28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Eg þarf í sjálfu sér litlu að svara háttv. frmsm. minni hlutans (J. Ó.). Eg hefi áður tekið flest fram sem nauðsynlegt var. Þó skal eg geta þess, að það var þá fyrst, eftir 1862, þegar farið var að blanda saman í eitt fjármálunum eða fjárskilnaðarmálinu við Dani og stjórnarmáli landsins, að þingið léði máls á því að ríkisþingið hefði atkv. um stjórnarmálið, en það óskaði ekki eftir því; það var í rauninni neytt til þessa. Með fjárskilnaðarmálið var ekki hægt að komast fram hjá fjárveitingavaldinu danska og úr því að málin nú urðu samtvinnuð, þá fylgdi stjórnarmálið á þá leið með. Þýðir lítið að deila um þessa sök nú, enda vitum við báðir nokkurn veginn ljóst, hvernig þetta ækslaðist svo. Þingin þá lögðu og lítið upp úr þessu, og skoðuðu konung á þeim tímum einvaldan hér um alla löggjöf. Og flestir munu telja svo, að konungur gæfi út stjórnarskrána 1874 sem einvaldur konungur, og að vér höfum ekki með því að taka við henni játað af okkur neinum rétti. En ábyrgist minni hlutinn sjálfan sig, að ekki sé réttarafsal í till. hans nú hér á þingi.