23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

87. mál, vantraust á ráðherra

Flutningsmaður (Skúli Thoroddsen):

Kvað þingsályktun þessa hafa átt að vera óþarfa, þar sem kosninga-ósigurinn 10. sept. síðastl. hefði átt að vera næg bending til að beiðast lausnar, og hefði nýja ráðherranum þá gefist nokkur tími til að búa mál undir alþingi, og starf þess þá orðið veigameira, en nú yrði raun á. — Hann minti á, að ráðherra hefði skýrt fregnrita danska blaðsins »Berlingur« frá þeim ósannindum, að stjórnarandstæðingar væru þrískiftir, og hefði því sízt verið að furða, þó að einhverjir danskir stjórnmálamenn hefðu litið svo á, að rétt væri, að hann hefði eigi beiðst lausnar, þegar eftir kosningarnar. — En þegar ráðherra varð það ljóst í þingbyrjun, að sjálfstæðismenn komu fram sem einn flokkur, hefði þó allur vafi hans að minsta kosti hlotið að vera horfinn. — En ráðherra hefði, í viðtali við flokksstjórn sjálfstæðismanna, gert það að beinu skilyrði, að vantraustsyfirlýsing væri borin fram á þingi, og mætti hann því sjálfum sér um kenna, að ýfð væri upp ýms embættisstarfsemi hans, sem vítaverð hefði þótt.

Aðal-atriðin í þingsályktunartillögunni væru:

I. Að ráðherra hefði lagt alt kapp á, að koma fram »frv. til laga um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands«, ,og í því skyni haldið fundi víða um land til að fá þjóðina, til að aðhyllast frumv., sem mikill meiri hluti hennar telur lögfesta Ísland í danska ríkinu, og að hann þrátt fyrir kosningaósigurinn hafi lagt frv. fyrir þingið, og mæli enn með því, að það verði samþykt óbreytt.

Kvað hann það öllum ljóst, að sá maður, er teldi frv. gott, og segði það eigi að eins Íslendingum, heldur og Dönum, væri manna sízt til þess fallinn, að semja um málið við Dani, og fá þá til þess, að bjóða oss betri kosti.

Ráðherrann legði aðal-áherzluna á, hvað fáanlegt væri, og að því bæri eigi að hafna, í stað þess er mótflokkur hans legði aðal-áherzluna á hitt, að binda eigi hendur eftirkomendanna, girða eigi fyrir það, að Ísland gæti síðar krafist þeirra landsréttinda, er það teldi sér bera, án þess að eiga þau undir náð Dana.

II. Ráðherra hefði og, eftir að kosningarnar 10. sept. síðastl. voru um garð gengnar, og vilji mikils meiri hluta þjóðarinnar augljós, sýnt, að honum væri það engu að síður svo mikið alvörumál, að fá frv. meiri hluta millilandanefndarinnar samþykt á alþingi, að hann hefði ráðið konungi til þess, að útnefna, sem konungkjörna þingmenn, tvo menn (L. H. Bjarnason og Stefán kennara Stefánsson), er þjóðin hafði hafnað við kosningarnar, og væru eindregnir fylgismenn sambandslagafrumv. þess, er meiri hluti þjóðarinnar hefði tjáð sig öndverðan, þar sem einmitt nú hefði verið áríðandi, að fjölga þeim, sem fylgdu meiri hluta þjóðarinnar að máli, svo að vilji þingsins kæmi fram gagnvart Dönum með sem mestum krafti.

III. Væri það tekið fram í þingsályktunartillögunni, að þjóð og þing teldi ýmsar stjórnarathafnir ráðherra vítaverðar. — Orðið »vítaverður« væri notað, sem í daglegu tali, í merkingunni aðfinsluverður, eða ámælisverður, en ekki í fornri merkingu, um hegningarvert athæfi. — Landsyfirréttur notaði og orðið þráfaldlega í forsendum dóma sinna um aðfinsluverða málsmeðferð héraðsdómara, í mótsetningu við sekt, eða aðra hegningu.

Kvað formælandi þingsályktunartillögunnar leitt, að þurfa að fara að rifja upp ýmsar yfirsjónir ráðherra, sem minst hefði verið á »eldhúsdagana« á undanförnum þingum, og hefði verið ákjósanlegast, að vísa ráðherra á þingtíðindin, fyrst honum væri svo ant um, að fá vantraustsyfirlýsingu, að hann afsegði að víkja úr ráðherrasessi að öðrum kosti.

Kvaðst hann þó vilja fara sem styst yfir.

1. Hefði ráðherra þótt of deigur gagnvart útlenda valdinu, og minti hann í því skyni á »undirskriftarmálið«, þar sem ráðherra hefði farið þvert ofan í yfirlýsingu sjálfs sín og skilning, eða skilyrði alþingis. — Sama hefði þótt kenna í ritsímamálinu, og benti hann í því skyni á 20 ára einkarétt norræna fréttaþráðarfélagsins, og á þau ákvæði ritsímasamnings, að innanríkisráðherra Dana hefði einn úrskurðarvaldið, ef ágreiningur yrði um skilning á ákvæðum samningsins. — Enn hefði og framkoma ráðherra verið vítt, er danska nýlendusýningin var á ferðinni, þótt minna væri um það vert.

Í sömu átt þætti það benda, að hann hefði ætlað útlendum mönnum hærri laun, en Íslendingum væri ætlað, t. d. landsímastjóri Forberg látinn fá 5000 kr. árlega, þótt lögákveðin laun embættisins væru að eins 3500 kr., o. fl.

2. Stjórn ráðherra hefði verið flokkstjórn í fylstu merkingu, og heimastjórnarflokkurinn eins konar lífsábyrgðarfélag; þeir væru teljandi þingmennirnir í stjórnarflokknum, ef nokkrir væru, sem eigi hefðu verið lagðaðir að einhverju leyti, og væri það sama reglan, sem kvartað væri um, að Christensens ráðaneytið í Danmörku hefði fylgt, embættaveitingar og sýslana hefðu og yfirleitt verið miðað við flokkinn, símritarar valdir á þann hátt o. fl. (bent á veitingu ýmsra sýslana, þar sem auðsætt þótti, að tillit til flokksins hefði eitt ráðið).

Heimastjórnarflokkurinn hefði og fylgt sömu reglunni, að því er snertir skipun í bankaráð Íslands banka, kosningu endurskoðunarmanna landsreikninga o. fl.

Afleiðingin af þessari óhappastefnu hlyti að einhverju leyti að vera sú, þótt æskilegt væri, að eigi væri farið langt í þá átt, að stjórnarmönnum yrði goldið líku líkt, er stjórnarskifti yrðu. Annars myndi heppilegast, að draga embættisveitingar sem mest úr höndum stjórnarinnar, t. d. skipun sýslumanna og lækna, og að endurskoðunarmenn banka- og landsreikninga væru þrír, og kosnir með hlutfallskosningu.

3. Hefði ráðherra eigi sýnt þá óhlutdrægni og réttlæti í stjórn sinni, sem vera átti. — í þessu skyni minti hann á það, hversu starfsmönnum Íslandsbanka hefði verið bannað að fást við pólitík, nema greiða atkvæði við kosningar, þar sem starfsmönnum Landsbankans væri það á hinn bóginn heimilt, og hefðu notað það ósleitilega; enn fremur minti hann á málaferlin á Snæfellsnesi, þar sem hinum sakfeldu var að lokum synjað leyfis um áfrýjun til hæstaréttar á þeirra eigin kostnað. — Enn fremur minti hann og á það, er ráðherra svifti pólitískan andstæðing sinn (Bjarna frá Vogi) aukakennarasýslan, er alþingi hafði veitt honum o. fl. o. fl, hér að lútandi.

4. Hefðu óskir þjóðarinnar lítt átt upp á pallborðið hjá ráðherra, og minti hann í því efni á þingrofsskoranir, bændafundinn 1. ágúst 1905, Þingvallafundinn 1907 o. fl.

5. Hefði ráðherra hvað eftir annað virt vilja þingsins og fjárveitingarvald þess að vettugi, t. d. engu sint ályktun beggja þingdeilda um vorpróf í hinum almenna mentaskóla; ritsímasamninginn hefði hann gert að alþingi fornspurðu, og þvert ofan í fjárveitingu þess. — Síðasti samningur við sameinaða gufuskipafélagið hefði og verið gerður í heimildarleysi.

6. Hefði ráðherra ausið út krossum og nafnbótum, og gæti það hafa aukið metorða- og hégómagirni ýmsra.

Formælandi benti að lokum á, að það væri í fullu samræmi við almennar þingræðisreglur, að ráðherra viki úr völdum, og vék að því nokkrum orðum, að yfirleitt væri eigi heppilegt, að ráðherrar sætu mjög lengi að völdum, betra, að nýtr kraftar tækju við stjórnartaumunum öðru hvoru.

[Eftir Þjóðviljanum 28. febr. 1909 bls. 33—34].