28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ólafur Briem:

Það er að eins eitt atriði, sem eg vildi gera lítilsháttar aths. við, af því að eg er í nokkrum vafa um, hvort því sé haganlega fyrir komið í frumv.

Það sem eg á við er það ákvæði 7. gr., að með eins árs fyrirvara geti ríkisþing Dana og alþ. hvort um sig sagt upp sáttmála þessum að nokkru leyti eða öllu, þá er 25 ár eru liðin, frá því er hann gekk í gildi. Nú er það vitanlegt, að ýms af sambandsmálunum, t. d. strandvarnir og peningaslátta og þó einkum utanríkismálefni, eru þess eðlis, að hvenær sem Ísland tekur þessi mál að sér til halds og trausts, þarf að hafa til þess talsverðan undirbúning, er útheimtir bæði tíma og fé. Ef svo bæri til, að ríkisþingið beitti rétti þeim, sem því er áskilinn til að segja upp einhverju af þessum málum með eins árs fyrirvara gæti svo farið, að téður ársfrestur reyndist alt of naumur til undirbúnings, ekki sízt ef uppsögn ætti sér stað á því ári, sem alþ. væri ekki haldið og þar af leiðandi vantaði nauðsynlega fjárveitingu til lúkningar þeim kostnaði, er slík ráðstöfun hlyti að hafa í för með sér.

Að öðru leyti skal það tekið fram, að eg fyrir mitt leyti get ekki lagt sérlega mikið upp úr því, að í sambandslögunum sé tiltekinn tímabundinn uppsagnarfrestur á einstökum málum, með því að eg verð að líta svo á, að réttur sá, sem þar í á að vera fólginn Íslandi í vil, sé nægilega trygður með öðrum gr. frumv., eins og það var samþ. hér í deildinni við 2. umr. málsins, sem sé 1. gr., þar sem svo er ákveðið, að Ísland sé fullvalda ríki, og 5. gr., er skipar svo fyrir, að dönsk stjórnarvöld fari með sambandsmálin í umboði Íslands. Með þessum ákvæðum er Íslandi eftir minni skoðun veitt skýlaust vald til þess að taka í sína hönd og undir sín umráð sambandsmálin í heild sinni eða hvert einstakt þeirra út af fyrir sig, að því leyti sem málefnasambandið byggist ekki á öðru en samningi þeim, sem gerður er með þessum lögum. Þetta virðist því síður þurfa að valda neinum vafningum eða vífilengjum, þar sem í álitsskjali millilandanefndarinnar er með einróma yfirlýsing nefndarmannanna dönsku fengin viðurkenning frá fulltrúum allra stjórnmálaflokka í Danmörku um að frá Dana hálfu verði aldrei beitt neinu valdi við Ísland, til þess að halda nokkru forræði yfir því.

Samkvæmt þessu er það álit mitt, að áminst uppsagnarákvæði, hvort heldur eins og það er orðað í uppkasti millilandanefndarinnar eða í frumv. því, er nú liggur fyrir deildinni, hefði ekki átt að komast inn í frumv. og að það væri enginn skaði þó að það væri felt burtu. Ástæðan til þess, að eg samt sem áður hefi ekki gert ágreiningsatkvæði í sambandslaganefndinni um þetta efni, er sú, að eg gat búist við, að þar að lútandi breyt.till. yrði skoðuð sem fleygur til að koma málinu í ónýtt efni, enda lítil líkindi til eins og nú stendur, að sú till. fengi fylgi. En hvenær sem sambandsmálið verður tekið upp aftur til meðferðar með von um árangur, ætti það að vera alvarlegt íhugunarefni, hvort ekki væri rétt að sleppa ákvæðinu um tímabundinn uppsagnarfrest sambandsmálanna, og það því fremur, sem hætt er við að það ákvæði verði sá þrándur í götu, sem öll samningaumleitun strandi á í bráð og lengd. En hvort sem þeir samningar takast fyr eða síðar, hljóta allir að kannast við, að meðan sambandið helst milli landanna, er báðum þjóðunum bezt og affarasælast, að öll viðskifti gangi sem friðsamlegast, eins og það á hinn bóginn er óskandi og vonandi, að Íslendingar þurfi ekki til langframa að slíta kröftum sínum í árangurslausum deilum um málið.