28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Eg er sammála háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um það, að ekki þýði nokkuð að við förum að þrátta um einstök atriði þessa máls. En á það vil eg þó enn benda,

að við nefndarmenn áttum ekkert að gera og gerðum ekkert annað, en að útvega tilboð, sem skyldi lagt fyrir þingið. Af þessu er það og auðsætt, að þótt innlimun hefði falist í frumv. millilandanefndarinnar, þá var það þingið, en ekki við, sem hefði innlimað landið, ef frumv. hefði orðið að lögum. Það er því eigi hægt að nota það sem ástæðu gegn skilningi mínum á orðunum: »meðan um semur« í umboði voru. En sá skilningur styrkist mjög við það, að eitt af þeim málum, sem við áttum að fela Dönum »meðan um semur«, voru konungserfðirnar, en þær datt engum í hug að fela þeim að eins um vissan árafjölda eða láta þær vera uppsegjanlegt mál.

Eg vil einnig leyfa mér að benda á það, að orðið »Statsforbund« á alls ekki við um slíkt ríkjasamband, sem hér um ræðir, en þó að það hefði nú staðið í frumv., þá sýndi það ekkert frekara fullveldi vort en orðið »Statsforbindelse«.

Háttv. framsm. (Sk. Th.) vildi halda því fram, að jafnréttis-ákvæðið væri Dönum einum í hag, en okkur í óhag. Hann hlýtur þó að játa, að það er allur munur á því, að eiga eins og við eftir frumv. ríkisborgararétt í ríki, sem ver yfir 100 miljónum kr. árlega til ríkisþarfa eins og Danmörk, heldur en eins og Danir á Íslandi, sem ver eigi meiru en rúmri miljón króna árlega til ríkisþarfa. Þetta jafnar fullkomlega upp þann mun, sem er á fólksfjöldanum í Danmörku og á Íslandi og meira til.