28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Bjarni Jónsson:

Það hefir nú borið svo margt á góma í þessu máli, að eg ætla mér ekki að fara að rekja það alt nú, eða svara því öllu nú, er þurfa kynni.

En af því að ýmsir háttv. þm. hafa vakið upp endurminningar um starf vort í þessu máli á síðastliðnu sumri, um baráttuna þá og efndirnar, er nú ætluðu að verða á loforðum þeim, er vér hefðum heitið kjósendum vorum, þá get eg ekki gengið þegjandi fram hjá því atriði.

Það vita allir, að þessi barátta hefir verið háð aðallega á grundvelli sögunnar, meiri hluti nefndarinnar hefir að mestu bygt á þessum grundvelli álit sitt, er skrifari nefndarinnar hefir samið. Eg er því einnig samþ., að sá grundvöllur sé réttur, og er hinn sögulegi réttur að vísu biturt vopn og gott, en sljófga má hann, sem hvert annað vopn, þótt gott sé í sjálfu sér; það má slá það úr höndum sér, með því að viðurkenna það, sem mótmælir hinum sögulega og lagalega rétti vorum.

Það hefði sambandslagafrumv. gert, ef það hefði orðið samþ.

Bæði eg og aðrir höfum litið svo á, að auk þessa sé það skýlaus og eðlilegur réttur hverrar þjóðar, að mega ráða sér sjálf — og þann rétt getur enginn af henni tekið; það má að vísu gera þá samninga, að þjóðin fái ekki notið þessa réttar síns, en jafngilda kröfu hefir hún til hans eftir sem áður. Því að þótt eg hafi með samningi játað það í gær, að eg væri þræll, þá þarf eg þó ekki að vera það í dag, ef eg vil það ekki og get losað mig.

Sama mætti nú segja um þetta frv., að vér glötuðum ekki eðlisrétti vorum, þótt það yrði samþ., en vér mundum koma á hann herfjötri þeim, sem erfitt yrði að leysa; vér stæðum ver að vígi eftirleiðis, ef vér nú semdum af oss réttindi vor.

Það hefir verið sagt hér í dag, að utanríkismál og hermál hefðum vér sameiginleg með Dönum — oss í hag. Og gaman þótti mér að heyra, er hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að Danir byndu sig sjálfa einungis til að verja oss þangað til oss lysti að losna við Þá.

En af hverju ætli Danir geri nú þetta, nema einungis af því, að þeir vilja vera yfirþjóðin, þeir vilja eiga oss með húð og hári! Það kom skýrt í ljós í sumar, það hefir einnig komið fram nú á þingi — síðast í dag, að þessar yrðu afleiðingarnar, ef frv. yrði samþ.

Allar breyt.till. meiri hluta nefndarinnar lúta að því, að forðast að leggja nokkurn herfjötur á hinn eðlilega rétt þjóðarinnar, að binda hendur eftirkomendanna. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat þess, að hann hefði ekki borið fram neina till. í þessu máli nú, af því að hann hefði ekki viljað afla málinu óvinsælda með því að beita sér fyrir það; þetta þótti mér undarlegt, af því að á þessu þingi og áður hefir ekki borið á því, að hinn háttv. þm. hafi verið lagður sérstaklega í einelti. Nei, það mætti miklu fremur segja, að sambandsmálið hefði lifað á vinsældum þessa manns, heldur en að það í hafi dáið fyrir óvinsæld hans. Þetta eða þvílíkt hefir hinum háttv. þm. einnig verið gefið í skyn hér á þinginu áður.

Ummæli hans í þessa átt geta því ekki verið annað en órökstudd brigslyrði. Enda vænti eg þess, að flestir séu svo skynbærir menn, að þeir láti ekki vináttu eða óvináttu ráða hér mestu um.

Sami háttv. þm. mintist þá á hinn alkunna nefndarskrifara Knud Berlin, er nú er á allra vörum, hann hefði átt að segja eitthvað í þá átt, hvers vegna »fullvalda« ríki hefði ekki verið tekið upp í frumv., þar sem ;það þó væri tekið fram í ástæðunum, en svo hefði hann (Kn. B.) snúist til þess að blekkja Íslendinga, af því að honum hefði þótt frv. of gott oss til handa.

En mætti nú ekki með jöfnum rétti segja, að Knud Berlin hefði sagt þetta við nefndarmennina íslenzku, þegar þeir fóru, í því skyni að hlakka yfir því, að þeir hefðu ekki náð takmarkinu, sem þeir áttu að ná, og stungið upp í þá þessari dúsu til bragðbætis?

Þá gat sami háttv. þm. þess einnig, að gerðardómsákvæðið sýndi ljósast fullveldishugmyndina.

En eg verð nú að taka undir með hinum háttv. frmsm. meiri hlutans (J. Þ.) að slíkt ákvæði er engan veginn órækur sjálfstæðisvottur; gerðardóm má setja milli landshluta og landsins sjálfs.

Hinn háttv. l. þm. Eyf. (H. H.) vildi einnig vísa á bug þeim fullyrðingum frumv.andstæðinga, að sambandslaganefndin hefði í nokkru hopað af sínum upprunalega grundvelli.

En þessi ummæli hins hv. þm. eru að eins ósönnuð orð, sem ekki þarf að svara.

í lok ræðu sinnar gat sami hv. þm. þess einnig, að bardagaaðferð millilandanefndarinnar hefði reynst heilladrjúg; má vera að hún hefði orðið það, ef frumv. hefði orðið samþ. — fyrir Dani en ekki Íslendinga!

Ekki get eg heldur fallist á þá fullyrðing hins háttv. þm., að Íslendingar hefðu með þessu frumv. fengið það, sem þeir þörfnuðust og — þyldu.

Og það virðist mér undarlegt, þegar þessi háttv. þm. og fleiri eru að vitna til þinganna 1867 og 1869. Slíkt kemur oss ekkert við hér. Má vel vera, að oss hafi orðið það að happi, að Danir samþ. ekki það, sem þá var farið fram á — en það hefir engin áhrif á þetta mál.

Þeim ummælum hins háttv. þm. vil eg leyfa mér að mótmæla, að vér værum altaf að gera »auktion« eða yfirboð yfir kröfur sjálfra vor, að vér viðhefðum stóru orðin, er ekkert feldist þó í. Þessi ummæli eru með öllu óréttmæt.

Hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) talaði um að ilt væri að koma heim til kjósenda með svikin loforð. Hann skýrði rangt frá því, að vér hefðum ætlað oss að útvega konungssamband eitt eða skilnað. Vér höfum að eins sagt, að vér vildum fá betri samninga og ekki fara fram á minna en konungssamband í framtíðinni. Vér höfum því ekki rofið nein heit við kjósendurna, því að þessu höfum vér unnið á þessu þingi og einmitt það starf gaf háttv. þm. tilefni til að svara oss í þetta sinn.

Leiðin, sem vér ætlum oss að fara, er sú, að láta kröfur vorar ljóst og greinilega í ljósi við Dani, segja þeim allan sannleikann í málinu, og Danir svara svo, hvort þeir ganga að þeim eða ekki. Ef þeir samþykkja þær ekki að þessu sinni, þá skýrum vér réttmæti þeirra fyrir dönsku þjóðinni, og þá mun hún skipa fulltrúum sínum að verða við þeim. Eg veit, að slíkt verður niðurstaðan, þótt það vari að sjálfsögðu lengra eða skemmra árabil, áður en vér fáum kröfunum framgengt eftir þessari braut.

Eg er mótfallinn því að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, enda veit eg eigi, af hversu heilum hug 1. þm. Eyf. (H. H.) mælti, er hann gaf oss það ráð. Það er miklu meira afl og kraftur, sem lýsir sér í því, að vér afgreiðum það sem lög frá þinginu. Ef vér afgreiðum það sem rökstudda dagskrá, þá sannast það á meiri hlutanum, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði, að hann fái vonda samvizku eftir verkið.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að vér ættum eftir að bíta úr nálinni í þessu máli. Eg vil svara þeim ummælum með því sem stúlkan sagði, er hún var að sauma utan um dauðan mann; hann reis þá upp og sagði hún væri ekki enn búin að bíta úr nálinni. »Þá skal slíta en ekki bíta, bölvaður!«