19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Eg verð að halda því fram gagnvart háttv. þm. Ísf. að eg hafði rétt til að tala eins og eg gerði, sökum þess að eg er í minni hluta. Það var beinlínis rangt hjá háttv. þm. Ísf. sem hann sagði um hlutfallið á milli tekna og gjalda árið 1908. Hann færði tekjuhallann fyrir fjárhagstímabilið 1906—07 yfir á árið 1908. Tekjuhallinn árið 1906 var c. 22,000 kr. og árið 1907 89,000 kr., alls á fjárhagstímabilinu 111,000 kr. En samkvæmt skýrslu fráfarandi ráðherra voru tekjurnar árið 1908, að lánum meðtöldum, c. 1,969,000 kr. og gjöldin c. 1,728,000 kr., og tekjuafgangur því c. 241,000 kr. Ef þessi skýrsla er rétt, og eg vona að enginn dirfist að rengja bana, þá þykist eg mega fullyrða, að hagur landsjóðs stæði alls eigi illa við árslok 1908.

Eg sagði að tillagið til akbrautanna væri lögákveðið — og það er rétt —, en vegna þess að ekki eru ákvæði um hin einstöku tillög í öðrum lögum en fjárlögum, getur þingið hummað fram af sér að uppfylla skyldu sína í þessu efni.

Annars vildi eg leyfa mér að spyrja hinn háttv. meiri hluta, hvernig á því stendur að sparnaðurinn þarf að vera svona dýr? því þarf að neita um 342,000 kr., þegar gjöldin þó ekki lækka nema um 154,000 kr.? Hvað er orðið af hinum 190,000 krónunum?