18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherrann (H. H.):

Eins og eg tók fram í gær við 1. umr. fjárlagafrv., er ómögulegt með sæmilega varkárri áætlun að fá tekjurnar til þess að nægja til nauðsynlegra árlegra útgjalda, og því síður til þeirra framkvæmda og fyrirtækja, sem þjóðin þarfnast og nýmæli eru. Þjóðin hefir gert svo mikils um verðar kröfur til endurbóta á samgöngumálum, mentamálum o. fl., og þær kröfur eru svo réttmætar, að þingið getur ekki dregið að sér höndina í þessum efnum án tilfinnanlegs hnekkis.

Milliþinganefndin í skattamálum landsins hefir lokið störfum sínum og sent stjórnarráðinu álitsskjal sitt um málið með 17 frumv. En þess hefir nefndin getið, að hún hafi ekki lokið við málið til fullnustu. Því hafa frv. þessi ekki verið lögð undir þetta þing, enda komu þau svo seint frá nefndinni, að stjórnarráðinu var ómögulegt að athuga til hlítar tillögurnar og taka afstöðu til þeirra. Auk þess var því lýst yfir í sumar sem leið, að skattamálin kæmu ekki til atkvæða þessa þings, með því að kosning þingmanna þeirra sem það skipa, væri aðallega bundin við annað stórmál, nefnilega sambandsmálið eingöngu.

Af þeim sökum, sem nú var greint, hefir stjórnarráðinu þótt ráðlegast að leggja til, að þessi bráðabirgðaráðstöfun yrði gerð, fremur en að taka nýtt lán eða grípa til viðlagasjóðs, sem reyndar varla getur komið til greina. Ekki hefir þótt vert að leggja til að hækka útflutningsgjaldið, heldur eingöngu aðflutningsgjaldið, enda er það gjald yfir höfuð ekki of hátt; það er víða annarsstaðar miklu hærra á samskonar vörutegundum. Að vísu hefir upphæð þess hækkað mjög á seinni árum, svo að nú er aðflutningsgjald með varkárri áætlun 614 þús. kr. hærra um fjárhagstímabilið en fjárhagstímabilið 1900—1901. En það má þó fullyrða, að almenningi hafi ekki orðið það tilfinnanlegt, svo að landsmenn hafi þess vegna orðið fátækari.

Tollur á kaffi og sykri er eigi hár í samanburði við það, sem gerist víða annarsstaðar. Samt hefir landsstjórnin eigi viljað leggja til að hækka þann toll í þetta sinn, enda er sennilegt að til hækkunar dragi á þeim tolli af öðrum ástæðum innan skamms tíma. Eftir meðaltali 3 síðustu ára er svo mikið flutt af kaffi og sykri til landsins, að ef tollur á þessum vörutegundum væri hækkaður um 1 eyri á hverju pundi, mundi það veita landssjóði 100 þús. kr. tekjuauka um fjárhagstímabilið. Þess vegna er auðsætt, að ekki þyrfti mikla hækkun á þessum tollum til þess að t. d. vínfangatollurinn jafnaðist upp, ef til kæmi, að landssjóður misti hans.

Í þessu frumv. er því eingöngu farið fram á hækkun á vínfangatolli, tóbakstolli og tollgjaldinu af hinum smærri tollgreinum, tegrasi, chocolade, brjóstsykri og nýr tollur lagður á kakao. Vínfangatollur er hér lágur í samanburði við það, sem er í öðrum löndum, t. d. í Englandi og Noregi. Í Noregi er tollurinn af brennivíni kr. 2.65—3.20 á líter í ílátum undir 50 lítrum, en kr. 2.80—3.20 í stærri ílátum. Af neftóbaki er tollurinn í Noregi kr. 3.80 á kgr., af reyktóbaki og munntóbaki kr. 2.70 á kgr. og af vindlum kr. 6.00 á kgr.

Í athugasemdunum við frv. er yfirlit yfir aðflutning tollskyldrar vöru undanfarin ár. Ef borinn er saman tollurinn eftir núgildandi toll-lögum við tollhækkun þá, sem frumv. fer fram á, verður hækkunin:

Af öli 3½ aur. á potti.

— brennivíni 48 aur. á potti.

— rommi, cognaci, whisky o. fl. 22 aur. á potti.

— rauðvini 301/2 aur. á potti o. s. frv., sem sjá má af yfirlitinu. Yfir höfuð er tollurinn hafður með þægilegum tölum, svo að auðvelt er að reikna hann og átta sig á honum, og er hann því handhægur í viðskiftum.

Yfirlitið sýnir, að svo framarlega sem vöru-aðflutningurinn minkaði ekki, þá mundi tekjuauki landsins við tollhækkunina nema um 240 þús. kr. á ári, eða 480 þús. kr. um fjárhagstímabilið. En þó að aðflutningurinn hafi undanfarin ár farið stöðugt vaxandi, má þó gera ráð fyrir því, að tollhækkunin muni draga úr kaupum, einkum á þeim vörum, sem mest er lagt til, að hækkað verði á, t. d. brennivíni. En jafnvel þó, að gert sé ráð fyrir því, að af brennivíni flyttist alt að 30%, — það er 82230 pottum — minna inn í landið eftir tollhækkunina en nú flytst, þá mundu þó tekjur landssjóðs af brennivíni einu nema alt að því 50 þús. kr. meira á ári, eða 100 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, en nú, og vínfangatollurinn allur mundi þá gefa um 150 þús. kr. tekjuauka.

Takmörkun brennivíns-brúkunarinnar mundi aðallega koma fram hjá landsmönnum sjálfum, því að ólíklegt er, að útlendir sjómenn, sem hér eru vanir að kaupa vínföng, mundu láta verðhækkun þá, sem af tollaukanum leiðir, vaxa sér í augum. Því tel eg víst, að bindindisvinum sé kærkomið þetta frumv., þar sem það stuðlar að takmörkun áfengisnautnar í landinu. Eigi síður ætti þeim að vera frumv. kærkomið, er berjast fyrir aðflutningsbanni vínfanga, — sem eg fyrir mitt leyti raunar tel óheppilegt, og jafnvel skaðlegt, — því að eins og tekið er fram í athugasemdunum við frumv., þá mundi hátt aðflutningsgjald vera afar hentugt, ef ekki nauðsynlegt undirbúningsstig undir slíka ráðstöfun. — Bæði mundi það gera bannið vinsælla hjá mörgum þeim, sem fyrir siðasakir verða að hafa áfengi um hönd, og í annan stað gera mönnum miklu torveldara að afla sér, meðan bannlögin væru í aðsigi áfengisbirgða, sem síðar, er bannið væri komið á, gætu verið hafðar að skálkaskjóli fyrir leynikaupum og ýmsum undanbrögðum.

Að því er kemur til tollhækkunar á tóbaki, þá virðist ekki ástæða til að ætla, að tollhækkunin muni draga úr aðflutningi þess; hann hefir verið mjög jafn að undanförnu. Aftur í móti er tollurinn af vindlum, kr. 5.20 á kgr., svo hár, að hækkun á honum mundi að líkindum valda tekjurýrnun. Sama er að segja um bitter og toll af honum.

Aftur í móti hefir verið lagt til, að gera toll af vindlingum jafn-háan vindlatolli, því að undarlegt sýnist, að ívilna þeirri vörutegund, þar sem hún er bæði að tiltölu dýrari í innkaupum en vindlar og óhollari, en þó notuð hérlendis aðallega af þeim, sem sízt skyldi.

Eg skal ekki gera fleiri almennar athugasemdir um frv. að þessu sinni. Vona eg, að háttv. þingd. taki frumv. til alvarlegrar íhugunar. Eftir atvikum virðist mér réttast, að vísa frv. til fjárlaganefndar.