23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

87. mál, vantraust á ráðherra

Magnús Blöndahl:

Það eru einkum tvö atriði, sem sögð hafa verið af háttv. mótflokk í dag, sem eg get ekki látið ómótmælt. Í fyrsta lagi það sem hv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, er hann var að tala um þá »hræðu« er setjast mundi í ráðherrasessinn, og að núverandi ráðherra væri sá eini, sem fær væri um að skipa þetta sæti. — Það skal fyllilega viðurkent, að hæstv. ráðh., sem nú er, er mjög vel gefinn maður; en það er líka vitanlegt að honum hefir ekki tekist að leiða svo mál þjóðarinnar yfirleitt, að menn hafi verið ánægðir með það. — En að það nái nokkurri átt að segja annað eins og það, að meiri hlutinn muni setja einhverja »hræðu« í þennan sess, er svo mikil óskammfeilni, að það er fyllilega vítavert og á að vítast, Hv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) gat þess ennfremur, að tjón það, sem landið biði við það að hæstv. ráðh. færi frá völdum, mundi ekki verða betra en »svarti dauði«. Að þessi háttv. þm. sem talað hefir um að þm. úr meiri hlutanum hafi brúkað óþingleg orð, skuli þá sjálfum verða á hið sama fæ eg alls ekki skilið, finst að svona löguð orð ættu ekki að heyrast frá nokkrum manni innan þessara veggja. Í öðru lagi vildi eg minnast á það, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), var að fjargviðrast út af, að veitst væri að mönnum, sem ekki væru hér viðstaddir og gætu því ekki borið hönd fyrir höfuð sér. En hvað gerir svo hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sjálfur? Hann veitist að starfsmönnum þingsins, kallar þá smala og skósveina flokksins, vitandi það, að þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi framkoma hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.), er þeim mun einkennilegri, þar sem hann sjálfur hefir tekið það fram, að framkoma hans sé »þinglegri« en annara. Sami háttv. þm. gat þess, að sambandslagafrumv. mundi frekar »aflima« okkur frá Dönum, heldur en innlima. Eg skal ekki svara því í þetta sinn, mun gefast tækifæri til þess síðar, er það mál kemur til umr. hér í deildinni. Háttv. 2 þm. Rangv. (E. J.) hefði hæglega getað sparað sér hina löngu ræðu sína, því á henni var ekkert að græða annað en það, að nú hefði hann (2. þm. Rangv.) litið yfir allar gerðir stjórnarinnar og séð þær vera harla góðar.

Það er óneitanlega dálítið væmið að heyra menn bera jafnmikið hól og hér hefir verið borið á hæstv. ráðh. af hans flokksmönnum, því eftir ræðum minni hluta manna hér í deildinni í dag ætti þá okkar kæra fósturjörð að standa og falla með þessum eina manni, og sjá allir hvílík fjarstæða slíkt er. Eg get ekki stilt mig um að segja það, að eg álít að það sé mönnum ósamboðið að brúka slíkt staðlaust smjaður og hér hefir verið gert í dag af flokksmönnum stjórnarinnar.

H. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) var að tala um það, að ef hlutfallskosning hefði verið, þá hefði meiri hlutinn með þeim kgk. orðið í meiri hluta á þinginu. Eg vil spyrja háttv. þm. að því: Hvað koma kgk. þm. kosningunum við? Ekki kýs þjóðin þá. Sami háttv. þm. sagði, að þingið væri nú að vinna »óhappaverk«; það er mál, sem ekki kemur undir hans dóm, enda getur hann ekki rökstutt þennan sleggjudóm sinn á neinn hátt. Þótt háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) þyki nú vera frekar sókn en vörn af hendi minni hluta, þá sannfæra slík órökstudd orð ekki menn og hafa því ekkert gildi. Hann sagði enn fremur, að hæstv. ráðh. hefði leitt hér inn þingræðið, en um það eru eflaust deildar skoðanir, enn sem komið er.