28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ráðherrann (B. J.):

Eg sé ekki, að neitt sé vantalað til stuðnings stefnu meiri hlutans í nefndinni, þeirri stefnu, sem eg aðhyllist, enda býst eg ekki við, að umræður verði öllu lengri.

Eg skal taka það fram, að það er nú engin leið önnur, eða annað er nú ekki ógert, en að kveða skýrt á um það, hvað vér viljum, hvert sé takmark vort, og tjá það hinum aðilanum, Dönum. Danir hafa nú fortekið fyrir, að til nokkurs sé fyrir oss, að fara fram á nokkurar efnisbreytingar við uppkast millilandanefndarinnar. Því eigum vér einskis annars úrkosti en segja: Þetta viljum vér og annað ekki. Hvort sem þetta er gert með samþyktum í báðum deildum eða með rökstuddri dagskrá, skiftir minstu; viljinn er jafn ljós fyrir því. Ef meiri hlutanum á þingi þykir öruggara, að hafa atkvæðagreiðslu um málið, þá læt eg flokkinn ráða, enda ræður hann því alt um það. — Ef flokknum þykir hlýða, að skilja við málið í frumvarps formi, þá mun eg styðja það. Eg skal engu spá um afdrif frumv. Í þetta sinn er afsvarið víst. Eftirleiðis verður ekki sagt um, hversu fara muni. Það er rétt, að leita hófanna um það, að komast sem næst þessu takmarki, og það heldur fyr en síðar.