20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Björn Kristjánsson:

Eins og háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) tók fram, var engin ákvörðun um fjárv. til viðskiftaráðunauta tekin.

Það hefir nú all-lengi verið á dagskrá þjóðarinnar, að þessu máli yrði komið í framkvæmd, og nú þótti oss kominn tími til þess, þar sem árferðið í peningalegu tilliti er ilt og lánstraust landsins ekki í sem beztu lagi.

Eg hefi oft séð það á ferðalögum mínum erlendis, hve ilt það er fyrir innlenda kaupmenn að eiga hvergi slíka menn, bæði vegna vankunnáttu í tungumálum og ýmsra annara orsaka. Það er enginn efi á því, að jafnskjótt og slíkir menn væru orðnir starfinu vanir, mundi árangurinn margborga þau tiltölulega litlu laun, sem þeir eiga að fá.

Þessara manna er að minni hyggju enn meiri þörf, þar sem nú er alkunnugt, að gerðar hafa verið hinar frekustu tilraunir til að spilla lánstrausti íslenzkra kaupmanna erlendis, og jafnvel meira að segja als landsins.

Það er þess vegna að eg kom með þessa litlu breyt.till. Og eg er sannfærður um, að séu þessir menn heppilega valdir, muni þeir geta gert ómetanlegt gagn fyrir land og lýð. Vona eg því, að háttv. deild taki till. þessari vel.