22.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Eg er þakklátur hæstv. ráðherra (H. H.) fyrir þær bendingar, er hann hefir gefið í þessu máli. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, að það eru engin dæmi til þess hér að lög hafi verið send til staðfestingar með síma, en á einhverju fyrsta skifti skapast öll fyrirdæmi. Mér er það kunnugt, að t. d. veðbókarvottorð eru tekin gild, þótt þau gangi í gegnum síma, ef hlutaðeigandi yfirvald undirskrifar þau í viðurvist símstjóra og símstjóri vottar undirskriftina. Það er enn fremur rétt hjá hæstv. ráðherra (H. H.), að villur geta slæðst inn í símskeyti, en ráð við því er alhægt og altítt, það að endurtaka skeytið aftur þangað til það fæst orðrétt, og í þessu tilfelli verður það naumast svo mikill kostnaður, að það borgi sig ekki, það þarf ekki toll af mörgum pottum áfengis til þess.

Hæstv. ráðherra tók eftir því, sem og nefndinni var ljóst, að eftir nefndarálitinu kynni það að vera vafa undir orpið, hvort hækkunin komi niður á einstaka menn, sem ekki selja vín, en meining nefndarinnar var, að hækkunin næði að eins til þeirra, er selja vín, og áskilur nefndin sér rétt til að orða tillöguna svo, að allur vafi hverfi um það, hver tilgangurinn sé. Eg get ekki skilið, að ekki sé ástæða til þess að hraða þessu máli, því að ef lögin ganga ekki í gildi fyr en t. d. síðast í marz, þá getur talsvert verið horfið af vínbirgðunum, sem komið hafa til landsins á þeim tíma. Eg vil ekki gera mönnum getsakir, en það er ætlun mín, að kaupmenn mundu reyna að selja birgðir sínar svo fljótt sem þeim væri unt, ef þeir vissu að tollhækkunin væri í nánd.

Réttarmeðvitund manna virðist ekki vera svo næm, að menn álíti það neina sérlega óvirðing, þótt menn svíki toll; þvert á móti virðist svo sem, að almenningur álíti það bera vott um kaupmannshygni.

Eg minnist þess, að á síðastliðnu vori komu upp eigi all-lítil tollsvik hér í bænum, en flest blöðin létu þess ógetið hver tollsvikarinn var, og ímynda eg mér að það hafi stafað af því, er eg áður hefi bent á, réttarmeðvitundarleysinu, heldur en af því, að þessi blöð, sem þögðu um nafnið, höfðu eigi all-litlar auglýsingar frá hlutaðeigandi manni um þetta leyti.

Þótt því að þrír gufuskipsfarmar af áfengi kæmi hingað til bæjarins, þá er ekki víst að öll kurl komi til grafar, ef lögin eru ekki gengin í gildi, áður en skipin koma, en hins vegar tollurinn allmikið fé. Eg hefi heyrt það á mönnum, að lög þessi muni standa í sambandi við væntanlegt frumv. til laga um aðflutningsbann áfengra drykkja, og eg vil taka það fram, að slíkt frv. getur engu að síður náð samþ. þingsins, því að líklegt er að slíkt bann komi með fyrirvara nokkuð löngum, og þá ekki vit í öðru, en að hafa tekjur af því víni, sem væri selt á meðan. Enda full þörf á því nú, að ná sem mestu af því víni, sem innflutt er, því að það er áreiðanlegt að ef þessi lög ná ekki fram að ganga strax, þá verður vínfangatollurinn ekki stórmikill næsta ár, því að hækkunin er svo mikil, að það borgar sig fyrir kaupmenn að fá ársbirgðir. Annars vonast nefndin til þess, að hún fái tækifæri til þess að bera sig saman við þm. og hinn hæstv. ráðh. um þetta mál.