23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

87. mál, vantraust á ráðherra

Flutningsmaður (Sk. Th.):

Umræður um þetta mál eru orðnar alt of langar, enda hafa mörg óþörf orð verið töluð, og mikið af órökstuddum ummælum heyrst.

Eg vil að eins geta þess út af téðum ummælum, að þær sakir, sem stjórnarandstæðingar í dag hafa borið á hæstv. ráðherra (H. H.), af því að hann hefir sjálfur neytt þá til þess, hafa áður heyrst, bæði hér á þinginu og í blöðum stjórnarandstæðinga, þótt hinn hæstv. ráðherra og hans flokkur hafi ávalt skotið við þeim skolleyrunum.

Stjórnarflokkurinn hefir yfirleitt sýnt algert skilnings- og tilfinningaleysi að því er til þess kemur, hvernig hæstv. ráðherra (H. H.) hefir hagað veitingum embætta og sýslana, og að því er breytni hans í garð mótflokksins yfirleitt snertir. Það er ekki við því að búast, að skilningur og tilfinninganæmi þess flokks sé meiri nú en að undanförnu.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) fann að því, að þingsályktunartillagan væri ekki

þinglega orðuð. En til þessa er því að svara, að vér tillögumenn urðum að ráða því, hvernig vér teljum heppilegast að orða hana, og skiptir alls engu, hvað þeir segja, hann eða hans flokksmenn, heldur einungis um það sem vér álítum rétt, enda hefðum vér tillögumenn óefað aldrei fundið það orðalag, sem háttv. minni hluta hefði geðjast að.

Að öðru leyti skal eg, út af ummælum þingmannsins láta þess getið, að þeir menn, sem nú fylla meiri hluta voru boðnir fram í samráði við stjórn flokksins, og því sem andstæðingar sambandslaga-»uppkastsins«.

Ekki þykir mér mikið þurfa til að fullnægja háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) er hann tók gilda skýrslu þá, er hæstv. ráðherra (H. H.) hefir tekið eftir einu stjórnarblaðinu, að því er til atkvæðamagns hvors flokksins við kosningarnar 10. sept. síðastl. kemur. En öllum hlýtur að vera ljóst, að skýrslan er gersamlega röng, þar sem t. d. er slept heilu kjördæmi, Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem varla munu hafa verið meira en 4—5 kjósendur, er vildu líta við uppkastinu óbreyttu.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) fáraðist mjög yfir orðinu »vítaverður«. En skýringu á því orði gaf eg í dag í fyrri ræðu minni, og í því felst einmitt sú hugsun, sem vér vildum fá fram; og þar sem það er víst, að ráðstafanir stjórnarinnar hafa verið vítaverðar í ýmsum greinum, þá erum vér heldur ekki þeir hræsnarar, að fara í felur með það, sem oss býr í brjósti.

Háttv. sama þm. (E. P.) þótti það ganga guðlasti næst, að segja að stjórnarfrumvörpin, sem nú hafa verið lögð fyrir þingið, væru veigalítil. En að því er til þeirra tveggja stjórnarfrumvarpa kemur, sem þýðingarmest eru, þá er að geta þess, að stjórnarskrárbreytingin er samtvinnuð sambandslagafrumvarpinu, og því engin von þess, að henni fáist framgengt. Nauðsyn er og að vísu á því að fá háskóla, en spurningin er, hvort hún er svo knýjandi, að rétt sé að haka landssjóði þau útgjöld, er af háskóla stafa, eins og sakir standa nú, hvað fjárhaginn snertir.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) þótti eg fara með rangt mál, er eg taldi að hæstv. ráðherra (H. H.) hefði skipað stjórnarráðið sínum flokksmönnum; en þessu verður þó eigi mótmælt, þó að als einn þeirra manna, er hann vildi þar hafa, hefði fylgt mótflokki hans að kosningum.

Annars tel eg alveg óþarft, að fara nú að telja upp einstök dæmi, til að sanna það, sem alkunnugt er, að hann sem ráðherra hefir hagað sér að eins eða þá mestmegnis, sem flokksstjóri. Þó skal eg geta þess, að Guðm. Finnbogason var sjálfkjörinn mentamálaráðunautur hér á landi, hafði notið styrks af almannafé til að kynna sér alþýðumentun, og stjórnin hafði haft hann til ráðuneytis; en eftir ræðuna á bændafundinum í Reykjavík 1905 var Jón Þórarinsson settur í þá stöðu, þrátt fyrir það, þótt Guðm. Finnbogason hefði öll skilyrði fram yfir nefndan skólastjóra.

Hvernig hæstv. ráðherra (H. H.) fórst við þann mann (Indr. Einarsson), er hina umboðslegu endurskoðun landsreikninganna hafði haft á hendi langa lengi, þarf ekki að minna á, og það var að eins vegna óánægjunnar, sem sú ráðstöfun hans vakti, að hann tók það ráð, að búa til sérstakt embætti í stjórnarráðinu, án heimildar af hálfu fjárveitingarvaldsins. En eg álít þýðingarlaust að fara lengra út í þetta mál, jafnoft sem á það hefir verið minst á þingi og í blöðunum.

Hæstv. ráðh. (H. H.) hélt langa lofræðu um sjálfan sig. Engum fer vel að skjalla sjálfan sig. En eftir hans eigin orðum skyldi maður ætla, að aldrei hafi fyr á þessari jörð verið eins tárhreinn og grandvar ráðherra, sem hann.

Ekki skil eg, að nokkrum geti blandast hugur um, hve ómannúðlegt það var, er hæstv. ráðherra varð þess valdandi, að hreppsnefndarmönnunum í Neshreppi utan Ennis var meinað, að skjóta máli sínu til hæstaréttar, á eigin kostnað. En því máli var reyndar þannig háttað, að bezt var fyrir stjórnina, að fá það útkljáð, sem fyrst. Hvort það hefir verið bezt fyrir hina ofsóttu, er öðru máli að gegna.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, að ráðherrann hefði jafnvel hlotið ámæli flokks síns fyrir það, að hafa stundum gengið fram hjá flokksbræðrum sínum við embættaveitingar; en sé svo, bendir það á, hve heimtufrekjan hjá flokksbræðrum hans hefir keyrt úr hófi, hafi þeir næstum volað yfir hverjum bitanum, er atvikanna vegna ekki gat lent í þeirra munni.

Af ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.) sá eg, að hann hefir ekki fengið að sjá skjöl þau, er lutu að kærum á hendur honum. Framkoma hæstv. ráðherra í því máli, hlaut þó að stinga enn þá meira í stúf, en ella, þar sem það var þjóðkunnugt, að í hlut átti all-ákafur mótstöðumaður hans í pólitískum skoðunum.

Eg held það sé hvorki ómaksins vert, né heldur gustuk, að svara háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.), enda hefir honum, þegar verið svarað. Ræða hans var aðallega rakalaus sleggjudómur, og fyrir slíka ræðu er ekki mikið gefandi, og bezt að þær heyrðust sem sjaldnast. Honum fórust, meðal annars, orð í þá átt, að meiri hlutinn þyrði ekki að standa við orðið »vítaverður«; en það er ósatt, og hefir verið marg-skýrt, hvað meint er með því.

Sami þingm. sagði enn fremur mörg lofleg orð um ráðherrann, út af afskiftum hans af ritsímamálinu, og gat þess, hve síminn væri þarfur. En um það stóð ekki deilan, hvort æskilegt væri að fá hraðskeytasamband eður eigi, heldur um hitt, hvort loftskeytaaðferðin væri ekki heppilegri og kostnaðarminni til frambúðar, eins og ýmsum og þótti, sem dönsk áhrif hefðu mátt sín of mikils, er ráðherrann gerði ritsímasamninginn að alþingi fornspurðu, og gagnstætt fjárveitingum þess í fjárlögum þeim, er þá giltu.

Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) sagði, að ráðherrann hefði tekið upp stefnuskrá þjóðræðismanna í sambandsmálinu; þetta er satt að vísu, en hann féll frá henni í Kaupmannahöfn meðan á samninga-umleitaninni stóð, og fór þar svipað, sem háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.), sem þó segist ganga með umboðsskjal frá sínum gömlu flokksmönnum í vasanum.

Framkoma ráðh. í sambandsmálinu, þótti honum svo lofleg, að hann kvaðst geta dáðst að henni, og taldi hann hana bæta fyrir allar hans yfirsjónir. En með því, að þm. hefir haft nefnt umboðsskjal svo lengi í vasanum, er leiðinlegt, að hann skuli ekki enn þá hafa kynt sér, hvað í því stendur.

Þar sem ráðgjafinn var að minnast á æva-gamla grein í blaði mínu »Þjóðviljanum«, þar sem farið var einhverjum orðum í þá átt, að minni hluta menn, sem þá voru, ætti ekki einu sinni að kjósa í hreppsnefnd, þá var hún rituð, sem gremjugrein, út af því, hversu þáverandi valdhafar létu sína

skoðanabræður sitja í fyrirrúmi, er til þeirra kom, að nefna menn til opinberra starfa, og var því að eins upphvatning til réttmætrar »retorsíonar«, þ. e. upphvatning til þess, að gjalda þá líku líkt. En þetta er alt annað, en það, að gera það, sem greinin í »Þjóðv.« einmitt vítir á þennan óbeina hátt, að meginreglu við veitingu opinberra embætta og sýslana, eins og ráðherra hefir gert.

Hæstv. ráðh. óskaði þess, að sjálfstæðismálinu þokaði betur áfram hjá andstæðingum hans, en hjá honum. Það er gott að heyra þær hugheilu óskir, en ekki gott að spá neinu um það í svip. Horfur alls ekki álitlegar, enda þeim það í bráðina aðal-atriðið, að vilja ekki fara aftur á bak, eins og gert er með frumvarpinu, — og reyna að glæða skilning Dana á málum vorum í von um sigur síðar.