæra dæmi þess úr sögu landsins; og skal eg nefna þau tvö: Kópavogsfundinn og aftöku Jóns Arasonar. Segi eg þetta þó ekki til að lasta Dani, heldur er hitt, að eg get ekki stilt mig um að minnast á það, úr því verið er að veifa dönsku vopnunum framan í okkur. 1851 sáust og dönsk vopn; en voru þau til að verja okkur ?

Það hefir verið talað um fánann. Eg lít svo á, að íslenzkur verzlunarfáni sé sérmál, sem við getum sjálfir ráðið, hvernig við höfum. Í stöðulögunum er verzlunin talin íslenzkt sérmál, og undir verzlunina hlýtur fáninn að teljast. Eg álít því, að engum vafa sé undirorpið, að vér séum gjörsamlega sjálfráðir að því, að hafa sérstakan íslenzkan fána á okkar skipum. Hvenær við framfylgjum þeim rétti, því ráðum vér.

Háttv. 4. kgk. þm. lagði mikið út af því, að herþjónusta hefði verið strikuð út á frumvarpi neðri deildar, í 5. gr. frumvarpsins. En það er alveg »formelt« rétt, að herþjónustu-ákvæðið strikist út í sambandi við breytingartillöguna við 3.gr. — Þm. þykir ilt að missa gjörðardóminn. Þar er eg samþykkur þm. Vestur-Ísf. Það getur ekki talist merki upp á það, að vér séum sjálfstætt ríki, að það ríki, sem vér eigum í höggi við, verður í meiri hluta í dómnum um ágreiningsatriðin.

Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að með 7. gr. í frv. neðri deildar væri bönnuð öll »revision«. Það stendur í 7. gr., að með eins árs fyrirvara megi segja upp sambandinu. Þá geta t. d. Íslendingar sagt: »Nú viljum við vera lausir eftir 5, 6 ár«. Danir alt að einu. En aðgætandi er, að þjóðirnar geta vel komið sér saman um »revision«. Þar kemur einmitt til greina bróðurþel og góð samvinna þjóðanna, hvernig fer um það, sem ráð er fyrir gert í 9. gr. stj.frv., sem þó er flókin og óskýr í mínum augum.

Það hefir mikið verið talað um það af minni hlutanum, sem einn af aðalkostum þessa stjórnarfyrirkomulags, að við yrðum þá lausir við ríkisráð Dana. En það merkilegasta er, að þetta stendur þó hvergi í sjálfu frumvarpinu, enda þótt það standi í »mótívunum« fyrir því, og því er einnig slept í stjórnarskrárfrumvarpinu, sem stendur í sambandi við uppkasts-frumvarpið. Eg er því ekki viss um, hvort sú stjórnarfarsnauðsyn, sem Alberti þótti á þessu vera, er úr sögunni eða ekki, og eg hefi heyrt, að varkárir menn hafi ekki viljað segja neitt um þetta.

Háttv. framsögum. minni hl. sagði, að engin þjóð í heimi hefði fullveldi í öllum málum. Ef til vill er þetta rétt í minni hluta skilningi. En þjóðarfullveldi kemur einmitt fram í því, að þótt hún að vísu kunni að vera bundin við ýmsa samninga, þá hafi hún þó sjálf vald yfir öllum sínum málum á þann hátt, að hún geti upp á sitt eindæmi bæði skipað um þau eftir vild sinni og samið um þau við aðra aðila. Þar vilja þjóðirnar hafa leyfi til að semja við aðrar þjóðir án íhlutunar eða leyfis annara.

Þingmaðurinn sagði t. d., að við þyrftum að eiga gott við Spánverja um sölu á saltfiskinum. Það er alveg rétt. En heldur hann, að Spánverjar vilji ekki eins kaupa saltfisk af okkur, þó að Danir séu ekki með »í spilinu«. Og eg sé ekki, að samningarnir þurfi að verða neitt verri fyrir það, þó að við séum ekki Dönum háðir. Fiskurinn okkar er þeim alt að einu óhjákvæmilegur fyrir það.

Framsögumaður minni hlutans tók t. d. fullveldi þýzku ríkjanna til samanburðar, að það væri hvergi ákveðið með lögum, og því væri ekki fremur ástæða fyrir okkur til að vera að »premera« það fyrir okkar leyti. En eg vil spyrja: Stendur ekki nokkuð öðru vísi á hjá þeim, heldur en hjá Íslendingum og Dönum? Þau eru bundin hinum sömu þjóðernis- og ættjarðarböndum, þótt þau séu sundur skift eftir löggjöf. Það er þessi munur, að þjóðin, sem vér höfum átt að búa með, hefir verið gagnólík oss að öllu leyti, bæði hvað snertir menningu, þjóðlíf og ætterni o. s. frv., auk þess sem hún býr í landi, sem er mörg hundruð mílur í burtu frá oss, og einnig að öllu ólíks eðlis voru landi.

Eg skal að síðustu taka það fram, að mér finst í alla staði óviðeigandi, að við séum að ákæra hver annan í þessu máli, hvort heldur er meiri eða minnihlutinn. Vér eigum allir, hver í sínu máli, að fara með málið eftir samvizku okkar; og væri það því bæði fávíslegt og ranglátt, að eyða kröftum vorum og athygli í ákærur hverir á aðra, í stað þess að leitast við að skera sem réttlátast úr málinu. Eg segi fyrir mitt leyti: eg læt mér á sama standa, þótt eg sé settur hér á ákærubekk, og eg held mér að þeim málstað, sem eg hygg sannastan og réttastan eftir sem áður, og læt það ekkert á mig fá. Báðir flokkar hafa hér jafn lítinn rétt til að ákæra. Ef það er nokkur, sem hefir rétt til að ákæra í þessu máli, þá er það þjóðin. Hún hefir leyfi til að ákæra okkur, ef henni finst vér ekki rækja skyldur vorar; og hún getur fylgt ákærunni fram, en ekki vér sjálfir, hvorir gagnvart öðrum, þótt vér höfum mismunandi skoðanir. Þegar vér göngum út frá því, að skoðun okkar byggist á viti, þekkingu og rannsókn hvers eins, í þessu sem öðrum þjóðmálum, þá eigum við að finna skyldu vora í að láta hvern mann ásökunarlausan með sannfæringu sína, sem hann ber ábyrgð á gagnvart sjálfum sér og fósturlandinu.

Það hefir verið talað um kosningaundirbúninginn og sagt, að meiri hlutinn hafi haft leigða menn í þjónustu sinni í sumar til að »agitera«. Það er um þetta að segja, að fyrst og fremst er nú þetta að vísu atriði, sem sízt kom málinu við; en þó það væri satt, þá get eg ekki fundið, að það sé neitt ljótt. Hugsa eg og, að jafnt sé í því efni á komið á báðar hliðar eða hjá báðum flokkum, og víti eg það hvergi. Kosninga-»agitatíónir« viðgangast í hverju einasta þingfrjálsu landi, og sé eg ekki, hvers vegna það ætti að teljast ljótt hjá oss, sem sæmilegt þykir hvarvetna með erlendum þjóðum; og í sjálfu sér lýsir það að eins kappi og áhuga á málstað sínum, að leggja sig fram til að koma honum sem bezt á framfæri almennings. Hvort þeim mönnum eru goldnir peningar, sem fengnir eru til að telja almenningi hughvarf, eða ekki, finst mér litlu skifta; finst mér þar hver sjálfráður, hve miklu hann vill til kosta, að útbreiða þá skoðun, sem hann álítur holla og heppilega fyrir landa sína. Að víta slíkt er óráðsmál, — og alrangt að bregða mönnum um mútur í því sambandi. En jafnvel þótt einhverjar mútur hefðu átt sér stað, þá er það ekki mútuveitandinn, sem saka skal í því sambandi, heldur mútuþiggjandinn. Því sé sannfæring einhvers ekki beisnari en svo, jafnvel í slíku stórmáli og velferðarmáli þjóðarinnar, að hún sé til sölu, þá sé eg ekki að það væri neitt ódæði, að reyna að ná þessu glerbroti sín megin í atkvæðavogarskálina, þótt eitthvert lítilræði kæmi í mót. Það sýnir í heild sinni að eins áhuga á og umönnun fyrir þjóðarheillinni, að leggja sig sem mest fram í slíku máli, hvort heldur krafta sína og tíma eða fé sitt. Er slíkt einmitt miklu síður vítavert en virðingar. En hins vegar, þá hygg eg, að það sé ofmæli ein, að nokkrar mútur hafi átt sér stað í kosningabaráttunni í sumar, þótt aldrei nema allmikill hiti ætti sér stað hjá mörgum. Og hvað sem öðru líður, þá mun það alrangt, að fara að gera upp á milli flokkanna í því efni; þar hygg eg, að þeir hafi átt svipaðan hlut að hvor í sínu lagi, — þótt gifta réði því, að misjöfn yrðu erfiðislaunin um það er lauk.

Það má vel vera, að æsingum hafi verið hleypt í þetta mál, en það hefir þá verið jafnt frá báðum hliðum, svo að í því efni þarf hvorugur flokkurinn að kvarta undan hinum. Hitt er aftur á móti víst, að þjóðin hefir sannfærst betur af rökum og ástæðum vorra manna en minni hlutans. En það er sagan, en ekki vér, sem um það á að dæma, hvor flokkurinn hafi haft réttara fyrir sér. Það má vel vera, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé ófullkomið, en það mun vinnast ærinn tími enn til þess að athuga það nánar, því að það eru ekki líkindi til að það verði að lögum í bráðina. Það getur og verið, að þjóðin breyti skoðun sinni á málinu, og yrði biðin til þess, að vér fengjum það sem vér óskum eftir, þá væri hún bara góð. Eg skal alveg leiða hjá mér allan þann mannjöfnuð, sem hér er verið að fara í; hann er til einskis annars en að hleypa óþarfa kappi og æsingu í mál, sem allir vilja, að ráðið sé fram úr á sem hagfeldastan hátt, án alls tillits til flokka og flokksfylgis. Að lokum vildi eg taka það fram, að eg hefi líklega misskilið háttv. 4. kgk. þm., og bið hann velvirðingar á því, ef eg hefi haft rangt eftir honum.