22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Nefndin, sem sett var til þess að íhuga þetta mál, ræður þinginu fastlega til að hraða umræðum um það, sakir þess að einmitt nú er bráðlega von skipa, sem fullvíst er um að hafi að færa miklar birgðir áfengis. Nefndinni þykir réttast að þetta áfengi komi einnig undir tollhækkun þá, er hér ræðir um.

Frumvarpið vill hún samþ. óbreytt, að öðru en því, að hún óskar að einnig þær vínbirgðir, sem nú eru á ferðinni, skuli falla undir það.

Reyndar munu skoðanir manna skiftar um það, hvort lögin geti gilt þannig aftur fyrir sig. Þó væri það að nokkru leyti í samræmi við lögin um bittertollinn (1907). Að vísu er þó sá munurinn á, að þá var um sölutoll að ræða, en hér um aðflutningsgjald. Það gæti verið varhugavert fyrir þá sök.

Hér er því mest undir því komið, hvort hæstv. ráðherra treystir sér til að afgreiða þetta mál með símanum, svo að engin bið þurfi að verða.

Nefndin hefir fyrir satt, að mikill vínforði muni nú vera á leið hingað, eða verða innan fárra daga á leið hingað, með skipum frá útlöndum, bæði »Laura«, »Vendsyssel« og »Sterling«. Spurningin er nú, hvort þingið eigi að auka með því tekjur landssjóðs eða ekki, að láta lögin einnig ná yfir þær vörur, sem á leiðinni eru.

Þess er vænst, að hæstv. ráðh. skýri frá möguleikunum á að framkvæma þetta, sem nú var farið fram á.

Ef greiðara verður að fá frv. staðfest þannig símaleiðina óbreytt og viðaukalaust, þá mun nefndin taka það til íhugunar.

Það mun þó heppilegra, að frumv. sé samþ. óbreytt, heldur en að samþyktin dragist mjög lengi, því að á þeim tíma gætu kaupmenn selt mikið af birgðum sínum.

Bið eg háttv. þingdeild að fallast á tillögur nefndarinnar, og vil eg jafnframt gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðherra, hvort þannig lagað samþykki muni ekki fást.