28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að það væri hyggja sín — vissa, sagði hann ekki —, að Danir mundu samþykkja breyt.till. minnihl. En háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) lést ekki mega segja frá því á hverju hann bygði þá skoðun sína; en það er nú einmitt aðal-alriðið, að fá að vita, á hverju slík ætlun þeirra byggist. Á meðan það fæst ekki, þá liggur nærri að skoða staðhæfingu minni hlutans að eins sem blekkingu. Án allra röksemda gæti eg alveg eins staðhæft, að breyt.till. meirihl. yrðu samþyktar af Dönum. Og í sjálfu sér held eg, að það séu litlar líkur til, að breyt.till. minni hlutans verði miklu fremur samþyktar en breyt.till. meiri hlutans. Eg skal ekki deila mjög um það, hvort breytingarnar við 3. gr. séu til bóta eða ekki, en eg get að minsta kosti ekki séð, að þær séu það.

Háttv. 1. þingm. Eyf. (H. H.) talaði langt mál um 8. gr. og gerðardóminn og taldi hann eitthvert helzta merki og ljósastan vott þess, að Ísland væri sjálfstætt og fullvalda ríki. Ekki finn eg að svo sé né svo þurfi að vera. — Þótt land vort væri ekki annað en hluti úr Danmerkurríki með nokkurri heimastjórn, þá gæti vel verið svo ákveðið, að ágreiningsefni um það, hvað væri heimastjórnarmál eða ekki, skyldi útkljást með svipaðri gerð sem þessari, þar sem Danir hafa öll yfirtökin. Gerðardómur þessi hefir því ekkert sjálfstæðisgildi fyrir oss.

Eg skal heldur ekki þrátta um það, hvort minni hlutinn hefir vikið frá kröfum sínum, þó að meiri hlutanum sýnist svo. En það er minni hlutanum gott, ef þeir eru sér þess meðvitandi, að hafa unnið sigur og ekki slakað til. Vér höfum aðra skoðun á því máli.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) mintist á pólitik okkar frá árunum 1867, 1869, 1871, 1873 og síðar. Nefndi hann í því sambandi bæði Jón Sigurðsson og Benedikt Sveinsson, og gat þess, að helztu menn þjóðarinnar hefðu þá viljað ganga að því fyrirkomulagi, sem var miklu verra en það, er nú væri í boði. Þeir hefðu gengið að því, að innlima landið í Danmerkurríki, og ákveðið og talið sjálfsagt, að það væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. En háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gáir ekki að því, hvernig þá stóð sérstaklega á. Þörfin á stjórnarbótinni var á árunum 1867—1873 svo óskapleg, en horfurnar tvísýnar. Réttmætar kröfur Íslendinga á þjóðfundinum 1851 höfðu verið barðar niður og að engu hafðar, og þessu máli ekki sint í mörg ár. Hvern eyri varð að sækja í gegnum ríkisþing Dana; allar framfarir landsins teftar og ekkert gert til neinna þarfa landinu né þrifa. Menn voru því neyddir til, að leita als lags um það, hvað hægt væri að fá til bóta á því ástandi, sem var alveg óþolandi og ekki mátti fresta eina stund, að fá lagfæring á. Eigi þeir menn ámæli skilið, sem samþyktu stjórnlagafrumv. á þingunum 1867, 1869, 1871 og 1873, þá réttlætir það ekki minna hlutann nú, að vilja afbata sig með þeirra verkum. En auk þess hafa þeir hinir fyrri menn afsökun sína á ástandinu, sem þá var. Þess utan þá fæ eg ekki séð svo til fulls, að það hafi verið annað en bragð (manövre), að láta það heita svo, að Ísland skyldi vera óaðskiljanlegur hluti Danaveldis, til þess að geta náð einhverju hagræði og verða heyrðir um eitthvað. Jón Sigurðsson hefir og gert grein fyrir því, hvernig þingin þá skoðuðu þessi ákvæði ekki sem innlimun, heldur sem neyðarúrræði til þess að komast hjá öðru verra og vinna nokkur réttindi. Þeir vissu og að alþingi þá var ekki að gefa nein skuldbindandi lög, heldur bendingar. Það hafði þá ekki löggjafarvald, heldur ráðleggingar- eða bendingarvald. Og svo þegar stöðulögin komu frá 2. jan. 1871 mótmælti þingið þeim öllum eins, og þau voru, og tók þar með nokkurn veginn af skarið.

Um stjórnarbaráttu vora eftir 1874 má nokkurn veginn segja hið sama. Þar var við ramman reip að draga, stjórnin þverskallaðist við öllu og daufheyrðist. Þar varð því að leita lags sem fyrri. En hafi þingið þar gengið að ákvæðum, sem hættuleg voru, þá getur það ekki verið nú nein fyrirmynd fyrir minni hlutann né nein afsökun.

Örlagaorð þau, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) mælti, skal eg ekki fara mörgum orðum um. Reynslan sýnir bezt, hvort úr þeim rætist.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) taldi það ekki heyra til utanríkismála, að þingið hefði lagt á sekkjagjöld; það væri alveg eins og löggjafarþing Íslendinga færi nú að leggja á farmgjöld, en hann gleymir því, að þessi gjöld runnu ekki til landssjóðs, heldur voru þau »regalia«. En þyki þingmanninum þetta ekki duga, þá er til samningur sá, sem þingið gerði 1527 við Hamborgarráð, stjórn Hamborgarríkis, um vog og mæli, jafn þýðingarmikið atriði og það er. Tvö ríki geta vitanlega hvort í sínu lagi sett innanlands ákvæði um vigt og mæli, sem að eins er bindandi fyrir það ríkið, er setur þau. En þau geta því að eins gert ákvæði, er gildi fyrir bæði ríkin, að þau geri það í sameiningu og með samningi af beggja ríkja hálfu. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) má því til að kannast við það, að alþingi hér í þessum samningi er að gera sama við annað ríki af hendi Íslendinga og stendur þar út á við í fyrirsvari landsins.

Það var enn að heyra á sama þm., að Íslendingar gætu átt það á hættu að vera kallaðir í danska herinn, ef þeir samþyktu ekki frumvarp þetta óbreytt. En mér er spurn, hvaðan skyldi Dönum koma það vald? Fyrir því er engin heimild né lagastafur. Eg hefi áður bent á það — en menn virðast ekki hafa látist heyra það, svo að eg verð nú að endurtaka það —, að þegar danska stjórnin fór fram á það 1857, að Íslendingar gengju í herþjónustu suður í Danmörku, þá var þeim sýnt fram á, að þar væri farið fram á lögleysu eina, og Havsteen amtmaður meðal annara lagðist eindregið á móti slíkri kröfu. Sú krafa var því látin falla niður sem löglaus fjarstæða. Og síðan hafa engin lög heimilað Dönum neina mannakvöð héðan af landi. Eg held það sé því ekki vert að veifa mikið þessari grýlunni.

Reynslan hefir kent oss það, að vér höfum farið hyggilega að í því, að vera ekki of fljótir til þess að gína við hverjum þeim kostum, sem oss hafa verið boðnir. Eftir því sem stundir hafa liðið, hefir málum vorum jafnan þokað fram til réttara og betra horfs, fyrir það, að vér sýndum þrautseigju og þrokuðum við. Hugsunarhátturinn hefir jafnan smámsaman breytst, bæði hér á landi til djörfungar og í Danmörku til mannúðlegri undirtekta og meira skilnings á málum vorum. Svo mun enn fara, að vér vinnum við biðina, ef vér höfum þrautseigju í oss til þess að halda kröfum vorum fast og einbeitt fram með hófsemd og stillingu. Þá mun lagið koma, sem skilar málefnum vorum í höfn um síðir, ef vér gætum þess að verða ekki of veiðibráðir og ætlum að ná lendingu á einhverju ólaginu, sem brýtur knörinn eða hvolfir honum.

Það skiftir meira að vér gerum vel þá samninga, sem vér gerum við Dani, heldur en að samningarnir takist fljótt, og að vér rösum fyrir ráð fram og niðjar vorir taki þar af langan skaða, og vér óþökk þeirra í marga liðu.

Mig furðar á því, að hinn háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) skuli enn vera að bera fyrir sig konungsbréfið frá 1269, sem aldrei hefir verið til. Sami háttv. þm. staðhæfði það, að meiri hlutinn væri nú að slaka til frá kröfum Þingvallafundarins 1907. En staðhæfing þessi er á engu bygð. Frumvarpið verður, samkvæmt till. vorum í nákvæmasta samræmi einmitt við ályktun Þingvallafundarins. Og að mínu áliti kemur skilnaðarpólitík þá fyrst til greina, ef ekki er tekið í mál af Dana hendi að sinna kröfum þeim, sem meiri hlutinn nú heldur fram, og það sé þrautreynt. Reynslan síðar verður því úr því að skera, hvort slakað verður til frá kröfum Þingvallafundarins. Enn þá hefir það ekki verið gert.

Bæði framsögumaður minni hlutans (J. Ó.) og 1. þm. Eyf. (H. H.) halda því nú fram, að breyt.till. þeirra sé ekki annað en orðabreytingar. Eg veit það, að »ríki« er annað orð en »land«. En eg veit líka, að það merkir annað, og að þeir ætlast til, að það merki annað meira og ákveðnara.