03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherra (H. H.):

Eg vil minna háttv. 3. kgk. þm. á það, að það eru fleiri vörur tollaðar en þær, sem vínandi er í, t. d. er brjóstsykur tollaður, og er þó enginn vínandi í honum. — Og þar sem háttv. þingm. kallaði það rán, að láta sum ákvæði laganna gilda frá 24. febr., þá get eg alls ekki verið honum samdóma. Hér getur ekki verið að tala um neinn ránskap, því allir kaupmenn vita, að lögin eru á ferðinni, og ef þeir panta meira en þeir ella hefðu gert, áður en þeir vita hvernig lögunum reiðir af, í þeim tilgangi, að komast á undan lögunum, þá tefla þeir lukkutafl, sem þeir verða að vera viðbúnir að geta tapað. Háttv. þingm. talaði og um það, að ef frumv. yrði samþykt óbreytt, mundu ýmsir kaupmenn verða að borga toll af vörum, sem þeir nú þegar eru búnir að selja. Þetta hygg eg að mundi alls ekki verða algengt, því að flestir þeir, sem á annað borð verzla með vínföng, hafa líklega haft svo mikinn forða þ. 24. febr., að hann er varla uppseldur enn. Að minsta kosti er ólíklegt, að þeir séu búnir að selja mikið af þeim vínföngum, sem þeir hafa fengið til landsins síðan 24. febr., og ákvæðið nær að eins til þeirra vínfanga, sem flutzt hafa til landsins eftir 24. febr., en ekki til þess forða, er kaupmenn höfðu þá til.