17.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

3. mál, fjáraukalög 1906 og 1907

Ráðherrann (H. H.):

Þetta frumv. tilheyrir reikningslagafrumv. Að því er snertir upphæðir þær, sem ræðir um í hinum einstöku greinum frumv., þá skal hér skírskotað til athugasemda reikningslagafrumv., og athugasemda endurskoðenda og svarastjórnarráðsins. — Meðal útgjalda þeirra, er hér eru talin, eru nokkur gjöld, er standa í sambandi við konungskomuna, en þó þótti ekki rétt, að færa til endilegra útgjalda í þeim reikningum. Ýmislegt af því, sem til þurfti að kosta við það tækifæri, varð sem sé landinu til frambúðar, og hefði orðið að gerast, hvort sem var. Má þar nefna viðgerð á mentaskólanum, er í raun og veru var bráðnauðsynleg; varð sá kostnaður kr. 17,777.

Þá er og brúargerð á Hvítá hjá Brúarhlöðum og Tungufljóti, er kemur landsmönnum í góðar þarfir, auk þess, sem erlendum ferðamönnum, er ferðast á því svæði, er mikill fararbeini að þessu.

Svo kemur andvirði tveggja húsa, er reist voru á Þingvelli um konungskomuna, enn fremur andvirði fyrir 2 vagna, er fengnir voru til móttöku konungs og föruneytis hans.

Meiri hluti fjárlaganefndarinnar 1907 vildi ekki selja húsin né vagnana langt undir verði, heldur láta landssjóð kaupa hvorttveggja af móttökunefndinni og láta landið eiga það. — Hér er lagt til, að landið kaupi húsin fyrir 15,000 kr., sem raunar er langt undir virkilegu verði, naumast helmingur verðs, af því að flutningskostnaður efnis varð svo dýr. Jafnframt er farið fram á söluheimild fyrir stjórnina, ef þolanleg boð fást. Vagnarnir eru settir með fullu verði.

Gjöld til póstmála hafa farið talsvert fram úr áætlun. En hjá því hefir með engu móti orðið komist. — Hins vegar er það og bót í máli, að tekjuhalli verður ekki á póstferðunum, heldur afgangur af tekjunum, þótt þessi gjöld komi einnig til greiðslu. Afgangurinn mundi samt verða á 9. þús. kr.

Mæli eg svo með frumv. til háttv. þingdeildar.