03.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

4. mál, landsreikningurinn 1906-1907

Framsögumaður (Hálfdan Guðjónsson):

Þrátt fyrir það, þótt nefndin hafi ekki komið með breyt.till., með því að yfirskoðunarmönnum og stjórninni ber hvergi á milli í verulegum atriðum, þá getur svo farið, að hún finni ástæðu til þess að koma með þær síðar, ef umræðurnar gefa tilefni til þess. Hún telur nauðsynlegt að sýslumenn og aðrir gjaldheimtumenn landssjóðs, sem ekki hafa goldið gjöld sín í tæka tíð, séu ámintir af stjórninni og að þeirri áminning sé beint sérstaklega til þeirra, sem drátturinn hefir verið hjá, en sé ekki almenn áminning til allra, því að þá kemur hún minna við þá, sem sérstaklega verðskulda hana.

Þá skal eg minnast á sölu á upptækum afla hjá botnvörpungum. Nefndin álítur engin lög til, að skylda stjórnina til þess að selja aflann við opinbert uppboð, enda gæti slíkt oft verið fremur til skaða en ábata fyrir landssjóð, og lögheimildar í þá átt ekki þörf.

Þá er Arnarstapaumboðið. Það hefir verið vandræðagripur nú upp á síðkastið. Þetta eina umboð hefir sérstöðu hvað jarðarafgjöldin snertir. Það er ekki hægt að ganga strangt eftir, því þá er hætt við að jarðirnar legðust í eyði, og ekki væri hag landssjóðs betur borgið með því. Væri æskilegt að stjórnin og umboðsmaðurinn þar vestra, gætu komið sér niður á eitthvað heppilegt þessu viðvíkjandi, svo að í líkt horf kæmist með innheimtu á tekjum af þessu umboði og öðrum umboðum. Hvað Múlaumboðið snertir, þá verður að gera gangskör að greiðari skilum, þar sem tekjur frá árinu 1907 eru enn ógreiddar í febr. 1909.

Viðvíkjandi byggingarstyrk á þjóðjörðum, skal eg geta þess, að þessi fjárlaganefndarheimild er fallin. Eg finn því ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það.

Þá kemur styrkur til ýmsra vegagerða. Nefndin er samþykk stjórninni um það, að heimilt sé að nota það, sem veitt er á fjárhagstímabilinu að meira leyti fyrra árið, ef nauðsyn krefur. Það verður að þoka þessu til eftir því sem kringumstæður eru.

Viðvíkjandi styrk til læknaskólans, ætla eg að láta þess getið, að ákvæði sem komist hafa á rangan stað á fjárlögunum ollu dálitlum misskilningi.

Viðvíkjandi gagnfræðaskólanum á Akureyri, þá er það að segja, að stjórnin telur sig hafa heimild til, að verja fé til skólans, þótt það sé eigi veitt á fjárlögum, ef hún telur útgjöldin nauðsynleg (samkv. lögum 10. nóv. 1903) og telur sig eigi þurfa að leita aukafjárveitingar fyrir slíkri greiðslu. Þessa skoðun getur nefndin ekki fallist á, og telur sjálfsagt að leita aukafjárveitingar, þegar svo ber undir. — Væri nefndinni þökk á að heyra skoðun háttv. umboðsmanns ráðherra um þetta efni.

Þá er að minnast á útgjöld við Landsbókasafnið. Nefndin lítur svo á, að sparnaður á einum undirlið réttlæti ekki umframgreiðslu á öðrum liðum, telur t. d. ekki heimilt að verja til aukinna bókakaupa því, sem sparast kynni af upphæðinni, sem ætluð er til eldiviðar og ljósa.

Á reikningnum 1907 verður fyrst fyrir til athugunar tekjuliðurinn: »Óvissar tekjur«, undirliðurinn »gjald fyrir auglýsingar«. Er þar ógreitt frá blaðinu »Reykjavík« kr. 305,15, ef reiknað er eftir tímalengdinni, sem blaðið flutti hinar »opinberu auglýsingar«. Það blað sem hrepti það ár-langt, fékk það fyrir rúmar 800 kr., en gaf ekki út auglýsingar nema ¾ hluta ársins. Það hljótum við að álíta sem ógoldna skuld, því við getum ekki tekið tillit til þess, að meira sé um auglýsingar á einum tíma en öðrum af árinu. Það hefir og að sjálfsögðu átt að fylgja auglýsingaréttinum til þessa blaðs sama skilyrði og áður, að fyrir hvern þuml. dálkslengdar væri greidd 1 kr., og meira ekki.

Nefndin leggur því til að þessi upphæð endurborgist.

Þá eru nokkur atriði viðvíkjandi fiskiveiðasjóðnum, er vert er að taka til greina. 17. aths. er viðvíkjandi strandi »Sea-gull«. Það vildi svo slysalega til, að skipið kom á stað, sem það hafði enga heimild til að koma á eftir samningum við vátryggingarfélagið, og leystist þá félagið við tryggingarskyldu sína. Eg get ekki sagt, hve há upphæð muni tapast, því að bú þess manns mun tekið til gjaldþrotaskifta, sem var eigandi skipsins er það strandaði og sem ráðstafaði viðkomu þess í Vestmanneyjum, er leiddi til þess að ábyrgðin féll. Í sambandi við þetta má láta þess getið, að einkennilegt er það og óeðlilegt, að rentur af lánum úr »Fiskiveiðasjóðnum« eru ákveðnar 3% samtímis því að vextir af lánum frá »Ræktunarsjóðnum« eru ákveðnir 4%«, eins og sjá má í reglugerðum sjóða þessara í Stjórnartíðindunum, og mun þó talsverður munur vera á veðgildi fasteigna og skipastóls. Gróði sjávarins er fljót-teknari, en gróði af landbúnaði, en hann er líka miklu stopulli og óábyggilegri, en landbúnaðurinn, sem næstum ávalt má treysta að meira eða minna leyti. Væri því fylsta ástæða til að breyta þessum ákvæðum reglugerða þessara bæði hvað snertir vexti og afborganir. Fer eg svo ekki fleiri orðum um þetta að svo stöddu.