28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Hannes Hafstein:

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gerði mikið úr »framfluginu«, sem verið hefði í skoðunum hans og flokksbræðra hans í sambandsmálinu á síðustu tímum. Öllu má nafn gefa. Flug hefir í öllu falli verið á þeim, flug og flótti frá hverri sigurvænlegri kröfu, frá hverju náðu takmarki. Á harða hlaupi hafa þeir yfirgefið fyrri kröfur sínar og stefnuskrár og markmið í þessu máli, jafnóðum og eitthvað hefir verið fengið eða framkvæmanlegt af því, alveg án tillits til þess, hve mikið er fengið eða framkvæmanlegt. Nú er kappið að eins þetta: eitthvað annað! Ný krafa, nýtt yfirboð. Jafnóðum og tekist hefir á síðustu árum að komast fram hjá gömlum, rótgrónum skoðunum og kenningum viðvíkjandi afstöðu Íslands gagnvart Danmörku, sem verið hafa ríkjandi með sambandsþjóð vorri, jafnóðum og lánast hefir að koma fram eða ryðja braut óskum og kröfum af Íslands hálfu, sem til skams tíma voru taldar framtíðarhyllingar einar, jafnótt hafa þeir, er lítilþægastir voru til umbótanna áður, rifið niður og forsmáð það sem fengið var, úthúðað því sem einskisvirði og verra þó, og sett upp nýjar kenningar og kröfur. Síðasta yfirboðið er þannig lagað, að vissa er fyrir því, að á fleiri yfirboðum þarf eigi að halda að sinni, og það af þeirri einföldu ástæðu, að því getur ekki orðið framgengt. Það er til hlítar búið að ganga fyrir allar æsar um það, að það er óframkvæmanlegt. Þetta er viðurkent af þeim h. þm. sjálfum, sem nú hafna sambandslagafrumv. og bjóða í staðinn fyrirkomulag, sem þeir vita að ekki er unt að fá, og þeir láta sér ekki nægja, að koma fram með þessar hugsjónir sínar sem ástæðu fyrir því, að samþ. ekki sambandslagafrumv., heldur hafa þeir nú loks komið sér saman um, að knýja skýjaborgir sínar fram í frumvarpsformi, sem lög frá alþingi.

Samþykt meirihlutatillaganna í lagaformi setur í tvennum skilningi slagbrand fyrir frekari framgang sambandsmálsins. Í fyrsta lagi þvergirðir hún fyrir alt samkomulag út á við, meðan þessu frv. er haldið að Dönum sem vilja þings og þjóðar, og leysir Dani í öllu falli af öllum loforðum og tilboðum, sem fengin eru með erfiði undanfarinna ára; í öðru lagi gerir hún miklu erfiðara inn á við að ná samkomulagi meðal íslenzku þjóðarinnar um skynsamlega og heilbrigða stefnu í þessu velferðarmáli hennar. Að knýja þessar óframkvæmanlegu kröfur fram sem samþykt lagafrumv., getur eftir öllum atvikum og ástandi naumast þýtt annað en það, að núverandi virðulegur meiri hluti á þingi vilji slá fastri ófrávíkjanlegri stefnuskrá fyrir þjóðina. Það á að gefa kreddum þeirra manna, sem nú drotna á þinginu, einskonar löghelgi með því móti, það á að láta sýnast svo, sem þetta sé ófrávíkjanlegur vilji þings og þjóðar. Ef einhverjir síðar komast að annari niðurstöðu, sjá glapræðið, sem gert er nú, og vilja halda fast við hinn gamla grundvöll Jóns Sigurðssonar og annara forvígismanna íslenzks þjóðernis, þá á þetta samþykta frumv. alþingis að vera heimildin til þess að hrópa um, að menn séu að hopa og hörfa, svíkjast undan merkjum, og »innlima« landið. Það er reiknað upp á það ístöðuleysi manna, að þora ekki að fylgja sannfæringu sinni af ótta fyrir því, að sagt sé um þá, að þeir séu ístöðulausir. Það á að negla þjóðina, fyrirskipa henni með harðri hendi, hvað hún megi hugsa og gera. Til þess tekur þessi virðulegi meiri hluti sér vald. Til þess vill hann nota hið bráðfleyga tækifæri.

En ekki kæmi mér á óvart, að jafnvel sumum af þeim kjósendum, sem mest og bezt hafa stutt kosning þessara herra, þyki hér vel langt gengið af þeim trúnaðarmönnum sínum. Þjóðin hefir í hæsta lagi sagt með kosningunum 10. sept. í fyrra, að hún vilji ekki aðhyllast sambandslagafrumv. óbreytt. En hefir hún gefið þessum herrum umboð til þess, að taka ákvarðanir um alla framtíð hennar? Nei, og aftur nei. Eg held að það sé sízt ofsagt, að slíkt sé gerræði. Margur hugsandi maður úr þeim flokki, sem þeir telja sér út um landið, mun segja: Hvers vegna þorðu þm. vorir ekki að láta þjóðina greiða atkv. um þetta mál af nýju, áður slagbrandur var settur fyrir alt samkomulag? Og eg vil fyrir mitt leyti spyrja nú: Hvers vegna þora þessar frelsishetjur ekki að eiga undir því? Það virðist augljóst, að þeim ætti að nægja að svo stöddu, að láta kröfur sínar í ljósi t. d. með rökstuddri dagskrá, úr því þeir segja sjálfir, að þeir viti, að tillögur þeirra nái ekki fram að ganga, ef ekki byggi annað undir.

Eg skyldi þó ekki leggja þungan dóm á þetta atferli meiri hlutans, ef frumvarp hans væri eftirsóknarvert, ef það væri holt og gott framtíðartakmark, og betra en það sem í boði er. En það er síður en svo. Hvorki inn á við né út á við er það oss betra í nútíð, né tryggilegra fyrir frelsi og sjálfstæði landsins í framtíðinni. Það mun sannast, þegar glímuskjálftinn og flokksæsingin rennur af þjóðinni, að það verður viðurkent, að það frumvarp, sem meiri hlutinn nú drepur, býður Íslandi alt það frelsi og alt það sjálfstæði, sem það á þessum tímum þarfnast og þolir, og gefur því, hvernig sem á er litið, margfalt betri aðstöðu fyrir framtíðina. Eg hef lagt fyrir þetta þing frumvarp til nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland, sem sérstakt ríki. Það frumvarp er bygt á þeirri stöðu meðal landanna, sem Ísland mundi fá eftir sambandslagafrumvarpinu, sem nú á að hafna. Það er samþykt af konunginum í ríkisráðinu, og hefði átt sér vísa staðfesting, ef alþingi hefði samþykt sambandslagafrumvarpið, óbreytt að efni. — Þetta frumvarp sefur enn í nefnd, og getur ekki orðið útrætt á þessu þingi. Hvers vegna? Af því einu, að meiri hlutinn vill vegna flokkshagsmuna þegja það í hel. Þetta frumvarp, sem eg nú held á í hendinni, sýnir svo áþreifanlega sem unt er, að sambandslagafrumvarpið, sem það byggist á, stendur landinu ekki í ljósi fyrir svo víðtæku og fullkomnu frelsi og sjálfstæði inn á við, sem ríki með þingbundinni konungsstjórn getur haft. Eg fullyrði, að háttv. meiri hluti getur engin rök fært fyrir því, að vér gætum sett oss frjálslegri eða oss hagfeldari stjórnarskrá fyrir það, þó tillögur hans í sambandsmálinu með kostum og kynjum væri samþyktar. Vér kæmumst ekki hænufeti framar í rétti til þess, að ráða málum vorum inn á við.

Og út á við! Þar er það þá, sem kostirnir ættu að liggja! En því fer svo fjarri, að vér værum betur settir gagnvart öðrum löndum, ef það ástand væri lögleitt, að við þvert á móti værum þá í háska og óþolandi óvissu.

Háttv. 1. þm. Skagfirðinga (Ól. Br.) tók það réttilega fram, að það er óforsvaranlegt og stórháskalegt atriði í tillögum meiri hlutans, að búa svo um málasambandið um önnur eins mál, eins og alla utanríkispólitík og hermál o. fl, að sambandsþjóðin, sem hefir þetta á hendi fyrir okkur, geti sagt þessu upp með 1 árs fyrirvara, hvenær sem henni býður við að horfa. Þetta hljóta allir heilskygnir menn að sjá, að er hreint og beint glapræði, eftir því sem okkar fátæku högum er háttað. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til þess að sjá, hvernig við værum staddir, ef Danir snögglega notuðu sér slíka heimild, sem ómögulegt er að fortaka neitt um. Þeir geta, eins og aðrir, verið óhepnir við kosningar, og fengið þröngsýnan og sérgóðan meiri hluta, er tæki það ráð að firra sig óþægindum eða kostnaði með því, að segja Íslandi upp strandgæzlu, stjórn utanríkismála og allri hervörzlu. Ef vér þannig snögglega stæðum uppi einir vors liðs á okkar fámenna og fátæka landi langt úti í útsænum, þá er ekki að eins sú hættan, sem yfir vofir, að gjöld þau, sem vér neyddumst til að leggja á oss til þess að standast þann kostnað, sem Danmörk ber fyrir oss meðan sambandið stendur, bæri oss algerlega ofurliði, heldur væri hitt enn þá háskalegra, að við ættum á hættu, að útlend ríki virtu oss alveg að vettugi sem sjálfstætt þjóðfélag, og létu sig litlu skifta, hvert þeirra yrði fyrst til þess, að rétta út ránsklóna og kasta eign sinni á hólmann, og gæti þá orðið lítið úr sjálfstæði voru, tungu og þjóðerni.

Eg er sannfærður um það, að þess muni ekki langt að bíða, að það komi í ljós, að þjóðin láti sér fátt um finnast þetta gerræði meiri hlutans, sem nú er, að ónýta alt það langa og oft erfiða starf, sem á undan er gengið fyrir pólitiskt sjálfstæði þessa lands, og slá slagbrandi fyrir alt samkomulag, allan framgang málsins um framtíð, er eigi sér fyrir endann á. Eg er viss um, að margur mun verða sá maðurinn, sem kann þeim herrum litlar þakkir fyrir frammistöðuna, að minsta kosti þegar fram líða stundir og flokksæsing hjaðnar. Þá mun það verða öllum almenningi sjáanlegt, hversu happasælt og viturlegt verk hér er verið að vinna. Sérstaklega er eg viss um það, að mörgum, sem trúað hafa á fagurmælin um þjóðræðið sem yfirherra alls þingræðis, þyki kynlega við bregða, þegar »þjóðræðis«-meiri hlutinn á þingi forðast það sem heitan eldinn, að lofa þjóðinni að koma hér að atkvæði sínu, áður en þessi slagbrandur er sleginn, þegar henni er af ásettu ráði fyrirmunað, að hugsa sig um og uppkveða úrskurð sinn um frumv. í hinu nýja formi, sem það fær við minnihluta-tillögurnar; þegar stjórnarskrárfrumvarpið, sem inniheldur allar þær breytingar, sem meirihlutahöfðingjarnir áður hafa talið allra æskilegastar, er lagt á hylluna og þagað í hel, eingöngu til þess, að ekki verði þingrof, til þess að varna þjóðinni þess, að geta séð sig um hönd og kosið sér aðra fulltrúa.

Það er ilt til þess að vita, að Íslands óhamingju skyldi verða sundrung og flokkadrættir þjóðarinnar að vopni í þessu máli. Það er sorglegt, að einmitt þetta mál skyldi vera tekið til þess að fórnfæra því á altari valdabaráttunnar, að eins til þess að ná einu vesölu ráðgjafa-embætti! Það er illa gert, að setja það tvent í samband. Það er of mikil eyðsla, óþörf ofrausn. Það hefði verið svo ofur-auðvelt að koma mér frá, án þess að gripa til slíkra örþrifaráða. Á þessu þingi hefir verið samþykt að minsta kosti eitt frv. fyrir utan þetta, sem einhlítt hefði verið til þess, að mér hefði ekki dottið annað í hug, en beiðast lausnar, heldur en að undirskrifa slík lög með konungi. Sambandsmálið var of dýrt til þess að láta það fyrir slíka smámuni. Þjóðin hefir ekki efni á þeim stríðskostnaði. Eg hélt, að andstæðingar mínir mundu geta haldið þessu eina máli, lífsmáli þjóðarinnar, fyrir utan valdaglímuna og innanlandserjurnar. Við 6 nefndarmennirnir íslenzku, sem sammála urðum, höfðum það hugfast frá upphafi, að reyna af öllum mætti að halda þessu máli fyrir utan allar flokkadeilur og ræða það við Dani sem umboðsmenn allrar íslenzku þjóðarinnar, fulltrúar allra flokka hér á landi. Sama anda vonuðumst við eftir hér heima, enda kom það fram, að í öllum héruðum landsins tóku sjálfstæðustu, glöggskygnustu og samvizkusömustu mennirnir frumvarpinu, án tillits til alls sem á undan var gengið, án tillits til flokka og fylgis. Eins úr flokki þáverandi stjórnarandstæðinga aðhyltust frumvarpið menn, sem framarlega hafa staðið meðal þeirra, sem viðkvæmastir eru og vandlátastir um rétt Íslands og sæmd, og geta í öllum greinum borið höfuðið eins hátt, þar sem um heiður og framtíð Íslands er að ræða, eins og þeir, sem hreiknastir eru nú af framgöngu sinni og geypilegum sigri.

En þeir sem gengist höfðu fyrir sundrungunni áður, og þurftu fyrir hvern mun að ná meiri hluta við kosningarnar, voru á annari skoðun; þeir litu á hitt, hverjir mundu verða í meiri hluta á þingi, ef frumvarpið kæmist fram. Þeir hófu þá á móti því þá orrahríð, að slíks eru engin dæmi í stjórnmálasögu Íslands, tilfinningar almúgans voru æstar upp á allar lundir, og niðurstaðan varð sú, sem nú er að koma fram.

Eg hefi áður sagt, að eg álít tilgangslaust fyrir mig, að fara hér að ræða um einstök atriði í þessu máli. Skoðun mín er háttv. þingmönnum kunn og ræða mín snýr ekki atkvæði eins einasta manns. En eg get þó ekki skilist svo við þetta mál, að eg lýsi því ekki yfir að lokum, að eg get þó, þrátt fyrir alt, ekki örvænt um sigur málsins í framtíðinni. Eg sleppi ekki voninni um það, að skynsemi íslenzku þjóðarinnar sigri, og að meiri hluti hennar hafi þann hug og það þrek til að bera, að hann þori að aðhyllast hið rétta, þrátt fyrir öll óp og brigzl æsingamannanna um undanhald og tilslakanir. Eg treysti því, að það lánist að verja þjóðina þeim afleiðingum út á við, sem óttast má að annað eins glapræði eins og höfnun sambandslagafrumvarpsins hafi í för með sér; og þó að við, sem átt höfum við málið um hríð, séum nú úr sögunni, þá muni vekjast upp í þjóðinni aðrir menn, dugandi drengir, með hugrekki og hamingju til þess að kippa málinu aftur inn á rétta braut og leiða það til sigurs, til heilla fyrir land og lýð.