28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Jón Ólafsson):

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir fært svo skýr rök fyrir okkar hlið í þessu máli, að eg hefi ekki miklu að svara.

Það er helzt ofurlítill sparðatíningur úr ræðu háttv. vinar míns, framsm. meiri hlutans, sem eg hefi dálítið að athuga við.

Hann var enn að halda því fram, að Ísland hefði verið í personal-union 1262, og sagði að konungur hefði þó ekki verið einvaldur, en eg tók það fram að fimm árum síðar hefði hann þó farið með þessi mál, sem einvaldur. Og þar er um enga prentvillu í »Reykjavík« að tala. Eg hefi engan staf í það blað ritað síðan eg hætti við ritstjórn þess, og tók ekki dæmi mitt úr því blaði, heldur eftir riti Jóns Jónssonar sagnfræðings. Og það sem framsm. meiri hlutans sagði, að bréf það er eg vitnaði í, væri ekki til, er ósatt mál.

En hitt er ekkert utanríkismál, þótt alþ. hafi sett á sekkjagjöld, heldur ekki utanríkismál ákvæði um vog og mæli. Hvorttveggja er alinnlent löggjafarmál.

Háttv. framsm. meiri hlutans (J. Þ.) spurði, hvert gagn okkur gæti verið að því, að hafa sameiginleg hermál með Dönum. Ef við göngum að sambandslagafrumv., þá höfum við ómetanlegt gagn af því, að hafa hermálin sameiginleg.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði að nefndarmennirnir íslenzku hefðu hvergi slakað til.

Þetta er sannleikur.

En hefir nú háttv. meiri hluti haldið fram kröfum Þingvallafundarins án þess að slaka til? Nei. Hvað hafa þeir gert við flaggmálið? Hafa þeir neitað að semja við Dani ? Nei!

Háttv. framsm. (J. Þ.) veit, að nú höfum vér ekkert vald yfir þessum sameiginlegu málum. Hvernig ætlar hann að kippa þessu í lag?

Hvernig ætlar hann yfir höfuð að tala að fá nokkru framgengt, án samkomulags við Dani?

Hæstv. ráðherra gat þess, að forsætisráðgjafinn danski hefði ekki viljað gefa nokkra von um, að efnisbreytingar fengjust. Vér minni hluta menn segjum, að þær breytingar, sem vér höfum leyft oss að koma fram með séu einungis orðabreytingar.

Og vér allir saman, þessir 15 minni hluta menn, höfum vissu fyrir því, að Danir mundu ganga að okkar breytingum, þótt ekki þurfi að skýra frá því hér, hvernig vér höfum aflað oss vissunnar. Eg þóttist gefa full og næg svör um það efni í fyrri ræðu minni.

Háttv. framsm. meirihl. (J. Þ.) veit, að frumv. með breyt.till. háttv. meirihl. nær ekki fram að ganga, og meiri hlutinn játar hér aftur og aftur berum orðum, að allir viti þetta. Sú eina hugsjón þessara manna er, að láta alt sitja við það sem er. Það eina, sem fyrir þeim vakir, er það, að varna því, að Ísland verði sjálfstætt ríki.

Það er til einskis fyrir þá, að neita þessu, því að allir heilskygnir menn hljóta að sjá það, og reynslan mun gera það bráðlega enn berara, að hugsjón þeirra hin eina nú er sú: Enga breyting frá því sem er. Til þess á þjóðin að halda þessari stjórn, sem nú er, við völd, að hún geti látið alt dúsa við það sem er.