28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Hinn háttv. þm. Vestm. (J. M.) gerði til mín þá fyrirspurn, hverja leið meiri hlutinn hugsaði sér að fara til þess að koma máli þessu fram, úr því að hann teldi það ekki koma danska ríkisþinginu við. Þó að eg hafi ekki búist við þessari spurningu frá mínu sjónarmiði, og — þó að eg hafi ekki umboð til að segja það — eg hugsa frá sjónarmiði meira hlutans í heild sinni, þá hefir það verið skoðað svo af mörgum, og liggur næst að skoða það svo, að konungur sé enn einvaldur yfir öllum þeim málum vorum, sem hann hefir ekki takmarkað vald sitt í með stjórnarskránni frá 5. janúar 1874. Mál vor koma því dönsku löggjafarvaldi ekkert við og frumv. frá oss um þetta mál ætti því í rauninni aldrei að leggjast fyrir ríkisþingið danska. (Jón Magnússon: Kemur það ekkert Dönum við eða dönsku löggjafarvaldi að veita Íslendingum rétt í Danmörku?) Vér erum ekki að biðja um nein réttindi í Danmörku, en viljum að eins mega njóta allra réttinda í voru eigin landi.

Vér teljum það rétt, að konungur staðfesti frumv. um þetta efni, eins og það er samþ. af þinginu nú. Vilji danska ríkisþingið einnig að sínu leyti gefa út lög um sama, gerir það það þá líka einungis í sameiningu við konung. Mundi þá fara um þessi lög hvorutveggja eins og sambandslög Austurríkismanna og Ungverja, að það eitt væri skuldbindandi í þeim, sem væri samhljóða í báðum.

Háttv. sami þm. spurði, hvers vegna vér hefðum ekki kallað frumv. í fyrirsögninni frumvarp til sáttmála, en ekki til laga, eins og prófessor Gjelsvik hafði lagt til. Þar til má því svara, að það varð nú ofan á hjá meiri hlutanum að leggja það til að nefna það frumv. til laga. Enn fremur má geta þess, að ekki þarf meiri hlutanum að vinnast samþ. til þess að skrifa undir hvert orð, sem Gjelsvík segir, þó að vér metum mál hans mikils. Það má líka benda á það, að í frumv. sjálfu er það jafnan kallað sáttmáli. Mönnum hefir þótt meir á ríða, að efni frumv. væri eins og það ætti að vera, heldur en að gera nafnið á því að ágreiningsefni.