06.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Nefndin hefir verið samdóma um það að ráða deildinni til að samþykkja frumvarpið. Þarfirnar eru miklar og svo knýjandi, að það verður ekki komist hjá að auka tekjur landsjóðs til bráðabirgða á einn eða annan hátt. Og nefndin álítur hins vegar ekkert verulegt athugavert við það, að fara einmitt þessa leið, til þess að fá tekjurnar auknar. Að vísu er tollhækkunin mikil; en tollarnir verða þó ekki hærri en gerist um sams konar vörutegundir í nágrannalöndunum, t. d. Noregi, auk þess sem þar eru miklu fleiri vörutegundir tollaðar en hér á landi. — Það má nú ekki búast við því, að tekjurnar af tollinum vaxi alveg í hlutfalli við tollhækkunina, því að tollaukinn er mestur á áfengi, og getur vel verið, að það verði til þess, að áfengiskaup í landinu minki. Það væri vel unandi við þær afleiðingar, að dragi úr áfengiskaupum, en eg geri ráð fyrir, að það verði ekki meiri brögð að því en svo, að tekjuaukinn verði þó töluverður, og líklega nógur til þess, að vega á móti tekjuhalla þeim, sem nú er gert ráð fyrir á fjárlagafrumvarpinu.

Nefndin vill flýta málinu sem mest, því að frumvarpið þarf að verða afgreitt sem lög frá þinginu svo snemma, að það verði sent til staðfestingar ekki síðar en með Lauru eða Sterling, sem eiga að fara héðan frá Rvík þ. 20. og 21. þ. m. En einkum leggur nefndin áherzlu á þetta, ef breytingartillagan við 3. gr. frumv. verður samþykt, og því óskar nefndin að sú breytingartillaga, hin síðari á þingskj. 109, verði borin upp fyrst. Ef breyt.till. verður ekki samþ., er nfl. ekki nærri eins áríðandi að hraða málinu, því að lögin gilda þá hvort sem er að miklu leyti frá fastákveðnum tíma, 24. f. m. (febr.).

Hin breytingin, sem nefndin fer fram á, sú fyrri á þingskj. 109, er innifalin í því, að tollurinn verði 5 aurum hærri á brendu kaffi en óbrendu. Þetta er gert til þess að girða fyrir, að menn komist hjá tollhækkuninni með því að flytja inn brent kaffi í stað óbrends, vegna þyngdarinnar. — En þetta er ekki svo mikið atriði, að nefndin vilji þess vegna senda málið aftur til neðri deildar. Og því verður þessi breyt.till. tekin aftur, ef breytingartillagan við 3. gr. frumv. verður feld.

Nefndin álítur óeðlilegt það ákvæði 3. gr., að aðflutningsgjald eftir frumvarpinu skuli greitt af vörum, sem flytjast til landsins eða hafa flutzt alt frá 24. febr. Það er alt af óeðlilegt, að lög séu látin gilda áður en þau verða til; og einkum er það bæði óeðlilegt og hart, að láta lögin gilda frá þeim tíma, þegar þau voru komin svo skamt á leið, eins og þetta frumv. var þ. 24. f. m. Og því varhugaverðara er þetta, þegar um er að ræða svo hörð lög, sem þessi eru. Tollhækkunin er gífurlega mikil og kæmi mjög hart niður á mönnum, sem ef til vill hafa verið búnir að panta svo og svo miklar vörubirgðir í góðri trú, og verða svo máske að liggja með vörumar miklu lengur en ella, einmitt vegna tollhækkunarinnar eða þar af leiðandi verðhækkunar. — Það er enn eitt að athuga um þetta ákvæði, að lögin skuli gilda fyrir sig fram, nfl. að lögin gætu að þessu leyti orðið mjög óheppilegt fordæmi fyrir íslenzka löggjöf framvegis. Ef slíku væri beitt um mörg lög, gæti orðið undarlegt réttarástand í landinu.

Loks mundu lögin eða tollhækkunin koma misjafnlega hart niður á mönnum, ef þetta ákvæði nær fram að ganga. Það er kunnugt orðið, að sumir kaupmenn í Reykjavík fengu afarmiklar birgðir af vörutegundum þeim, sem hér er um að ræða, rétt fyrir þann tíma, sem gildi laganna á að miðast við. Þessir menn mundu standa miklu betur að vígi, óverðskuldað, heldur en aðrir, sem ef til vill hafa pantað á alveg sama tíma, en ekki fengið vörurnar fyr en eftir 24. febr., vegna óheppilegra skipaferða eða af öðrum ástæðum. Eg legg mikla áherzlu á þetta atriði; og hefði ef til vill verið betra að leggja gjaldaukann á allar vörubirgðir manna. En þá væri þó ekki um eiginlegt aðflutningsgjald að ræða. Tekjuaukinn hefði orðið töluverður á þann hátt; en tekjuaukinn af þessu, að láta lögin gilda fyrir sig fram, frá 24. febr., verður svo óverulegur, að það sýnist lítil ástæða til að fara inn á svo viðsjárverða braut.

Af þessum ástæðum vill nefndin breyta ákvæðinu. En hún vill þó ekki gera það að kappsmáli, ef það þyrfti að verða frumvarpinu að falli. En það mun varla koma til þess, að þetta verði kappsmál á milli deildanna. Eg vona að neðri deild haldi ekki svo fast við þetta ákvæði. Að minsta kosti er engin áhætta að láta málið fara aftur til neðri deildar, því að ef breytingin gengur ekki í gegn þar, svo að frumv. verði óbreytt eins og það er nú, þá er ekki nærri eins mikil nauðsyn að hraða málinu, af þeirri ástæðu sem eg gat um áðan Aftur er áríðandi að flýta málinu sem mest, ef breytingartillaga nefndarinnar yrði ofan á, og því legg eg til, að hún verði samþykt, og málið afgreitt til Nd. sem allra fyrst.