05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Lárus H. Bjarnason):

Eg vona að eg þurfi ekki að tala oftar við þessa umræðu, og helzt ekki oftar um þetta mál á þessu þingi. Eg leiði hjá mér að svara háttv. þm. Strandamanna. Hann er dauður, því að hann hefir þegar talað tvisvar, og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það eitt vil eg segja honum og félaga hans, þm. Ak., að þeir mega sjálfum sér um kenna, hafi þeir fundið til undan orðum mínum. Eg þykist ekki vera vanur að ráðast á fólk að fyrra bragði, en hinu skal eg ekki neita, að eg tek á móti eftir föngum, er á mig er ráðist; hefi alt af gert það, enda þótt meiri burgeisar hafi átt hlut að máli en nefndir þingmenn, og mun alt af gera það. Eg gæti líklega útvegað hinum háttv. þm. Ísafjarðar sannanir fyrir því, að breytingar þær, sem minni hlutinn ræður til að gerðar séu á uppkasti millilandanefndarinnar, eru fáanlegar eða voru að minsta kosti fáanlegar um og eftir áramótin, en þar sem hinn háttv. þm. lýsti því yfir, að það myndi engin áhrif hafa á atkvæði hans, hefir það enga þýðingu, og þess vegna læt eg það líka vera. Það var alveg rétt af fyrverandi ráðherra, að bera ekki fram þessar breytingar, því að hann gat búist við, að það yrði þeim að falli. Ísafold barðist fyrir ritsímanum, þegar dr. Valtýr Guðmundsson flutti málið á þingi, en hamaðist á móti því, þegar fyrv. ráðherra tók það upp. Ísafold sagði að það væri Íslendingum vanvirða, að láta Dani annast landhelgisvörnina hér við land án nokkurs endurgjalds, en þegar þingið eftir tillögum fyrv. ráðherra samþykti, að greiða ríkissjóði Dana ?hluta sektanna fyrir ólöglegar fiskiveiðar í landhelgi, kallaði hún það hreint og beint glapræði. Eg get ómögulega lagt mikið upp úr Neergaards-skýrslunni. Hann hafði enga ástæðu til að bjóða fram breytingar að fyrra bragði, úr því að forsetarnir otuðu strax fram kröfum meiri hlutans. Háttv. framsögum. meiri hlutans gerði lítið úr vernd þeirri, sem vér hefðum af því að vera í sambandi við Dani. En það er ekki rétt að gera svo lítið úr þeirri vernd. Danmörk er gamalt ríki, sem stórveldin ekki þola hvert öðru að sýna ágengni. Hann sagði enn fremur, að engin sönnun væri fyrir því, að mál vor yrðu ekki eftir sem áður borin upp fyrir konung í ríkisráðinu, þótt »uppkastið« yrði að lögum, og gaf jafnframt í skyn, að enginn vissi hver afskifti dönsku ráðherrarnir hefðu haft af málum vorum í ríkisráðinu hingað til. Það lítur helzt út fyrir, að hinn háttv. þm. hafi ekki munað eftir niðurlagi 6. gr. og athugasemdunum við frv., því að í 6. gr. segir svo: »Að öðru leyti ræður hvort landið að fullu öllum sínum málum«, og í athugasemdunum við grein þessa stendur: »En Ísland hefir full og óskert umráð allra mála sinna annara, þar með talinn uppburður mála fyrir konungi og skipun ráðherra«. Annars skal eg geta þess, og það í því skyni, að það verði prentað í Alþingistíðindunum, svo að allir eigi kost á að vita það, að H. Hafstein lýsti því einu sinni yfir í millilandanefndinni að forsætisráðherranum viðstöddum, að alla hans embættistíð hafi danskur ráðherra aldrei skift sér af nokkru íslenzku sérmáli í ríkisráðinu.

Út af orðum háttv. framsögumanns meiri hlutans um samninga af vorri hendi við Spánverja, skal eg að eins endurtaka það, sem eg sagði fyr, að einmitt er til slíkra samninga kemur erum vér stórum betur settir með því að vera í félagi við Dani um utanríkismálin, en ef vér ættum að fara með þau sjálfir. Danir geta boðið Spánverjum tollívilnanir, að því er ýmsan spænskan varning snertir, en vér getum ekkert slíkt boðið, því að vér flytjum ekkert — eða sama sem ekkert — inn af spænskum vörum. — Svo er það »fullveldið«, sem alt veltur á í augum hins háttv. meiri hluta; stærstu ríkin í þýzka sambandinu eru ekki fullvöld, en Íslandi getur ómögulega nægt minna en að »fullveldi« þess sé tekið fram með berum orðum í sambandslögunum, og það enda þó að »fullveldi« sambandslandsins sé ekki nefnt á nafn. Annars væri gaman að heyra einhvern lögspeking meiri hlutans, t.d. háttv. þm. Strandamanna, skýra það, hver væri munurinn á uppáhaldsorði meiri hlutans »fullvalda ríki« og orðum frumvarpsins: »frjálst og sjálfstætt ríki«. Eg skal ekki vekja kappræðu um aðferð þá, er hinn háttv. meiri hluti hefir beitt í máli þessu, en út af orðum háttv. framsögum. vil eg að eins láta þess getið að síðustu, að eg legg ekki mikið upp úr því, þótt þeir, er að eins vildu rífa niður, yrðu ofan á við kosningar. þeir áttu ólíkt hægra aðstöðu; það er hægra að rífa miskunnarlaust niður, en byggja með forsjá.