28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Það var auðvitað margt í ræðu framsm. minni hlutans (J. Ó.) sem svara þurfti, þótt eg kannske taki það ekki alt með í þetta sinn. Og gríp eg þá í það eftir því, sem eg minnist þess.

Meðal annars sagðist háttv. þm. ekki taka mikið mark á þeim »blaðablöðrurum« úti um lönd, sem ritað hefðu um þetta mál. Hefir hann þar líklega einkum átt við Norðmenn.

Það situr dável á hinum háttv. þm. (J. Ó.) að tarna, og af eigin reynslu getur hann talað um það, hvers virði orð »blaðamanna« sé. Hann sjálfur hefir fengist við blaðamensku um 40 ára skeið. Eg skal því ekki þrátta við hann um þetta. En það skrifa fleiri í blöð en »blaðamenn« einir. Og þeim,

sem í blöðin rita er ekki öllum skipandi á sama bekk. Orð þeirra hafa mjög misjafnt gildi, alt eftir því, hverjir það eru, sem rita, og eftir því, hvernig ritað er. Orð sumra hafa lítið eða ekkert gildi. Aftur geta orð annara manna haft hina mestu þýðingu, þó aldrei nema þau standi í dagblaði. Þetta veit og hinn háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) þó að hann vilji nú ekki kannast við það. Á orðum prófessors Gjelsviks ætla eg, að oss sé öllum vanzalaust að taka nokkurt mark. Það sýnist og ljóst, hvers virði sá maður þyki í sínu landi, sem Mikkelsen forsætisráðherra Norðmanna tók með sér einan allra lögfræðinga til samninga við Svía 1905.

Orð einstakra manna geta oft verið mikils virði, og hátt upp í það eins og þó það væri eitthvert goðasvar á huldu, út talað af stjórn einhvers lands. Auk þess eru blöðin í heild sinni stórveldi, og þau geta oft breytt almenningsálitinu og almennum hugsunarhætti, jafnvel á örstuttum tíma.

Fyrir fáum árum — ekki fullum þremur — voru þeir menn fáir hér á landi, sem þyrðu að segja, að Ísland væri að réttum lögum og ætti að vera sjálfstætt ríki og engum háð. Þá var sjálfur hinn háttv. framsm. minni hl. (J. Ó.) ekki kominn lengra en það, að hann hæddist þá mjög að því í blaði sínu, að Íslendingar ætluðu að fara að »leika« ríki í En nú er svo umskift orðið hugsunarháttinn í landinu — mest fyrir aðgerðir blaðanna og einurð yngri manna — að þessi sami þm. þorir ekki annað en halda því fram að Ísland eigi að vera ríki, og kemur nú með breytingartill. um það.

Bæði út af orðum háttv. frsm. minni hlutans (J. Ó.) og út af því sem stendur í nefndaráliti minni hlutans um mannakvaðir héðan af landi til hernaðar, skal eg enn taka það fram, að engin lög eru til, sem heimili útboð héðan. Frumv. þetta þurfti því engin ákvæði gegn því að setja, og það því síður, sem sáttmálinn við Ólaf konung helga 1022 er enn gildandi lög, þótt gamall sé, um það hverja herþjónustu Íslendingum beri að inna erlendis. Þar er svo ákveðið, að Íslendingar þeir, sem staddir voru í Noregi skyldu landvarnarskyldir þar innan lands, 2 af hverjum 3, en hinn 3. skyldi sitja heima og hafa eftirlit með farangri þeirra allra þriggja.

Það er engin nýlunda í sjálfu sér, og hinn háttv. þm. þarf ekkert að furða sig á því né getur dregið af því neinar ályktanir máli sínu til stuðnings, að konungur var í fyrirsvari í öllum málum landsins, jafnt utanríkismálum og öðrum, því að hann hafði að lögum alt framkvæmdarvald á hendi, bæði utan lands og innan. Hitt gæti verið eftirtakanlegra, hverjir fóru með utanríkismálin og höfðu framkvæmdir á þeim í nafni konungs. Í lögbókunum og sáttmálunum finnast eins og kunnugt er engin ákvæði um utanríkismálin, en nóg dæmi má finna þess, að konungar fóru ýmist með þau sjálfir og hirðstjórarnir eða jafnvel sjálft alþingi. Má sem dæmi þess nefna verzlunarleyfi Arnfinns hirðstjóra Þorsteinssonar frá 1419 handa útlendingum hér í landi. En slík leyfi voru konungarnir á þeim tíma jafnan vanir að gefa út sjálfir. Þá má nefna Píningsdóm um verzlun útlendinga 1490, sem aldrei var staðfestur af konungi, en þó jafnan talinn fullgild lög, sömuleiðis alþingisdóm um sekkjagjöld útlendinga til konungs frá árinu 1500, og hirðstjóraskipan um sama efni frá 1501; staðfesti konungur hvorugt og var þó hvorttveggja haldið lög.

Þá er samningur alþingis frá 1527 við Hamborgarkaupmenn og stjórn Hamborgarríkis um vigt og mæli, sem er auðvitað beint efni í þjóðasamning. Af þessu sér háttv. þm., að þótt utanríkismálin heyrði undir konung, þá er það annað mál, hvort hann lét Íslendinga eða Norðmenn annast þau, er hann sjálfur gerði það ekki beint.

Annars var hinn háttv. þm. óheppinn, þar sem hann fór að vitna til gamalla skjala um það, að konungur hefði farið með utanríkismál vor 5 árum eftir að landið gekk undir hann. Bréf Eiríks konungs frá 1269 um verzlunarleyfi fyrir Hamborgara á Íslandi, sem þm. ber fyrir sig, hefir aldrei verið til, og þá var enginn Eiríkur konungur heldur til í Noregi. Þingmaðurinn mun hafa farið hér eftir prentvillu í »Reykjavík« í fyrra. Bréf það, sem hann mun eiga við, er mörgum árum yngra og nefnir ekki Ísland á nafn. Hann er heldur ekki vel heppinn með hitt bréfið, sem hann vitnar í, verzlunarbannsbréf Hákonar konungs háleggs frá 1302, því að það er lögleysa.

Hinn háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) talaði um, að notað hefði verið hér á landi í »agitationir« í sumar, að nú ætti að fara að taka Íslendinga í herþjónustu. En það hefði þá kannske eins mátt geta þess, að þessi aðferð var notuð að sagt var á Hornströndum hérna um árið; veit eg ekki nema háttv. þm. kannist við, að hafa heyrt þess getið, ellegar nema háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) kynni að reka eitthvað minni til þess.

Þá koma varnirnar. Danir sjálfir játa, að þeir geti eigi varið oss til hlítar, ef til kæmi, og hverju erum vér þá bættari, þó aldrei nema þeir vinni það til sambandsins að gera það fyrir ekki neitt, sem þingmaðurinn dáist svo að? Hér í nefndarálitinu segir, að eins og nú standi geti manna-framlög til hers Dana orðið heimtuð héðan af landi. (Jón Ólafsson: Meira hlutans?) Nei, minna hlutans. (Jón Ólafsson: ósatt!) En þótt það standi í nefndaráliti sjálfrar sannsöglinnar, þá er það ósatt og rangt, eins og eg hefi áður sýnt fram á, enda hefir slíku ætið verið frávísað hér sem lögleysu, ef fram á það hefir verið farið.

Enn fremur tók þingmaðurinn (J. Ó.) fram, að hin fornu réttindi vor, sem vér byggjum á, séu svo langt uppi í skýjunum, að enginn stuðningur sé í þeim, því að engir kannist við þau nema vér. Þetta er nú að vísu ekki satt. En Danir vilja vitanlega ekki kannast við þau. Og þó munu þeir þykjast eiga góða og nytsama réttindagrein viðvíkjandi Slésvik í samningi einum, sem þeir meta stórmikils, þótt ekki nái þeir þeim réttindum. Eg skal ekki segja, hvað þeir leggja nú upp úr ábyrgðarskjölum Englendinga um Slésvik. En vilji Danir ekki fleygja frá sér skjallegum rétti sínum, sem þeir þó ná ekki, hvers vegna skyldum vér þá afsala oss vorum gömlu skjallegu réttindum, þótt Danir vilji ekki kannast við þau? Erum vér nokkru bættari fyrir það?

Eg heyrði ekki, að hinn háttv. þm. (J. Ó.) svaraði því áðan, og krefst þess því aftur, að hann skýri frá því, hvaðan honum koma heimildir, og hverjar þær eru fyrir því, að nú muni fást þær breytingar á frumvarpinu, sem minni hlutinn fer fram á. Skora eg á þingmanninn, að segja hér afdráttarlaust og í heyrandi hljóði, hvað hann hefir fyrir sig að bera.

Af því, sem hinn háttv. þm. (J. Ó.) lagði mér í munn um ríkiserfðirnar og Ísland í sambandi við Grikkjakonung hefi eg ekki talað eitt einasta orð. Hann bjó það til sjálfur.

Staðhæfing hans á ný um aldur Danmerkur sem konungsríkis er hvorki verri né betri en staðhæfing minni hlutans hér um í nefndarálitinu, enda stendur það efni hér á engu.

Eg ætla ekkert að metast um það við þingmanninn (J. Ó.), hvorir sé innlimunarmenn, meiri eða minni hlutinn. Landsfólkið hefir dæmt það á minni hlutann að heita það.

Eg ætla svo ekki að fara fleirum orðum um mál þetta að sinni. Það taka ef til vill fleiri til máls, sem eg þarf að svara síðar.