19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Jón Þorkelsson:

Eg skal ekki að svo komnu fara mikið út í einstök atriði þessa máls, en snúa mér heldur að því, hvernig Uppkast þetta er orðið til og undir komið. Menn hafa að mínu áliti með atferli þessa máls farið götuvilt.

Þegar Ísland gekk undir Noregskonung, samdi það við konung einn, en engan annan. Það gaf sig ekki undir Norðmenn, heldur Norðmannakonung.

Þau réttindi sem landið tók með sáttmálanum hinum forna, hefir það aldrei afsalað sér til annarar þjóðar.

Þegar landsmenn gengu undir einveldið í Kópavogi 1662, fengu þeir ekki Dönum í hendur réttindi sín til meðferðar, heldur léðu þeir þau konungi Dana og Norðmanna.

Landið hafði verið frá því er það bygðist, og þjóðfélagsskipun komst hér á, sjálfstætt og fullvalda ríki. Á þessu varð engin breyting gerð með Gamla Sáttmála. Landið var sjálfstætt ríki eftir sem áður. Og þeim rétti hefir það aldrei afsalað sér. Og ekki heldur í Kópavogi, heldur léði það þá konungi einvaldsstjórn mála sinna svo sem hin konungsríkin, Danmörk og Noregur.

Landið hefir aldrei fengið öðrum en konungi neitt vald yfir sínum málum og á því að réttu lagi við engan um heimting á ráðum yfir málefnum sínum nema konung.

Þessu hefir og lengi verið haldið fram af Íslendingum. En aldrei hefir það komið kröftuglegar fram en 1871, þegar ríkisþingið danska gaf út með ofríki lögin um stöðu Íslands í ríkinu, án þess að Íslendingar væru um spurðir eða fengi nokkru um það ráðið, því strax á alþingi um sumarið lýstu Íslendingar yfir því, að Danir hefði ekkert átt með slíkt löggjafarverk og mótmæltu lögum þessum. En á síðasta áratug 19. aldar tók að brydda á því, þegar seint þótti sækjast lagfæring og endurbót á stjórnarskránni, að menn fóru að hreyfa því, að nefnd væri skipuð úr báðum þessum þjóðlöndum, til þess að koma sér niður á sambandið milli landanna.

Háværar raddir tóku síðar að heyrast um þetta í stöku blaði, og í þingmannaförinni til Danmerkur 1906 gerðist það undirtal, að til slíkrar nefndar skyldi stofnað verða, og varð það að verki 1907.

Á þennan hátt er frumv. þetta undir komið, og er nú lagt bæði fyrir ríkisþing Dana og Alþ. Íslendinga.

Íslendingar hafa hér hleypt sér út á þá stigu, sem eru glapstigir og villigötur. Íslendingar hafa aldrei átt við ríkisþing Dana neitt að semja um samband landanna. Það eina í þessu máli, sem gat verið samningsatriði við ríkisþingið, var um það, er snerti fjárgreiðslur af Dana hendi.

En þó að Uppkast þetta sé nú fram komið á þennan hátt, og máli þessu komið í svo öfugt horf, sem nú hefi eg talið, sé eg þó ekki að svo gervu, að ekki megi setja nefnd í málið því til athugunar.

Mál þetta hefir nú verið þaulrætt hér á landi um hríð, og skal eg því ekki fara mikið út í einstök atriði þess, enda mun þess enn verða kostur, þótt síðar sé.

Þó vil eg geta þess, að eftir þessu frumv. verður ekki séð að landinu sé ætlað að verða ríki og því síður fullvalda ríki. Orðið ríki kemur hvergi fyrir í öllu Uppkastinu. Þar er einungis sagt, að það skuli vera »land«, sem að vísu getur þýtt í vissum samböndum nokkurn veginn sama og ríki, en í þessu sambandi þarf engin slík merking í því að liggja. Hér lá einmitt á, að orðið ríki stæði, ef landinu var í raun og veru ætlað að vera ríki.

Sá einn staður í aths. við frumv., þar sem helzt kynni að vera að því vikið, að ríki væri nefnt á nafn, er einnig svo lagaður, að á honum er ekkert að byggja. Þar er aðeins sagt, að Ísland verði eftir þessu frumv. nokkurs konar »særlig Stat«.

Orðið Stat getur að vísu þýtt ríki. En það getur líka þýtt fylki í öðru ríki, sem ekki hafi neitt sjálfstæði annað en stjórn nokkurra mála sinna.

Orðið Medvirkning í 2. lið 3. gr. þarf að mínu viti öldungis ekki að þýða samþykki, eins og ráðh. vill láta það þýða. Það þarf blátt áfram ekki að þýða annað en »meðverknað« eða tilstyrk. En tilstyrk verða menn stundum að veita nauðugir og ósamþykkir, þar sem við þann er að eiga, sem öflugri er.

Skipun gerðarmannanna í 8. gr., þar sem ætlast er til að oddamaður sé dómsforseti hæstaréttar Dana, ber óneitanlega einhvern keim af ákvæðum þeim, sem stóðu í hinu alræmda frv. Danastjórnar til stjórnskipulaga fyrir Ísland, sem lagt var fyrir þjóðfundinn 1851.

Þar stóð klausan sú: Ef alþingi og ríkisþingið danska greindi á um það, hver mál heyrði undir Alþ., þá skyldi ríkisþing Dana úr skera.

Löggjafarvald það, er Íslendingar (Alþingi) höfðu alt fram til 1662 var miklu rífara en það, sem vér nú höfum og enn er oss ætlað með Uppkastinu. Á árunum 1850—1851 kemur það og ljóst fram í fullnaðargerðum víðsvegar í héruðum landsins, að mönnum var þá þegar ljóst um þetta efni. Einna berast er þetta þó í fundargerð úr Skagafjarðarsýslu, sem virðist vera stílsett af Lárusi sýslumanni Thorarsen í Enni. Má helzt kalla að þetta löggjafarvald hins forna Alþ. hafi samsvarað því, sem menn kalla nú á dögum frestandi synjunarvald. Í lögbók vorri (Jónsbók) segir svo: Ef lögréttumenn verða ekki á eitt sáttir um nokkurt mál, þá er það lög, sem þingið samþykkir. Það vantar mikið á að þingið hafi eða eigi að fá þennan rétt í »praxis«, en vér eigum hann samt sem áður, því að vér höfum aldrei afsalað oss honum.

Víða er frv. þetta óhafandi óheilt og tvírætt, enda er það eftirtektavert, að athuga það, hvernig því hefir verið tekið. Stjórnin hafði áður fjölmennan flokk, mikinn meiri hluta þjóðarinnar með sér, en þegar frv. kemur, rís þjóðin svo eindregið á móti, að slíks eru ekki dæmi til fyrr hér á landi. Sá fjölmenni flokkur er nú orðinn að miklum minni hluta. Og alstaðar hafa Íslendingar tekið frumv. á sama hátt, hvar sem þeir eru jarðarinnar. Frá Vesturheimi hafa oss borist einbeittar áskoranir um að hafna því. Hafa Vestur-Íslendingar í því sýnt, að þjóðrækni þeirra og þjóðernistilfinning er vakandi, og að þeir geta ekki orða bundist, þegar þeir halda að hætta sé búin frændum þeirra austan hafs og íslenzkum kynstofni, — enda er það alkunnugt, að menn muna fult svo glögt til ættjarðarinnar úr langdvöl í öðru landi sem við heimagættirnar.

Eg skal ekki leggja harðan dóm á aðgerðir íslenzku nefndarmannanna í milliríkjanefndinni. En sárt þykir mér að sjá það, að ekki er annað að merkja en að taflinu sé nú svo snúið við, að þekkingin sé orðin Dana megin á þessu máli, en vanþekkingin Íslendinga megin. Hvað hörðum höndum Íslendingar hafi unnið í nefndinni, læt eg ósagt. En borist hefir mér til eyrna sú saga, að dr. Knud Berlin hafi skorað á einn af íslenzku nefndarmönnunum — og það einn af þeim, sem ekki er hvað minstur fyrir sér, að minsta kosti að hans eigin áliti — að svara hinni síðari ritgerð sinni, er fylgir gerðum nefndarinnar. Hafi þá maður þessi afsakað sig með því, að hann mætti ekki vera að því, af því að hann væri boðinn í miðdegisverði á 26 stöðum, og þá mætti hann ekki undir höfuð leggjast.

Ef þetta er satt, — eg sel það ekki dýrara en eg hefi keypt —, þá gæti verið umtalsmál, hvort þetta væri að vinna trúlega í vín-garði föðurlandsins.