28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Eg gat þess í umr. um vantraustsyfirlýsinguna til fyrverandi ráðherra hér í deildinni, að eg, er sambandsmálið kæmi hér til umr., myndi leiða rök að því, er eigi yrði mótmælt, að sambandslagafrumv. það, er hann lagði fyrir þetta þing, væri í fullu samræmi við stefnuskrá flokks þess, sem eg hefi að undanförnu talist til, og nú er í meiri hluta á þessu þingi, og að það því sætti hreinni furðu, að háttv. meiri hluti skyldi gefa honum að sök forgöngu hans og afskifti af því máli.

Eg verð þá að rifja upp í stórum dráttum, hver stefna flokksins hefir verið í sambandsmálinu síðustu árin, og bera sambandslagafrv. stjórnarinnar saman við hana.

Eg skal að eins lauslega minna á, að alþingi 1901 — fyrsta þinginu, sem eg sat á — vildi flokkurinn sætta sig við það, að vér fengjum sérstakan ráðherra fyrir sérmálin — um sameigin-

legu málin var þá eigi rætt — þótt hann væri búsettur í Danmörku og launaður af dönsku fé, og eins á hitt, að á þingunum 1902 og 1903 greiddi allur flokkurinn undantekningarlaust atkvæði með stjórnarskipunarlögunum frá 3. október 1903, þótt skifting sameiginlegra mála og sérmála væri hin sama og í stöðulögunum frá 1871 og bygð á þeim.

Þó voru ýmsir óánægðir með ríkisráðsákvæðið, er Alberti, sællar minningar, smeygði inn í stjórnarskrárfrv., og eins mæltist hitt mjög illa fyrir, er skipunarbréf Íslandsráðherrans var undirskrifað af forsætisráðherra Dana.

Það varð því þegar bert, að flokkur vor myndi eigi til frambúðar sætta sig við fyrirkomulagið frá 1903, og jafnframt var farið að krefjast þess, að stöðulögin frá 2. janúar 1871 — grundvöllurinn undir stjórnarskipuninni — yrðu endurskoðuð og þeim breytt þannig, að sameiginlegu málin yrðu talin upp, og að lögin skyldu samþykt bæði af ríkisþingi og alþingi, svo fyrir það væri girt, að Danir gætu einhliða kipt burt lögunum og þar með grundvellinum undir sérmálastjórn vorri.

Blöð flokksins unnu svo ósleitulega að útbreiðslu þeirrar skoðunar, að hið núverandi fyrirkomulag væri meingallað, að í þingmannaförinni 1906 voru margir af þingmönnum meiri hlutans orðnir sannfærðir um hið sama og bundust samtökum við stjórnarandstæðinga um það, að nota ferðina til þess að reyna að fá breytingar á fyrirkomulaginu í framangreinda átt.

Um það, hverjar kröfur hinn núverandi háttv. meiri hluti vildi þá gera í sambandsmálinu, hefir maður glögga skýrslu í grein, er háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) ritaði í danska blaðið »Politiken« meðan á þingmannaförinni stóð, en um þá grein segir svo í skýrslu hans sjálfs um málið, sem skrásett er á heimleiðinni úr þingmannaförinni, og eg hefi í höndunum: »Jafnframt skrifaði og ritstjóri Skúli Thoroddsen grein í blaðið »Pólitiken«, þar sem hann skýrði frá kröfum Íslendinga frá sjónarmiði stjórnarandstæðinga, sem sé um endurskoðun stöðulaganna, er samþykt yrði bæði af alþingi og ríkisþingi, og að danskir ráðherrar hefðu engin afskifti af íslenzkum sérmálum, Íslendingar yrðu látnir einir um að ráða fyrirkomulaginu á sérmálastjórn sinni eftir eigin geðþótta o. s. frv«.

Eg þarf eigi að benda á, að hér er Íslandi ætlað að vera hluti úr danska ríkinu með fullum yfirráðum yfir sérmálum sínum, en engin afskifti af sameiginlegu málunum. Sama haustið komu ritstjórar allra blaða þáverandi minni hluta, þar á meðal hæstv. ráðherra (B. J.), þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og þm. Ak. (S. H.) — og ritstjóri Þjóðólfs (H. Þ) — sér saman um ávarp til hinnar íslenzku þjóðar, er nefnt hefir verið Blaðamannaávarpið og gefið var út 12. nóv. 1906. Aðalkafli þess hljóðar svo:

»Ísland skal vera frjálst sambandsland Danmerkur, og skal, með sambandslögum, er Ísland tekur óháðan þátt í, kveðið á um það, hver málefni Íslands hljóti, eftir ástæðum landsins, að vera sameiginleg mál þess og ríkisins. — í öllum öðrum málum skulu Íslendingar vera einráðir með konungi um löggjöf sína og stjórn, og verða þau mál ekki borin upp í ríkisráði Dana.

Á þessum grundvelli viljum vér ganga að nýjum lögum um réttarstöðu Íslands, væntanlega með ráði fyrirhugaðrar millilandanefndar«.

Hér er Íslandi eigi ætlað að verða sérstakt ríki, heldur hluti úr danska ríkinu, er eftir ástæðum landsins hljóti að hafa sameiginleg mál með því, og það eigi gefið í skyn, að Ísland eigi að taka nokkurn þátt í meðferð þeirra.

Hefði millilandanefndin verið skipuð þá um veturinn, mundu fulltrúar minnihluta Íslendinga í henni hafa fengið þannig lagað umboð frá flokksbræðrum sínum, því allur flokkurinn aðhyltist Blaðamannaávarpið.

Nú kemur Þingvallafundurinn 29. júní 1907 til skjalanna. Til hans var boðað af þeim, sem áður höfðu aðhylst Blaðamannaávarpið og hann eingöngu sóttur af stjórnarandstæðingum. En bæði af því að samþykt hans er nokkuð óskýrt orðuð — það sýnir blaðadeilan, sem varð á eftir um það, hvernig hana beri að skilja — og eins hinu, að þingflokkur sá, er eg tilheyrði bygði á henni, en skýrði hana jafnframt í því, er hann fékk oss fulltrúum sínum í millilandanefndinni í hendur, ætla eg ekki að dvelja við hana, heldur snúa mér að umboðinu.

Umboð þetta fékk ítarlegan undirbúning; uppkast að því var í fyrstu samið af 3 mönnum — ef eg man rétt, háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og dr. Valtý Guðmundssyni, sem fulltrúum þjóðræðisflokksins, og Jóni yfirdómara Jenssyni sem fulltrúa landvarnarflokksins — síðan var það rætt á tveim fundum í þingflokknum — en í honum var sá eini fulltrúi, sem landvarnarmenn áttu á þingi — og samþykt lið fyrir lið við síðari umræðuna.

Umboðið kemur í forminu fram sem: »Útdráttur úr gerðabók þjóðræðisflokksins á alþingi«, og skal eg með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa það hér upp. Það hljóðar svo:

»Útdráttur

úr gerðabók þjóðræðisflokksins á alþingi.

11. fundur fimtudaginn 11. júlí 1907, kl. 9 síðd.

Á síðasta fundi voru fram lagðar og bornar upp tillögur til fundarsamþyktar um verksvið millilandanefndarinnar frá nefnd þeirri, er kosin var til að semja þær. Eftir nokkrar umræður voru einstakir liðir bornir undir atkvæði og samþyktir, en fullnaðarályktun frestað. Var nú málið aftur tekið til meðferðar og samþykt í einu hljóði svo látandi

Fundarályktun

um samningsgrundvöll í sambandsmáli Íslands og Danmerkur:

Ísland skal vera frjálst sambandsland Danmerkur í konungssambandi við hana með fullveldi yfir öllum sínum málum.

Fela má þó Dönum að fara með ýms mál fyrir Íslands hönd meðan um semur, þau er eftir ástæðum landsins þykir gerlegt t. d. konungserfðir, hervarnir, utanríkismál, mynt.

Öll önnur mál skulu Íslendingar vera einráðir um með konungi, og verða þau að sjálfsögðu eigi borin upp í ríkisráði Dana.

Sérstaklega skal það tekið fram, að auk þeirra mála, sem nú eru talin íslenzk sérmál, skal áskilinn sérstakur íslenskur þegnréttur; semja má þó svo, að Danir fái að njóta þegnréttar á Íslandi gegn því, að Íslendingar hafi sama rétt í Danmörku og Danir.

Fáni skal og vera sérstakur fyrir Ísland, en til samkomulags má vinna, að íslenzk skip hafi danskan fána í utanríkishöfum.

Rétt til fiskiveiða í landhelgi hafa Íslendingar einir, en með samningi má veita Dönum rétt til þeirra gegn því, að þeir annist landhelgisvarnir hér við land, meðan þörf er, eða láti önnur hlunnindi í móti koma.

Fé á konungsborð má bjóða fyrir Íslands hönd að tiltölu við fólksfjölda.

Framanritaðri fundarályktun til staðfestingar eru undirrituð nöfn allra flokksmanna.

Björn Kristjánsson, Einar Þórðarson, Jóh. Jóhannesson, Ólafur Ólafsson, Ólafur Briem, Ólafur Thorlacius, Sigurður Stefánsson, Skúli Thoroddsen, Sigurður Jensson, Valtýr Guðmundss., Stefán Stefánsson, Þorgr. Þórðarson«.

Eg skal nú taka þetta umboð, liða það niður lið fyrir lið og sanna með tilvitnunum í frumv. millilandanefndarinnar, svo skýrt og ótvírætt, að eigi verði með rökum móti mælt — nema ef til vill megi deila um eitt einasta atriði — að öllum atriðum þess er fullnægt í frumv. og meira til.

Eftir umboðinu »skal Ísland vera frjálst og sjálfstætt sambandsland Danmerkur í konungssambandi við hana . . .«.

í 1. gr. frumv. stendur: »Ísland er frjálst og sjálfstætt land, er eigi verður af hendi látið. Það er í sambandi við Danmörku um einn og sama konung . . «.

Þegar þar við bætist, að Ísland í álitsskjali millilandanefndarinnar er nefnt ríki og í 1. gr. frumv. talið vera í »ríkjasambandi« við Danmörku virðist þessu atriði umboðsskjalsins náð í frumv. og freklega það.

Þá er það áskilið í umboðinu, að Ísland skuli hafa »fullveldi yfir öllum sínum málum«.

»Frjálst og sjálfstætt land«, eins og stendur í 1. gr, frumv., gæti Ísland eigi með réttu kallast, ef það hefði eigi fullveldi yfir öllum sínum málum. Sá er eigi frjáls, sem eigi ræður fyrir sér. I

En aðalsönnunin fyrir því, að Ísland hafi fullveldi yfir öllum sínum

málum, er að finna í 6. gr. frumv. og 9. gr. þess.

Að því er sérmálin snertir, stendur í niðurlagi 6. gr.: »Að öðru leyti ræður hvort landið (Danmörk og Ísland) að fullu öllum sínum málum«. Hér er það tekið fram með svo skýrum orðum, sem frekast þörf er á, að Ísland hafi eigi einasta fullveldi, heldur og full og óbundin umráð og meðferð þessara mála; því færi það með vald einhvers annars en sjálfs sín í þessum málum, væri það að sjálfsögðu tekið fram, eins og það er tekið fram framar í greininni, að Danir fari einnig með vald vort í sameiginlegu málunum.

Að því er sameiginlegu málin snertir, þá er það tekið fram í sömu grein, að dönsk stjórnarvöld fari með þau »einnig fyrir Íslands hönd«.

Hvað liggur nú í þessu? Er hægt að draga þá ákvörðun af þessu ákvæði frumv., að vér afsölum oss fullveldi voru yfir þessum málum í hendur Dönum og innlimum oss Danmörku?

Síður en svo. Hér er það einmitt tekið fram svo skýrt, að hverjum í meðallagi greindum og upplýstum manni ætti engin vorkunn að vera á, að sjá, að hér er fullveldi vort yfir sameiginlegu málunum að fullu viðurkent.

Ef sú kenning væri rétt, að vér með frumv. afsöluðum oss fullveldinu í sameiginlegu málunum í hendur Dana, þá væru málin eigi lengur vor mál, heldur Dana, sem fengið hefðu fullveldi. Danir færu því að sjálfsögðu með málin sem sín eigin mál að öllu leyti, einnig að því er Ísland snerti, því meðferðarrétturinn fylgir fullveldinu að sjálfsögðu, svo framarlega sem skýr ákvæði eigi sýna, að meðferðarrétturinn (og skyldan) sé færð yfir á aðra en þá, er fullveldið hafa. Orðin í greininni: »einnig fyrir Íslands hönd« sanna því ómótmælanlega, að málin eru vor mál eftir sem áður og að vér höfum fullveldið í þeim, en höfum að eins fengið Dönum í hendur umboð til þess að fara með þau, einnig að því er til vor tekur og í umboði voru, meðan lögin (?: samningurinn) eiga að standa óbreytt og óhögguð. En hvort það er lengri eða skemmri tími, tímatakmarkað eða óákveðið, það gerir ekki hinn minsta veru-mun í þessu efni. Hvort tíminn er 1 ár, 50 eða 100 ár, eða óákveðinn skiftir engu. Aðal-atriðið er þetta, að valdið er vort, og að meðferð málanna er einnig »fyrir vora hönd«, eða í umboði voru, er falin öðrum af oss sjálfum og meðan vér sjálfir höfum samþykt.

Ein af hættulegustu villukenningunum, sem andstæðingar frv. hafa barið inn í þjóðina, er sú, að vald sé sama og meðferð, og að vér því afsöluðum frá oss og í hendur Dana fullveldinu í sameiginlegu málunum. Þetta er jafnfjarstætt eins og að segja, að eignarréttur sé sama og umráðaréttur, og að jarðareigandi, sem byggir jörð sína hafi afsalað sér eignarrétti að jörðinni í hendur ábúanda, því eins víst og það er, að sá sem bygt hefir jörð sína til ákveðins tíma, til lífstíðar, eða jafnvel selt hana á erfðafestu, er eftir sem áður eigandi jarðarinnar, eins víst er hitt og, að vér höldum fullveldi voru í sameiginlegu málunum, þótt vér fáum Dönum umboð til þess að fara með þau einnig fyrir vora hönd.

Þá skal það og tekið fram, að í 6. gr. áskiljum vér oss rétt á að taka þátt í meðferð sameiginlegu málanna, en slíkt væri fjarstæða, ef vér hefðum afsalað fullveldi voru yfir þeim í hendur Dana.

Þá felst og í 9. gr. frv. ótvíræð sönnun fyrir því, að vér höfum fullveldi í sameiginlegu málunum. Þar er það tekið skýrt fram, að alþ. geti eftir að 25 ár eru liðin frá því að lögin öðlast gildi, krafist endurskoðunar á þeim.

Ef vér afsöluðum oss fullveldinu yfir sameiginlegu málunum, væri eigi rétt hugsun í því, að vér getum krafist endurskoðunar á 3. gr., sem ákveður hver mál skuli vera sameiginleg, eða

6. gr., er ákveður, hvernig með þau skuli farið. Þau væru þá ekki sameiginleg mál, heldur aldönsk mál — eins og sameiginlegu málin verða nú að teljast eftir stöðulögunum — sem vér hefðum engin afskifti af og Danir færu með að öllu leyti sem sín eigin mál. En samkvæmt 9. gr. getum vér krafist þess, að öll lögin —, að ekki einasta einu ákvæði þeirra undanskildu — verði endurskoðuð.

Þá er svo að orði komist í umboðinu, að fela megi þó Dönum að fara með ýms mál fyrir Íslands hönd meðan um semji, þau er eftir ástæðum landsins þyki gerlegt, t. d. konungserfðir, landvarnir, utanríkismál, mynt.

Eg skal þá fyrst benda á, að mál þau, er umboðið veitir heimild til að fela Dönum, eru að mestu leyti sömu málin og talin eru í 3. gr. frv., og að orðin »fara með fyrir Íslands hönd« eru nákvæmlega hin sömu og standa í 6. gr.

Orðin: »meðan um semur« eru því það eina í þessari klausu, er valdið getur ágreiningi.

Hvað þýða þá þessi orð?

Þau þýða að sjálfsögðu það og ekkert annað, en að fela megi Dönum meðferð málanna þann tíma, stuttan eða langan, ákveðinn eða óákveðinn, seni Íslendingum og Dönum kemur saman um, og ættu því alveg eins við, þótt sú kenning væri rétt, að Dönum væri falin meðferðin »um aldur og æfi«, eins og þó hún væri eigi falin þeim nema 2—3 ár.

En þessi kenning er ekki rétt.

Orðin »um aldur og æfi«, sem notuð hafa verið ósleitulega af frumv.-andstæðingum, standa hvergi í frv., þótt margur ætli svo vera. Hins vegar stendur í 9. gr. frumv., eins og áður er getið, ákvæði um það, að alþingi geti krafist endurskoðunar á lögunum eftir 25 ár, þar á meðal ákvæðinu í 6. gr., um meðferð sameiginlegu málanna, svo í raun og veru er þeim eigi falin meðferðin á nokkru máli lengur.

En þótt kenningin væri rétt, er þá nokkur háski á ferðum?

Þau einu mál, er vér gætum ekki sjálfir verið búnir að taka til meðferðar eftir 37 ár, væru þá hermál og utanríkismál.

En þegar betur er að gáð, þá höfum vér eftir frumv. í raun og veru engin hermál. Þar er skýrt ákveðið, að hvorki verði af oss heimtað fólk né fé til hernaðar. Ákvæðið um, að vér höfum hermál sameiginleg með Dönum, hefir því í raun og veru eigi annað að þýða en það, að Dönum sé skylt að verja land vort, meðan vér erum í sambandi við þá, án þess að geta krafist nokkurs í móti.

Þá eru utanríkismálin. Mér er eigi kunnugt, að vér höfum eða æskjum að hafa utanríkismál, er oss varði nokkru, önnur en verzlunar- og siglingasamninga, en í 3. gr. frumv. er oss það trygt, að engir slíkir samningar skuli gilda fyrir oss, nema vér sjálfir kjósum.

Það er eigi lítið varið í það fyrir mig, að geta skírskotað til þess, að Jón yfirdómari Jensson, sem var einn af 3, er orðaði umboð vort, hefir opinberlega látið í ljósi, að skilja beri orðin »meðan um semur«, eins og þau eru skýrð hér.

Þá stendur í umboðinu: »Öll önnur mál skulu Íslendingar vera einráðir um með konungi, og verða þau að sjálfsögðu eigi borin upp í ríkisráði Dana«.

Um þessa klausu get eg verið stuttorður, því eg get skírskotað til þess, er eg sagði áðan um 6. gr. og vald vort yfir sérmálunum og meðferð þeirra, að því viðbættu, að í athugasemdunum við frumv. er það skýrt tekið fram, að vér ráðum því sjálfir, hvar sérmál vor verða borin upp fyrir konungi, og eins hinu, að ráðherra vor skrifi sjálfur undir skipunarbréf sitt.

Þá stendur í umboðinu: »Sérstaklega skal það tekið fram, að auk þeirra mála, sem nú eru talin íslenzk sérmál, skal áskilin sérstakur íslenzkur þegnréttur; semja má þó svo, að Danir fái að njóta þegnréttar á Íslandi, gegn því, að Íslendingar hafi sama rétt í Danmörku og Danir«.

Hér kemst nefndin lengra en umboðið heimtar, því í 5. tölulið 3. gr. stendur: »Löggjafarvald hvers lands um sig getur þó veitt fæðingjarétt með lögum, og nær hann þá til beggja landa«. Vér getum með öðrum orðum eigi að eins veitt fæðingjarétt á Íslandi, heldur einnig í Danmörku.

Þá stendur í umboðinu: »Fáni skal og vera sérstakur fyrir Ísland, en til samkomulags má vinna, að ákveðið sé, að íslenzk skip hafi danskan fána í utanríkishöfnum«.

Í 8. tölulið 3. gr. frumv. stendur, að kaupfáninn út á við sé sameiginlegur, meðan því er eigi sagt upp eftir 9. gr.

Enn stendur í umboðinu: »Rétt til fiskiveiða í landhelgi hafa og Íslendingar einir, en með samningi má veita Dönum rétt til þeirra gegn því, að þeir annist landhelgisvarnir hér við land meðan þörf er, eða láti önnur hlunnindi í móti koma«.

Í 3. tölulið 5. gr. frumv. stendur: »Um fiskiveiðar í landhelgi við Danmörku og Ísland skulu Danir og Íslendingar jafnréttháir meðan 4. atriði 3. gr. er í gildi, þ. e. a. s.: þegar er vér samkv. 9. gr. segjum gæzlu fiskiveiðaréttarins upp sem sameiginlegu máli, missa Danir allan rétt til fiskiveiða í landhelgi Íslands.

Loks stendur í umboðinu: »Fé á konungsborð má bjóða fyrir Íslands hönd, að tiltölu við fólksfjölda«.

Í 7. gr. frv. stendur: »Þó leggur Ísland fé á konungsborð og til borðfjár konungsættmanna hlutfallslega eptir tekjum Danmerkur og Íslands«.

Hér komst millilandanefndin að betri kjörum en umboðið gerir ráð fyrir. Ef vér Íslendingar ættum að greiða fé á konungsborð móti Danmörku, hlutfallslega eftir fólksfjölda, yrðum vér að greiða ?30 af borðfénu, en þar sem á að leggja tekjur landanna til grundvallar, þurfum vér eigi að greiða nema c. ?100því munurinn á tekjum landanna er því meiri en munurinn á fólksfjölda.

Eg þykist nú hafa sýnt og sannað með ljósum rökum, að það er stefnuskrá Þjóðræðisflokksins á þingi 11. júlí 1907, sem leidd hefir verið fram til sigurs í frumv. millilandanefndarinnar.

Eg hefi eigi gert það til þess að deila á nokkurn mann, heldur til þess að leiða hið sanna og rétta í ljós í þessu máli, því þótt undarlegt megi virðast, hafa Þjóðræðismenn, er snerust móti frumv. millilandanefndarinnar, eigi viljað kannast við þennan sannleika. Eg hef gert það til þess að sýna, að

það erum ekki við, háttv. 6. kgkj. þm. og eg, sem höfum svikið flokk vorn, er vér samþyktum millilandanefndarfrumv., heldur fyrri flokksbræður vorir, sem hlupu frá stefnuskrá sinni í málinu, er þeir snerust á móti því.

Það er meðvitundin um þetta, sem gerir það að verkum, að við höfum tekið okkur létt, og munum taka okkur létt vanþakklæti það, skammir og brigzlyrði, er við höfum orðið fyrir og kunnum að verða fyrir af hálfu fyrverandi flokksbræðra okkar og blöðum þeirra, fyrir starf okkar í millilandanefndinni, og leggjum þá starfsemi ókvíðnir undir dóm sögunnar.