23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

87. mál, vantraust á ráðherra

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg var satt að segja í vafa um það hvort eg ætti að taka til máls — en það sem sérstaklega kom mér til þess, var það, að sagt var árdegis í dag í þessari deild, að það hefði eingöngu verið sambandsmálið, er skift hafi mönnum í flokka við síðustu kosningar. Satt að segja held eg að flokkaskiftingin eigi sér miklu dýpri rætur. Að mínu áliti á hún rót sína að rekja til gagnstæðra pólitiskra skoðana, liggur við að segja, til gagnstæðra pólitískra lífsskoðana.

Till. sú, sem hér liggur fyrir frá hálfu meiri-hluta-þingflokksins, er áskorun til ráðherrans um að leggja niður völdin og yfirlýsing um það, að þessi meiri-hluta-flokkur vilji ekki eiga samvinnu við hann.

Um það í sjálfu sér er ekkert að segja annað en það, að til slíkrar yfirlýsingar hefir meiri hluti hvers þings fullan rétt. Engum manni í minni hlutanum dettur í hug, eða hefir nokkru sinni dottið í hug, annað en að hver ráðherra taki slíka yfirlýsing sem sjálfsagða ástæðu til að

beiðast lausnar frá starfaum. Enginn mun sá þingmaður vera, í hvorugum flokknum, sem ekki óski að þingræðisreglunni sé fylgt. Sízt af öllu óskar auðvitað núverandi ráðherra þess — hann, sem hefir í konungsboðskapnum til alþingis 1905 útvegað oss svo ljóst fyrirheiti konungs um, að þessari reglu verði fylgt hér á landi. Því að þess skal minst hér í dag, eins og þess mun jafnan síðar minst í sögn þessa lands, að það var Hannes Hafstein — eg tala hér um ráðherrann, en ekki þm., því nefndi eg nafnið — það var hann, sem kom á þingræðisreglunni á Íslandi.

En þó að vér þannig viðurkennum lagalegan rétt meiri hlutans til að gera þessa samþykt og taka á sig ábyrgðina af henni, þá höfum vér hinir líka rétt til, að benda á, hvert gildi ástæður þær hafi, sem meiri hlutinn telur sig byggja þessa till. á.

Þær ástæður vil eg leyfa mér að íhuga nokkuð.

En fyrst vil eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um flokkaskipunina á þessu þingi og benda á, hvað það er í raun og veru, sem hér skiftir flokkum, því að það stendur í nánasta sambandi við þetta mál. Það er þess vert að gera sér það ljóst, því fremur, sem eg er ekki viss um, að það sé allri þjóðinni ljóst — því að líklega má maður ekki efa, að það sé öllum þm. ljóst sjálfum.

Þessi skifting í tvo flokka á þessu þingi stafar einvörðungu af afstöðu manna til sambandslaga-frumv. En hún á aftur rót sína að rekja — eg vil ekki segja til tveggja gagnstæðra lífsskoðana, því að það væri ekki rétt — en eg vil segja: til tveggja gagnólíkra grundvallarskoðana á stjórnmálum, grundvallarskoðana, sem meira og minna, sjálfrátt eða ósjálfrátt, koma fram og hafa komið fram hvarvetna í heiminum.

Aðrir hafa þá skoðun, að ekki þurfi annað en að setjast niður og hugsa út það fyrirkomulag, sem bezt sé í sjálfu sér, sannfæra svo nógu marga aðra um, að svo sé, og lögleiða það, og þá fari alt vel, alt gangi þá af sjálfu sér í ljúfa löð, og stjórnarfarið verði hið ákjósanlegasta.

Hinir segja, að fyrir ekkert komi að reyna slíkt; stjórnarfyrirkomulag hverrar þjóðar vaxi af sjálfu sér smám saman upp af þörfum þjóðarinnar. Engar gerbreytingar sé tiltækilegar, því að engri þjóð geti notast skipulag, sem hún sé ekki vaxin, en hver þjóð sé því að eins vaxin, að smábreyta og smábæta eftir því sem þarfir og atvik knýi til.

Auðvitað hafa báðir rangt fyrir sér, og þó hvorir nokkuð til síns máls.

Að pappírs-gagnið eitt komi ekki að haldi. ef ekki er tekið tillit til þess, hverju þjóðin er vaxin — þess sýnir saga Frakka ljós dæmi.

Og að forlagatrúarmennirnir í stjórnmálum hafi heldur ekki rétt, það er auðsætt af sjálfu sér. Þjóðirnar fæðast ekki með neitt ósjálfrátt stjórnarfyrirkomulag; alt stjórnarfyrirkomulag er mannasetningar, alt árangur mannlegs hyggjuvits og viðleitni.

En að hið bezta stjórnarfyrirkomulag, sem enn hefir reynst í heiminum, þurfi ekki á miklum pappírslögum að halda, það sýnir stjórnarfyrirkomulag Breta.

Þeir eiga ekki enn í dag, og hafa aldrei átt, neina eiginlega stjórnarskrá. Öll þeirra stjórnskipun hvílir á fáeinum lögum, einföldum lögum, sem enga sérstaka aðferð þarf til að breyta; en langmest á venju — venju, sem hefir fest sig í meðvitundinni, unz hún er jafnheilög og stjórnarskrá. En alt

það fyrirkomulag er þó ávöxtur mannlegs hyggjuvits og vilja.

Þessar tvær ólíku skoðanir — pappírsgagns-mannanna og forlaga-mannanna, koma eigi síður fram í skoðun manna á rétti þjóða og einstaklinga. En einnig þar kemur hið sama fram, að hvorugir fylgja fram skoðunum þessum í verki, eins og þeir setja þær fram; það er eins og það lifi í undirmeðvitundinni hjá hvorum um sig, að skoðun sín sé of einstrengingsleg og því röng.

Engin þjóð er í löggjöf sinni svo mikil pappírsgagns-þjóð, að hún viðurkenni ekki að lögum, að í viðskiftum einstaklinganna skapi langvint ástand »rás viðburðanna« rétt, enda þótt sá réttur komi í beina mótsögn við löglegar, skriflegar heimildir.

Þá er um eignarrétt er að ræða, köllum vér þetta »hefð«. Hún hefir um aldir gilt hjá öllum siðuðum þjóðum, nema heimsins mestu pappírs-gagns-þjóð — oss Íslendingum. Hjá oss eru ein 4 ár liðin, síðan vér lögleiddum hana. En nú höfum einnig vér viðurkent, að hefðin skapi rétt.

Vér könnumst nú loks við þetta í viðskiftum einstaklinganna. En hinn virðulegi meiri hluti kannast ekki við það í viðskiftum þjóðanna, hvorki þjóðar og þjóðhöfðingja, né þjóða sín á milli.

Hér er eg þá kominn beint að ágreiningsatriði því, sem tvístrar oss í tvo flokka.

En erum vér þá ekki sammála um neitt?

Jú, um eitt erum vér sammála, allir Íslendingar, og það er um það, að vilja efla sem mest frelsi og sjálfstæði Íslands, en sporna við og afstýra allri innlimun þess í annað ríki.

En hvernig stendur þá á því, að hvor þessara flokka um sig álítur hinn flokkinn innlimunarflokk? því að eigi sæmir að bera brigður á það, að hugur fylgi máli, þegar hvor flokkurinn um sig segir þetta um andstæðinga sína.

Orsökin liggur í þeim gagnólíku grundvallarskoðunum, sem eg áðan nefndi: annars vegar neitun pappírsgagns-mannanna á því, að hefð skapi rétt, en hins vegar viðurkenning hinna á því, að hefð skapi að minsta kosti »faktiskt« réttarástand — staðreyndar-rétt.

En eins og eg vék að áðan, þá er þó í verkinu hvorugri þessari skoðun fram fylgt sjálfri sér samkvæmt.

Eg skal taka höfuð-átrúnaðargoð pappírsgagns-mannanna, minn mikilsvirta vin 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og hans guðspjall, til dæmis og sönnunar orðum mínum.

Kennir hann ekki á IV. bls. formálans í þeirri nafnkunnu bók »Ríkisréttindi Íslands« á þá leið, að allar þær breytingar, sem orðið hafi á stjórnarfari voru síðan einveldið komst á og alt til vorra daga, sé lagalega skoðað hrein markleysa og hafi engin áhrif á ríkisréttindi landsins og réttarstöðu.

Samkvæmt þessu er það þá tóm markleysa, er Friðrik konungur VIII. skuli þykjast vera hér konungur. Vér Íslendingar höfum aldrei lögtekið þá konungsætt þeirra Glücksborgaranna.

Alt um það er ekki nema 9 dagar síðan eg horfði á 1. þm. Rvk. rita undir eiðstaf að stjórnarskránni, sem að hans skoðun hlýtur að vera ein markleysan, þar sem hún er gefin af Chr. IX. og bygð á L. 2. jan. 1871; alt er þetta ómark að doktors-dómi réttum, en samt lifir hann eftir þessari markleysu, situr hér á löggjafarþingi og er drottinhollur þegn Friðriks konungs VIII.

Samkvæmni er þetta ekki. En það er ósjálfráð viðurkenning þess, að »rás viðburðanna« hefir skapað réttarástand, ríkisréttarstöðu, sem sterkari er öllum kenningum hins virðulega kenniföður, svo sterk, að hann beygir bak fyrir henni í lífinu, í verkinu, í framkvæmdum sínum.

Og allir vitum vér það og játum — allir undantekningarlaust — að breyting á því faktiska ástandi sem er, getum vér ekki gert á vort eindæmi; til þess þurfi samþykki annars málsaðila; háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) segir samþykki konungs eins, en hann mun vera eini maðurinn, sem hyggur konung geta tekið frá hinni þjóðinni, sem hann stýrir, þann rétt til að fara með sameigin mál, sem henni er áskilinn í stöðulögunum og viðurkendur af oss í stjórnarskrá vorri (1. og 2. málslið 1. gr.)

Hins vegar erum vér náttúruréttarmennirnir, ef eg má nefna oss svo. — Vér erum ekki svo samkvæmir sjálfum oss, að vér viljum bíða þess, að faktíska réttarástandið breytist sjálfkrafa. Vér viljum fara samningaleiðina, til að losa af Íslandi erlend bönd.

Nú — og alt síðan einveldið komst hér á — er Ísland í framkvæmdinni innlimað alríkinu danska. Og þær taugar, sem halda innlimuðu landi við það land, sem það er innlimað, þær eru svo margþættar og margar, að enginn spekingur, því síður neinn vor þingmanna, getur talið þær allar upp, svo fulltalið sé.

1874 var með stjórnarskránni (á grundvelli stöðulaganna) höggvið á 9 af þessum taugum, eða öllu heldur á 8½. Vér fengum full yfirráð handa sjálfum oss í 9 tegundum mála — sérmálunum. En dómsvaldið fengum vér þó ekki fult, og því tel eg ekki nema hálfan-níunda streng höggvinn enn þeirra tengsla, er binda oss við annað þjóðfélag.

Nú býðst oss í sambandslagafrumv. kostur á, að gera Ísland að sérstöku, sjálfstæðu ríki í sambandi við Danmörk, sambandi, sem að eins hangir á tveim einum taugum, auk þjóðhöfðingjans: hermálum og utanríkismálum (og eigum vér þó þátt í þeirri taug). Allar hinar taugarnar getum vér nú höggvið algerlega í sundur, sumar þegar í stað og hinar eftir tiltölulega litla áratölu.

Þetta segjum vér sé að aflima en ekki innlima landið.

Vér, sem viljum höggva öll þau tengsl, er vopn bíta á, vér erum þess sannfærðir, að vér séum þeir sönnu sjálfstæðismenn, sönnu frelsismenn. Fyrir vorum augum eru vorir heiðruðu andstæðingar, hinn núverandi meiri hluti, mennirnir, sem vilja ekki breyta í neinu núverandi ástandi, en halda oss föstum í þeirri innlimun, sem vér erum í — í vorum augum eru þeir, meiri hlutinn, hinir sönnu innlimunarmenn, hinn eini og sanni innlimunarflokkur.

Þessi er skoðana-munurinn.

Eg býst ekki við þrátt fyrir það þó eg tali þessi orð, að eg muni hafa áhrif á atkv. nokkurs manns. Eg ætlaði upphaflega ekki að fara út í einstök atriði. En h. þm. Barð. (B. J.) mintist á, hvernig okkur hefði áunnist að fá stjórnina inn í landið. Hverjum var það að þakka? Var það hann sem fékk komið til leiðar slíku afreksverki? Nei, einmitt þeim manninum, sem enn situr í ráðherrasætinu, eigum við það að þakka, því megum við ekki gleyma við brottför hans. Hefir nokkur annar barist betur fyrir þingræði voru, en hr. H. Hafstein? Enginn maður.

Um alt ritsímahjalið skal eg vera fáorður. Heimildin lá fyrir í mörg ár frá meiri hluta þingsins, á fjárl.

Andstæðingar þess máls á þinginu 1905 lögðu sig í framkróka með að eyðileggja þetta stórnytsama fyrirtæki með undirskriftum, sem þó voru misjafnlega fengnar, sumar falsaðar og als og als þó að eins frá litlum minni hluta kjósenda, (Jón Þorkelsson: Úr hvaða kjördæmum voru falsanirnar?) Úr Húnavatnssýslu, og skjalinu með falsnöfnunum var rétt á eftir stolið úr lestrarsal alþingis. Eg skal ekki fara langt út í það mál; þótt öll nöfnin hefðu verið vel fengin, þá voru þau að eins lítið brot af kjósendum. Fáir menn hygg eg að nú mundi vera á móti ritsímanum. Eg held ekki að menn vildu fá þessa peninga til baka.

Það hefir verið marg sagt hér í deildinni, að hann hafi sýnt hlutdrægni í embætta- og sýslanaveitingum. En eg veit, að til eru menn, sem einmitt hafa lagt honum til ámælis, að hann hefði sett sína menn hjá að ástæðulausu.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) tók sem dæmi embættisveitingu, sem ráðh. hefir enga meðgerð með, hefir líklega ekki munað betur, þangað til sessunautur hans hvíslaði því að honum,

Munurinn er ekki lítill. Annar flokkurinn gerir alt sitt til að ata mannorð fjarverandi manns, en hinn alt sem í hans valdi stendur til að halda hlífiskildi yfir andstæðing, sem hér hefir líka verið minst á í dag. — Yfir höfuð hefir þessi stjórn verið óhlutdræg. Í hennar tíð hafa t. d. starfsmenn þingsins verið af öllum flokkum, en nú eru þau störf nær eingöngu fengin í hendur skjólstæðingum, smölum og skósveinum meiri hlutans.

Háttv. meiri hluti virðist kinnoka sér við að láta till. þessa koma fram í Ed., þeim hefir þótt heppilegra að taka hana aftur, til þess að binda fyrir munninn á minni hluta mönnum þar í deildinni.

Ástæðan til þess að þing var rofið og kosningar látnar fram fara nú þegar um sambandsmálið, og það tekið fyrir á þessu þingi, í stað þess að láta hið gamla þing koma saman í vetur og kjósa ekki fyr en næsta haust, var sú, að frumv. gæti orðið rætt af nýkosnu þingi samtímis og í ríkisþingi Dana, til þess að hægt væri að koma sér saman um breytingar þær, er fáanlegar kynnu að vera. Svo það er með öllu ranghermi, að ráðherrann eða hans flokkur hafi aftekið það að nokkrar breytingar væru tiltækilegar. Þessu lýsti ráðherrann og fleiri oft á fundum; en hitt er satt, að vér réðum til, að frumv. væri heldur samþ. óbreytt en að það yrði felt. Vér þm. Sunnmýlinga t. d. sögðum kjósendum vorum, að vér værum fúsir að leita breyt. og ef á þyrfti að halda, senda nefnd manna um þingtímann til Hafnar til að leita samkomulags.

Eitt atriði var í ræðu háttv. þm. Barð. (B. J.) sem eg vildi undirstryka; hann sagðist vona, að þetta væri seinasta árið, sem kgk. þm. yrðu útnefndir. Eg tek það sem yfirlýsingu af hendi hans flokks um það, að þeir ætli þá að samþ. á þessu þingi stjórnskrárbreyting í þessa átt. Eg vona þeir minnist þessa síðar.

Virðulegur 2. þm. Árn. (S. S.) talaði nokkuð um konungskomuna og þann kostnað, er af henni hefði leitt. En það var með samþ. allra þm. af báðum flokkum, og nefndin, sem stóð fyrir þeim kostnaði, var skipuð mönnum úr báðum flokkum, svo að þar er ekki um flokksmál að ræða. Báðir flokkar hafa samþ. það. (Sigurður Sigurðsson: Ekki samþ.) Jú, fulltrúar (nefndarmenn) beggja flokka. Eg veit að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) var í móttökunefndinni og þykist eg vita að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) muni ekki kasta á hann þungum steini fyrir eyðsluna. Hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), talaði um orður og titla og spillingu þá, sem af slíku leiddi, bæði fyrir þjóðina alment, og eins þá er þessi heiðursmerki þæðu. En þm. hefir víst talað þetta frá almennu heimspekilegu sjónarmiði, en ekki af lífsreynslu sjálfs sín, því að eg sá hann tildra djásninu á sig svo fljótt sem hann fékk það, og eg vona hann finni sig alveg óspiltan af krossinum enn.